Larsen-áhrifin Bergur Ebbi skrifar 27. nóvember 2015 07:00 Í heimi hljóðfræða er til fyrirbæri sem lýsa má þannig að hljóðgjafi sendir frá sér hljóð sem berst aftur til uppruna síns og sendist þaðan aftur sömu leið í sífelldan hring. Vísindin nefna þetta Larsen-áhrif eftir Dananum Søren Absalon Larsen sem setti saman eðlisfræðikenningu um fyrirbærið. Á ylhýru enskunni gengur þetta undir nafninu „audio feedback“. Þetta er það sem gerist ef einhver, til dæmis ræðumaður í brúðkaupi, heldur hljóðnema of nálægt hátölurunum þannig að hljóðið úr þeim lekur aftur inn í hljóðnemann og breytist í óþægilegt ýl sem fer hring eftir hring inn í hljóðnemann, í gegnum magnarann, út um hátalarana og aftur inn í hljóðnemann og þannig áfram. Þannig eru Larsen-áhrifin. Langt, óþægilegt og síhækkandi píp. Í brúðkaupinu halda allir fyrir eyrun. Pípið er óbærilegt. Ég tel víst að skoðanir fólks á Vesturlöndum séu fjölbreyttar. Skoðanakúgun líðst í síðra mæli en víða í heiminum og mun síður en fyrr á öldum. Fjölbreytnin getur samt verið blekkjandi. Skoðanir eru eins og öll önnur fyrirbæri, háð gæðum ekki síður en magni. Stærstur hluti skoðana okkar eru Larsen-áhrif. Sérhver manneskja er magnari og hljóðnemi og lítið meira en það, þátttakandi í stóru og háværu pípi sem fer síhækkandi. Ég er engin undantekning. Það er bærilegra að bæta í sóninn en að slá falska nótu. Það versta sem getur gerst er að missa trúna á ýlinu því þá er fjandinn laus. Ef maður boðar til 1.000 manna veislu þá er ekki víst að allir skemmti sér. Flestir heyra músík og skemmtilegar samræður en sumir, allavega einn af þúsund, heyra hávaða og skvaldur. Sem gestgjafi er ósköp lítið hægt að gera í því. Kannski er hægt að lækka í tónlistinni en varla leysir það vandamálið ef þaggað er niður í tónlistinni og allir eiga skyndilega að ræða hvers vegna þessi eini heyrir píp þegar hinir heyra mismunandi skoðanir og sögur. Þá er öruggt að allir fara að heyra píp og þegar allir heyra píp þá fyrst byrjar pípið að heyrast úr þeim, þá fyrst eru Larsen-áhrifin komin á fullt skrið.Bara eins og skírnarnafnið Þessum pistli er ekki ætlað að lýsa yfir sturlunarástandi mínu. Ég er ekki haldandi fyrir eyrun vegna þess að ég er kominn með nóg af stanslausu ýli en stundum er þörf á að sá fræjum í jörð og bíða. Heimurinn er ekki að breytast jafn hratt og við höldum. Fólk var líka grimmt fyrir fimm þúsund árum. Siðspilling var líka til fyrir fimm þúsund árum. Það er öllum hollt að vita að hugsanir um uppruna illskunnar eru ekki nýjar. Þessar hugsanir eru ekki bara í trúarbrögðum heldur skáldverkum, tónverkum og listaverkum. Þær eru flúraðar á veggi sögunnar. En illskan er ekki það eina sem hefur verið mönnum hugleikið. Það er mér persónulega enn meiri ráðgáta hvaðan góðmennskan kemur. Að samfélag manna skuli virka er þrátt fyrir allt ein stór ráðgáta frá upphafi til enda. Þýska skáldið Gottfried Benn, sem á sinni tíð upplifði hörmungar stríðs og tortímingu þjóðar sinnar, var alveg jafn undrandi. Eftir að hafa séð alla illskuna var hann samt mest undrandi á hvaðan góðmennska væri eiginlega upprunnin. Svona hljóðar upphafserindi ljóðs hans „Fólki mætt“:Ég hef mætt fólki sem þegar það er spurt til nafns svarar afsakandi – eins og það vilji enga athygli og geri ekkert sérstakt tilkall til þess „Fröken Vivian“ og bætir svo við: „eins og skírnarnafnið“ eins og það vilji gera lífið auðveldara fyrir manni engin erfið nöfn eins og „Popiol“ eða „Babendererde“ „bara eins og skírnarnafnið“ vinsamlegast – ekki reyna of mikið á minni yðar. Hann endar ljóð sitt svona: Ég hef oft spurt sjálfan mig að því en aldrei fundið svar Hvaðan blíða og góðmennska kemur Fram á þennan dag veit ég það ekki og nú fer ég. Hin eilífa hringrásÉg held að við sjáum góðmennsku mun oftar en við áttum okkur á. Góðmennska er ekki endilega þegar fólk gefur betlurum peninga eða faðmar hvert annað. Maður þarf ekki einu sinni að mótmæla stríðsátökum til að vera góður, styðja baráttu flóttamanna, lýsa yfir vantrausti á máttlausu réttarkerfi. Ég held að þetta geti allt verið birtingarmynd góðmennsku. En það er líka til svo mikið af fólki, í þessu samfélagi og öðrum, sem lætur verkin tala. Það sem um ræðir er meira en hógværð. Það er óviðjafnanleg mýkt og áreiðanleiki. Það er fyrirbæri sem er ekki hægt að skrifa pistla um og verður aldrei skipað í flokka. Ég hef, eins og skáldið Benn, hitt fólk sem magnar ekki upp, sem er sama hvort gjörðir þess séu fordæmisgefandi, fólk sem gæti aldrei verið annað en gott og þarf enga viðurkenningu á því. Uppruni gæskunnar er mér jafn mikill leyndardómur og uppruni illskunnar. Ég hef ekki áhyggjur af mannkyninu. Það er til ýmislegt verra en langt, óþægilegt og síhækkandi ýl. Þetta er þrátt fyrir allt tónn, nokkuð reikull og flöktandi, en eins og öll músík þá hefur hann snertifleti við hina eilífu hringrás. Kannski er í því ljósi við hæfi að enda þessa grein þar sem hún byrjaði. Á umræðu um Larsen sjálfan. Hann fór í ágætis hringferðalag meðan hann lifði, byrjaði ferilinn sem guðfræðingur en starfaði lengst af sem eðlisfræðingur. Ætli hann hafi ekki verið einn af þessum sem skildu ekki ágreininginn þar á milli. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bergur Ebbi Mest lesið Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Barnaskapur Bjarna Ben; Fjölmargar þjóðir með meiri kaupmátt en við! Ole Anton Bieltvedt Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Jæja, ræðum þá þetta dásamlega Evrópusamband Haraldur Ólafsson Skoðun Sigurður Ingi og óverðtryggingin Hjalti Þórisson Skoðun Misskilin mannúð í hælisleitendamálum Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir Skoðun Halldór 23.11.2024 Halldór „Útlendingar“ og „þetta fólk“ Jasmina Vajzović Crnac Skoðun Hvert er fóðrið til að skipulögð glæpastarfsemi geti þrifist hér á landi? Jú, villuráfandi stefnulaus ungmenni! Davíð Bergmann Skoðun Flokkur fólksins vill efla byggð um land allt! Lilja Rafney Magnúsdóttir Skoðun
Í heimi hljóðfræða er til fyrirbæri sem lýsa má þannig að hljóðgjafi sendir frá sér hljóð sem berst aftur til uppruna síns og sendist þaðan aftur sömu leið í sífelldan hring. Vísindin nefna þetta Larsen-áhrif eftir Dananum Søren Absalon Larsen sem setti saman eðlisfræðikenningu um fyrirbærið. Á ylhýru enskunni gengur þetta undir nafninu „audio feedback“. Þetta er það sem gerist ef einhver, til dæmis ræðumaður í brúðkaupi, heldur hljóðnema of nálægt hátölurunum þannig að hljóðið úr þeim lekur aftur inn í hljóðnemann og breytist í óþægilegt ýl sem fer hring eftir hring inn í hljóðnemann, í gegnum magnarann, út um hátalarana og aftur inn í hljóðnemann og þannig áfram. Þannig eru Larsen-áhrifin. Langt, óþægilegt og síhækkandi píp. Í brúðkaupinu halda allir fyrir eyrun. Pípið er óbærilegt. Ég tel víst að skoðanir fólks á Vesturlöndum séu fjölbreyttar. Skoðanakúgun líðst í síðra mæli en víða í heiminum og mun síður en fyrr á öldum. Fjölbreytnin getur samt verið blekkjandi. Skoðanir eru eins og öll önnur fyrirbæri, háð gæðum ekki síður en magni. Stærstur hluti skoðana okkar eru Larsen-áhrif. Sérhver manneskja er magnari og hljóðnemi og lítið meira en það, þátttakandi í stóru og háværu pípi sem fer síhækkandi. Ég er engin undantekning. Það er bærilegra að bæta í sóninn en að slá falska nótu. Það versta sem getur gerst er að missa trúna á ýlinu því þá er fjandinn laus. Ef maður boðar til 1.000 manna veislu þá er ekki víst að allir skemmti sér. Flestir heyra músík og skemmtilegar samræður en sumir, allavega einn af þúsund, heyra hávaða og skvaldur. Sem gestgjafi er ósköp lítið hægt að gera í því. Kannski er hægt að lækka í tónlistinni en varla leysir það vandamálið ef þaggað er niður í tónlistinni og allir eiga skyndilega að ræða hvers vegna þessi eini heyrir píp þegar hinir heyra mismunandi skoðanir og sögur. Þá er öruggt að allir fara að heyra píp og þegar allir heyra píp þá fyrst byrjar pípið að heyrast úr þeim, þá fyrst eru Larsen-áhrifin komin á fullt skrið.Bara eins og skírnarnafnið Þessum pistli er ekki ætlað að lýsa yfir sturlunarástandi mínu. Ég er ekki haldandi fyrir eyrun vegna þess að ég er kominn með nóg af stanslausu ýli en stundum er þörf á að sá fræjum í jörð og bíða. Heimurinn er ekki að breytast jafn hratt og við höldum. Fólk var líka grimmt fyrir fimm þúsund árum. Siðspilling var líka til fyrir fimm þúsund árum. Það er öllum hollt að vita að hugsanir um uppruna illskunnar eru ekki nýjar. Þessar hugsanir eru ekki bara í trúarbrögðum heldur skáldverkum, tónverkum og listaverkum. Þær eru flúraðar á veggi sögunnar. En illskan er ekki það eina sem hefur verið mönnum hugleikið. Það er mér persónulega enn meiri ráðgáta hvaðan góðmennskan kemur. Að samfélag manna skuli virka er þrátt fyrir allt ein stór ráðgáta frá upphafi til enda. Þýska skáldið Gottfried Benn, sem á sinni tíð upplifði hörmungar stríðs og tortímingu þjóðar sinnar, var alveg jafn undrandi. Eftir að hafa séð alla illskuna var hann samt mest undrandi á hvaðan góðmennska væri eiginlega upprunnin. Svona hljóðar upphafserindi ljóðs hans „Fólki mætt“:Ég hef mætt fólki sem þegar það er spurt til nafns svarar afsakandi – eins og það vilji enga athygli og geri ekkert sérstakt tilkall til þess „Fröken Vivian“ og bætir svo við: „eins og skírnarnafnið“ eins og það vilji gera lífið auðveldara fyrir manni engin erfið nöfn eins og „Popiol“ eða „Babendererde“ „bara eins og skírnarnafnið“ vinsamlegast – ekki reyna of mikið á minni yðar. Hann endar ljóð sitt svona: Ég hef oft spurt sjálfan mig að því en aldrei fundið svar Hvaðan blíða og góðmennska kemur Fram á þennan dag veit ég það ekki og nú fer ég. Hin eilífa hringrásÉg held að við sjáum góðmennsku mun oftar en við áttum okkur á. Góðmennska er ekki endilega þegar fólk gefur betlurum peninga eða faðmar hvert annað. Maður þarf ekki einu sinni að mótmæla stríðsátökum til að vera góður, styðja baráttu flóttamanna, lýsa yfir vantrausti á máttlausu réttarkerfi. Ég held að þetta geti allt verið birtingarmynd góðmennsku. En það er líka til svo mikið af fólki, í þessu samfélagi og öðrum, sem lætur verkin tala. Það sem um ræðir er meira en hógværð. Það er óviðjafnanleg mýkt og áreiðanleiki. Það er fyrirbæri sem er ekki hægt að skrifa pistla um og verður aldrei skipað í flokka. Ég hef, eins og skáldið Benn, hitt fólk sem magnar ekki upp, sem er sama hvort gjörðir þess séu fordæmisgefandi, fólk sem gæti aldrei verið annað en gott og þarf enga viðurkenningu á því. Uppruni gæskunnar er mér jafn mikill leyndardómur og uppruni illskunnar. Ég hef ekki áhyggjur af mannkyninu. Það er til ýmislegt verra en langt, óþægilegt og síhækkandi ýl. Þetta er þrátt fyrir allt tónn, nokkuð reikull og flöktandi, en eins og öll músík þá hefur hann snertifleti við hina eilífu hringrás. Kannski er í því ljósi við hæfi að enda þessa grein þar sem hún byrjaði. Á umræðu um Larsen sjálfan. Hann fór í ágætis hringferðalag meðan hann lifði, byrjaði ferilinn sem guðfræðingur en starfaði lengst af sem eðlisfræðingur. Ætli hann hafi ekki verið einn af þessum sem skildu ekki ágreininginn þar á milli.
Hvert er fóðrið til að skipulögð glæpastarfsemi geti þrifist hér á landi? Jú, villuráfandi stefnulaus ungmenni! Davíð Bergmann Skoðun
Hvert er fóðrið til að skipulögð glæpastarfsemi geti þrifist hér á landi? Jú, villuráfandi stefnulaus ungmenni! Davíð Bergmann Skoðun