Þjóðkirkjan 2.0 Atli Fannar Bjarkason skrifar 29. október 2015 07:00 „Við þurfum app!“ Séra Helgi var staðinn upp úr sæti sínu og baðaði höndum til himins eins og undir lokin á velheppnaðri sunnudagsmessu. Hann leit á kollega sína sem virtust ekki sannfærðir og þögðu. „Unga fólkið lítur varla upp frá símunum sínum. Ég segi, ef unga fólkið er ekki til í að horfa til himins, þá látum við himnaríki horfa á það.“ Algjör þögn var í salnum og séra Helgi starði á kollega sína. Hann var byrjaður að svitna þegar séra Kristinn stóð hægt upp og byrjaði að klappa saman risavöxnum lófum sínum. Á meðan takturinn í klappinu þyngdist og krafturinn jókst tóku prestarnir við sér, stóðu upp einn af öðrum og byrjuðu að klappa. Loks byrjaði nýútskrifaður guðfræðingur að hrópa nafn Helga og salurinn tók undir: „Helgi! Helgi! Helgi!“ Séra Helga leið vel – senn myndi eyðimerkurgöngu þjóðkirkjunnar ljúka. Tárin tóku að streyma niður vanga hans og hann horfði þakklátur út í salinn á æsta fulltrúa almættisins kyrja nafn hans. Í gær var hann lærisveinn en nú leið honum eins og Jesú Kristi endurholdguðum. Áður en séra Helgi tók til máls á ný rétti séra Guðný upp hönd og bað um orðið: „En hvernig komum við appinu í síma unga fólksins? Með heilögum mætti?“ Salurinn horfði með spyrjandi augnaráði á nýskipaðan leiðtoga sinn, sem brosti og gekk hægum skrefum að séra Guðnýju. Hann rétti út hönd sína og strauk blíðlega yfir kinn hennar: „Ríki og kirkja tengjast órjúfanlegum böndum. Ríkið á bankana, bankarnir eiga fyrirtækin og fyrirtækin selja símana. Trúna fengum við í vöggugjöf og appið fá framtíðarkynslóðir frítt með þegar þær kaupa síma.“ Séra Guðný stóð hægt upp og starði forviða í himinblá augu séra Helga. „Þú ert snillingur,“ hvíslaði hún og þrýsti líkama hans að sínum. Þau grétu og salurinn trylltist úr fögnuði. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Atli Fannar Bjarkason Mest lesið Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Íslenski fasteignamarkaðurinn: spilavíti þar sem húsið vinnur alltaf Ingvar Þóroddsson Skoðun Jólaheimsóknir á aðventunni Guðrún Karls Helgudóttir Skoðun Hvað viltu að bíði þín heima? Þórdís Dröfn Andrésdóttir Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Þegar Skagamenn glöddu lítið hjarta María Rut Kristinsdóttir Skoðun Vondar hugmyndir í verðbólgu Hildur Sverrisdóttir Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Jæja, ræðum þá þetta dásamlega Evrópusamband Haraldur Ólafsson Skoðun
„Við þurfum app!“ Séra Helgi var staðinn upp úr sæti sínu og baðaði höndum til himins eins og undir lokin á velheppnaðri sunnudagsmessu. Hann leit á kollega sína sem virtust ekki sannfærðir og þögðu. „Unga fólkið lítur varla upp frá símunum sínum. Ég segi, ef unga fólkið er ekki til í að horfa til himins, þá látum við himnaríki horfa á það.“ Algjör þögn var í salnum og séra Helgi starði á kollega sína. Hann var byrjaður að svitna þegar séra Kristinn stóð hægt upp og byrjaði að klappa saman risavöxnum lófum sínum. Á meðan takturinn í klappinu þyngdist og krafturinn jókst tóku prestarnir við sér, stóðu upp einn af öðrum og byrjuðu að klappa. Loks byrjaði nýútskrifaður guðfræðingur að hrópa nafn Helga og salurinn tók undir: „Helgi! Helgi! Helgi!“ Séra Helga leið vel – senn myndi eyðimerkurgöngu þjóðkirkjunnar ljúka. Tárin tóku að streyma niður vanga hans og hann horfði þakklátur út í salinn á æsta fulltrúa almættisins kyrja nafn hans. Í gær var hann lærisveinn en nú leið honum eins og Jesú Kristi endurholdguðum. Áður en séra Helgi tók til máls á ný rétti séra Guðný upp hönd og bað um orðið: „En hvernig komum við appinu í síma unga fólksins? Með heilögum mætti?“ Salurinn horfði með spyrjandi augnaráði á nýskipaðan leiðtoga sinn, sem brosti og gekk hægum skrefum að séra Guðnýju. Hann rétti út hönd sína og strauk blíðlega yfir kinn hennar: „Ríki og kirkja tengjast órjúfanlegum böndum. Ríkið á bankana, bankarnir eiga fyrirtækin og fyrirtækin selja símana. Trúna fengum við í vöggugjöf og appið fá framtíðarkynslóðir frítt með þegar þær kaupa síma.“ Séra Guðný stóð hægt upp og starði forviða í himinblá augu séra Helga. „Þú ert snillingur,“ hvíslaði hún og þrýsti líkama hans að sínum. Þau grétu og salurinn trylltist úr fögnuði.