Baráttan Fanney Birna Jónsdóttir skrifar 9. mars 2016 07:00 Í gær var alþjóðlegum baráttudegi kvenna fagnað. Samdægurs birtu Stígamót ársskýrslu sína en þar kom meðal annars fram að í fyrra leituðu 330 einstaklingar til samtakanna vegna kynferðisbrotamála í fyrsta skipti. Alls leituðu 667 einstaklingar á náðir samtakanna í fyrra. Á mánudag birtu Sameinuðu þjóðirnar skýrslu sem tekur sérstaklega til Íslands um afnám allrar mismununar gegn konum. Þar lýsa samtökin yfir áhyggjum af því að fjöldi ofbeldismála gegn konum sé að aukast og einnig af fjölda kynferðisbrotamála gegn konum sem ekki rata alla leið fyrir dómstóla. Nefndin lýsir auk þess áhyggjum af því að ekki hafi verið farið í saumana á því lagalega af hverju svo fáar sakfellingar verða í kynferðisbrotamálum og kvartar yfir því að engin þjóðaráætlun sé til gegn kynferðisofbeldi sem og heimilisofbeldi gegn innflytjendum og konum sem glíma við fötlun. Undanfarin misseri hafa einkennst af kvennabaráttu. Samfélagsmiðlabyltingar, mótmæli og kröfugöngur eru aðeins toppurinn á ísjakanum í grasrótarbyltingum sem orðið hafa til að rétta hlut kvenna, ekki síst þegar kemur að kynbundnu ofbeldi. „Umræðan opnaðist á árinu og það var mikill kraftur í grasrótinni. Fólk er farið að tala og lætur ekki þagga niður í sér. Kynferðisofbeldi er mun sýnilegra en áður, hvort það er meira vitum við ekki, en við vitum um fleiri mál,“ sagði Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, á kynningarfundi í gær. Kæruhlutfall nauðgana var lægra í fyrra en árið 2014 en á sama tíma voru færri nauðganir tilkynntar. Ellefu hópnauðganir voru tilkynntar. Aðeins 8,8 prósent af þeim nauðgunum sem tilkynntar voru til Stígamóta á síðasta ári voru kærðar til lögreglu, samanborið við 13,2 prósent árið 2014. „Aðeins þessi 8,8 prósent fara inn í opinber gögn, allt annað eru utangarðsupplýsingar, miðað við opinbert kerfi. Þess vegna er enn mikilvægara að við komum því á framfæri hvernig heimurinn lítur út um gluggann hjá Stígamótum,“ sagði Guðrún. Fleiri upplýsingar frá Stígamótum vekja athygli. Töluvert fleiri nauðganir voru tilkynntar til samtakanna en á Neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb nauðgana. Í máli Guðrúnar kom fram að Neyðarmóttakan hafi, líkt og aðrar heilbrigðisstofnanir, fengið að finna fyrir niðurskurði undanfarin ár. „Það hefur stöðugt verið þrengt að Neyðarmóttökunni, með fagfólki, fjármagni og aðstöðu og það er óásættanlegt. Þessu þarf að breyta.“ Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna eru yfirvöld hvött til að styrkja lagalega vernd kvenna fyrir ofbeldi. Ríkið er hvatt til að ákæra og dæma nauðgara og greina af hverju það gengur svona óskaplega illa, ásamt öðru. Taka ber undir þessa hvatningu Sameinuðu þjóðanna enda líklegt að færri einstaklingar gangi hér um daprir, kvíðnir, með lélega sjálfsmynd og sektarkennd ef tekið verður með sómasamlegum hætti á þessum brotaflokki. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fanney Birna Jónsdóttir Birtist í Fréttablaðinu Mest lesið Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Íslenski fasteignamarkaðurinn: spilavíti þar sem húsið vinnur alltaf Ingvar Þóroddsson Skoðun Jólaheimsóknir á aðventunni Guðrún Karls Helgudóttir Skoðun Hvað viltu að bíði þín heima? Þórdís Dröfn Andrésdóttir Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Þegar Skagamenn glöddu lítið hjarta María Rut Kristinsdóttir Skoðun Vondar hugmyndir í verðbólgu Hildur Sverrisdóttir Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Jæja, ræðum þá þetta dásamlega Evrópusamband Haraldur Ólafsson Skoðun
Í gær var alþjóðlegum baráttudegi kvenna fagnað. Samdægurs birtu Stígamót ársskýrslu sína en þar kom meðal annars fram að í fyrra leituðu 330 einstaklingar til samtakanna vegna kynferðisbrotamála í fyrsta skipti. Alls leituðu 667 einstaklingar á náðir samtakanna í fyrra. Á mánudag birtu Sameinuðu þjóðirnar skýrslu sem tekur sérstaklega til Íslands um afnám allrar mismununar gegn konum. Þar lýsa samtökin yfir áhyggjum af því að fjöldi ofbeldismála gegn konum sé að aukast og einnig af fjölda kynferðisbrotamála gegn konum sem ekki rata alla leið fyrir dómstóla. Nefndin lýsir auk þess áhyggjum af því að ekki hafi verið farið í saumana á því lagalega af hverju svo fáar sakfellingar verða í kynferðisbrotamálum og kvartar yfir því að engin þjóðaráætlun sé til gegn kynferðisofbeldi sem og heimilisofbeldi gegn innflytjendum og konum sem glíma við fötlun. Undanfarin misseri hafa einkennst af kvennabaráttu. Samfélagsmiðlabyltingar, mótmæli og kröfugöngur eru aðeins toppurinn á ísjakanum í grasrótarbyltingum sem orðið hafa til að rétta hlut kvenna, ekki síst þegar kemur að kynbundnu ofbeldi. „Umræðan opnaðist á árinu og það var mikill kraftur í grasrótinni. Fólk er farið að tala og lætur ekki þagga niður í sér. Kynferðisofbeldi er mun sýnilegra en áður, hvort það er meira vitum við ekki, en við vitum um fleiri mál,“ sagði Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, á kynningarfundi í gær. Kæruhlutfall nauðgana var lægra í fyrra en árið 2014 en á sama tíma voru færri nauðganir tilkynntar. Ellefu hópnauðganir voru tilkynntar. Aðeins 8,8 prósent af þeim nauðgunum sem tilkynntar voru til Stígamóta á síðasta ári voru kærðar til lögreglu, samanborið við 13,2 prósent árið 2014. „Aðeins þessi 8,8 prósent fara inn í opinber gögn, allt annað eru utangarðsupplýsingar, miðað við opinbert kerfi. Þess vegna er enn mikilvægara að við komum því á framfæri hvernig heimurinn lítur út um gluggann hjá Stígamótum,“ sagði Guðrún. Fleiri upplýsingar frá Stígamótum vekja athygli. Töluvert fleiri nauðganir voru tilkynntar til samtakanna en á Neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb nauðgana. Í máli Guðrúnar kom fram að Neyðarmóttakan hafi, líkt og aðrar heilbrigðisstofnanir, fengið að finna fyrir niðurskurði undanfarin ár. „Það hefur stöðugt verið þrengt að Neyðarmóttökunni, með fagfólki, fjármagni og aðstöðu og það er óásættanlegt. Þessu þarf að breyta.“ Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna eru yfirvöld hvött til að styrkja lagalega vernd kvenna fyrir ofbeldi. Ríkið er hvatt til að ákæra og dæma nauðgara og greina af hverju það gengur svona óskaplega illa, ásamt öðru. Taka ber undir þessa hvatningu Sameinuðu þjóðanna enda líklegt að færri einstaklingar gangi hér um daprir, kvíðnir, með lélega sjálfsmynd og sektarkennd ef tekið verður með sómasamlegum hætti á þessum brotaflokki.