Meiri mannúð Fanney Birna Jónsdóttir skrifar 9. janúar 2015 07:00 Fjöldamorðin á ritstjórnarskrifstofum skopmyndatímaritsins Charlie Hebdo voru hryðjuverk. Tólf manns létust og ellefu særðust. Á meðal hinna látnu voru ritstjórinn, þekktir skopmyndateiknarar og tveir lögreglumenn. Charlie Hebdo er vikulegt satírutímarit sem komið hefur út í áraraðir í Frakklandi. Blaðamenn Hebdo gerðu grín að öllu; stjórnmálamönnum, viðskiptajöfrum, leiðtogum í hernum, persónum úr sögunni, trúarleiðtogum og trúarfígúrum. Myndir blaðsins hafa oftar en ekki verið umdeildar og var árásin á skrifstofur blaðsins í fyrradag ekki sú fyrsta. Allir helstu þjóðarleiðtogar heims hafa fordæmt árásina og hampað tjáningarfrelsinu sem ekki megi gefa eftir þrátt fyrir þennan harmleik. Sumarið 2011 stóð Evrópa á öndinni í svipuðum aðstæðum. Anders Bering Breivik hafði framið viðurstyggileg fjöldamorð á ungmennum í eyjunni Útey í Noregi. Um var að ræða útrýmingartilraun, réttlætta með þjóðernishyggju, sem átti að hafa áhrif á þarlend stjórnvöld til breytingar á stjórnarháttum í innflytjendamálum. Heimurinn beið viðbragða norskra stjórnvalda, svara við gegndarlausu og óskiljanlegu ofbeldi sem kostaði tugi ungmenna lífið. Jens Stoltenberg, þáverandi forsætisráðherra Noregs, brást við með því að segja: „Enn meira lýðræði, enn meiri mannúð,“ og bætti síðar við, „aldrei grunnhyggni“. Noregur brást við voðaverkunum með ást og kærleika. Með samstöðu og ákvörðun um að hið illa sem sigraði í orrustu þennan eina sumardag myndi ekki verða ofan á. Tilraun Breivik misheppnaðist. Tíu árum fyrr hafði mannkynið horft á þveröfug viðbrögð Bandaríkjamanna við árásinni á tvíburaturnana. Hart var látið mæta hörðu og hefur heimsbyggðin ekki enn bitið úr nálinni með þá ákvörðun. Árásirnar voru notaðar sem réttlæting á tveimur innrásum svo ekki sé minnst á hin ýmsu grimmdarverk, pyntingar og ofsóknir gegn múslimum sem kaldhæðnislega voru flest framin í nafni þess að vernda vestræn gildi og menningu. Við lifum á viðsjárverðum tímum. Víðs vegar í Evrópu hefur vaxandi andstaða við fjölmenningarsamfélög gert vart við sig, þar á meðal hér á Íslandi í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna. Hætt er við því að árásin á Hebdo muni virka sem vatn á myllu þeirra sem ala á tortryggni í garð innflytjenda og þeirra sem aðhyllast önnur trúarbrögð. Þess hefur þegar orðið vart, til dæmis í orðum Marine Le Pen, leiðtoga franska flokksins Front National, sem varpaði fram þeirri skoðun sinni á Twitter í kjölfar árásarinnar að taka bæri upp dauðarefsingu að nýju í landinu. Í því samhengi má ekki gleyma að árásin í fyrradag var framin af þremur öfgamönnum. Skoðanir þeirra endurspegla ekki á nokkurn hátt skoðanir meginþorra þeirra 1.600 milljóna einstaklinga sem aðhyllast íslam. Sá stóri massi hefur ekkert til saka unnið og á ekki skilið að atburðir gærdagsins séu notaðir til að réttlæta fordóma, niðurlægingu eða hvers kyns ofsóknir. Það að geta ekki greint á milli örfárra öfgamanna og heilla trúarbragða ber vott um þá grunnhyggni sem Stoltenberg varaði við í kjölfar morðanna í Útey. Og nú er jafn brýnt að svara illsku ekki með mannvonsku og hatri – heldur með ást og kærleika. Aðeins þannig getum við sýnt öfgamönnum heimsins að aðgerðir þeirra hafi ekki tilætluð áhrif. Enn meira lýðræði – enn meiri mannúð. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Charlie Hebdo Fanney Birna Jónsdóttir Mest lesið Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Hvað viltu að bíði þín heima? Þórdís Dröfn Andrésdóttir Skoðun Íslenski fasteignamarkaðurinn: spilavíti þar sem húsið vinnur alltaf Ingvar Þóroddsson Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Jólaheimsóknir á aðventunni Guðrún Karls Helgudóttir Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Jæja, ræðum þá þetta dásamlega Evrópusamband Haraldur Ólafsson Skoðun Barnaskapur Bjarna Ben; Fjölmargar þjóðir með meiri kaupmátt en við! Ole Anton Bieltvedt Skoðun Misskilin mannúð í hælisleitendamálum Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir Skoðun
Fjöldamorðin á ritstjórnarskrifstofum skopmyndatímaritsins Charlie Hebdo voru hryðjuverk. Tólf manns létust og ellefu særðust. Á meðal hinna látnu voru ritstjórinn, þekktir skopmyndateiknarar og tveir lögreglumenn. Charlie Hebdo er vikulegt satírutímarit sem komið hefur út í áraraðir í Frakklandi. Blaðamenn Hebdo gerðu grín að öllu; stjórnmálamönnum, viðskiptajöfrum, leiðtogum í hernum, persónum úr sögunni, trúarleiðtogum og trúarfígúrum. Myndir blaðsins hafa oftar en ekki verið umdeildar og var árásin á skrifstofur blaðsins í fyrradag ekki sú fyrsta. Allir helstu þjóðarleiðtogar heims hafa fordæmt árásina og hampað tjáningarfrelsinu sem ekki megi gefa eftir þrátt fyrir þennan harmleik. Sumarið 2011 stóð Evrópa á öndinni í svipuðum aðstæðum. Anders Bering Breivik hafði framið viðurstyggileg fjöldamorð á ungmennum í eyjunni Útey í Noregi. Um var að ræða útrýmingartilraun, réttlætta með þjóðernishyggju, sem átti að hafa áhrif á þarlend stjórnvöld til breytingar á stjórnarháttum í innflytjendamálum. Heimurinn beið viðbragða norskra stjórnvalda, svara við gegndarlausu og óskiljanlegu ofbeldi sem kostaði tugi ungmenna lífið. Jens Stoltenberg, þáverandi forsætisráðherra Noregs, brást við með því að segja: „Enn meira lýðræði, enn meiri mannúð,“ og bætti síðar við, „aldrei grunnhyggni“. Noregur brást við voðaverkunum með ást og kærleika. Með samstöðu og ákvörðun um að hið illa sem sigraði í orrustu þennan eina sumardag myndi ekki verða ofan á. Tilraun Breivik misheppnaðist. Tíu árum fyrr hafði mannkynið horft á þveröfug viðbrögð Bandaríkjamanna við árásinni á tvíburaturnana. Hart var látið mæta hörðu og hefur heimsbyggðin ekki enn bitið úr nálinni með þá ákvörðun. Árásirnar voru notaðar sem réttlæting á tveimur innrásum svo ekki sé minnst á hin ýmsu grimmdarverk, pyntingar og ofsóknir gegn múslimum sem kaldhæðnislega voru flest framin í nafni þess að vernda vestræn gildi og menningu. Við lifum á viðsjárverðum tímum. Víðs vegar í Evrópu hefur vaxandi andstaða við fjölmenningarsamfélög gert vart við sig, þar á meðal hér á Íslandi í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna. Hætt er við því að árásin á Hebdo muni virka sem vatn á myllu þeirra sem ala á tortryggni í garð innflytjenda og þeirra sem aðhyllast önnur trúarbrögð. Þess hefur þegar orðið vart, til dæmis í orðum Marine Le Pen, leiðtoga franska flokksins Front National, sem varpaði fram þeirri skoðun sinni á Twitter í kjölfar árásarinnar að taka bæri upp dauðarefsingu að nýju í landinu. Í því samhengi má ekki gleyma að árásin í fyrradag var framin af þremur öfgamönnum. Skoðanir þeirra endurspegla ekki á nokkurn hátt skoðanir meginþorra þeirra 1.600 milljóna einstaklinga sem aðhyllast íslam. Sá stóri massi hefur ekkert til saka unnið og á ekki skilið að atburðir gærdagsins séu notaðir til að réttlæta fordóma, niðurlægingu eða hvers kyns ofsóknir. Það að geta ekki greint á milli örfárra öfgamanna og heilla trúarbragða ber vott um þá grunnhyggni sem Stoltenberg varaði við í kjölfar morðanna í Útey. Og nú er jafn brýnt að svara illsku ekki með mannvonsku og hatri – heldur með ást og kærleika. Aðeins þannig getum við sýnt öfgamönnum heimsins að aðgerðir þeirra hafi ekki tilætluð áhrif. Enn meira lýðræði – enn meiri mannúð.