Skoðun

Akkuru

Halla Þórlaug Óskarsdóttir skrifar
Systurdóttir mín er á áhugaverðum aldri. Eða öllu heldur aldri hins óbilandi áhuga. Ja, eða ennfremur aldri hinna óteljandi spurninga. Hún tekur engu sem sjálfsögðum hlut.

„Akkurru ætlarðu að vera í þessari peysu?“

„Af því ég er með gæsahúð.“

„Akkurru ertu þá með hettuna?“

Hún setur spurningamerki við allt. Svörin líka. Bróðursonur minn er nokkrum árum eldri og ekki alveg jafnhissa á heiminum. Ég veit svo sem ekki hvort hann hafi fengið svör við öllum sínum spurningum en frænka mín telur hann allavega hafa þau á reiðum höndum. Og yfirleitt er hann fljótur til svars.

„Akkurru er pabbi þinn með skegg hér?“

„Útaf því að það bara vex á körlum.“

Á átjándu spurningu getur verið freistandi að svara með hinu aldrepandi „afþvíbara“. Kannski ættum við samt oftar að staldra við og taka þessi spurulu börn til fyrirmyndar, vegna þess að mörgu má alveg velta fyrir sér. Af hverju ganga strákar ekki í kjólum? Af hverju mála stelpur sig? Af hverju eru glerflöskur endurunnar en ekki endurnýttar?

Litla frænka mín truflar mig við þessar heimspekilegu vangaveltur og rekur fréttasíðu framan í mig. „Akkurru dó þessi leikari?“ Mér finnst svo mikilvægt að spyrja spurninga og þess vegna reyni ég alltaf að svara þegar frænka mín spyr. En stundum rekur mig í rogastans. Ég hika og horfi á myndina af Robin Williams. „Hann ... hann var bara orðinn svo rosalega lasinn. Í hjartanu.“ Hún horfir á myndina. Lítur svo á mig. „Er hann til í alvörunni?“ „Já.“ „Akkurru var hann veikur?“ Aftur hika ég. „Umm... Það er góð spurning. Sumir verða veikir.“

Við sitjum þegjandi í dálitla stund og brátt hefur hún gleymt sér í tölvuleik. Skyndilega dettur mér í hug að snúa vörn í sókn. „Af hverju gerirðu svona?“ segi ég og bendi á skjáinn. Frænka mín lítur upp með vanþóknunarsvip og horfir á mig í dálitla stund áður en hún yppir öxlum og heldur áfram í leiknum. Sumar spurningar eru einfaldlega ekki svaraverðar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×