Skoðun

Ekki horfa

Sigríður Víðis Jónsdóttir skrifar
Aleppo. Mosul. Jemen. Drukknuð börn í Miðjarðarhafinu. Það er föstudagur og þungt yfir mér. Ógnvænlegt ástand hefur verið að byggjast upp í norðurhluta Nígeríu og löndunum í kring. Vannærð börn eru í lífshættu. Fullt af þeim. Það óhugnanlega er að venjulega láta vannærð börn lífið af orsökum tengdum vannæringu, s.s. lungnabólgu, malaríu og niðurgangspestum. En nú er staðan svo slæm að sums staðar í Borno-héraði svelta þau til dauða.

Þótt hungursneyð hafi ekki enn verið formlega lýst yfir er hlutfall barna með alvarlega bráða­vannæringu á pari við það sem sást í sumum héruðum í Sómalíu í hungursneyðinni árið 2011. Svo há tala sést nánast aldrei í heiminum. Hálf milljón barna í fjórum ríkjum er í lífshættu. Þetta er þögul neyð sem nánast enginn veit um. Ég fyllist vanmætti. Hvað á ég að gera með þetta, hver hefur heyrt um Borno?!

Allt í einu get ég ekki meira af óhugnanlegum myndum af börnum sem þjást. Hristi mig svo til. Ef við gætum veitt öllum þeim börnum í Borno sem þjást af vannæringu meðferð væri hægt að bjarga meira en 99 prósentum þeirra. Það er rosalegt.

Myndir á Facebook

Þess vegna viljum við hjá UNICEF á Íslandi núna segja þetta: Ekki horfa … hjálpaðu. Við sýnum því skilning að margir eru orðnir ónæmir fyrir hörmungum í fréttum og á samfélagsmiðlum. Það þarf ekki að horfa á myndir á Facebook af illa höldnum vannærðum börnum til að veita hjálp. Það er líka hægt að treysta hjálparsamtökum eins og UNICEF til að gera allt sem þau geta til að bjarga lífi barnanna. UNICEF vinnur dag og nótt í Sýrlandi og í yfir 190 öðrum löndum við að hjálpa börnum.

Í dag hefjum við neyðarsöfnun vegna barna í Nígeríu og nágrannaríkjunum. Fyrir sms-ið BARN í númerið 1900 er til dæmis hægt að útvega barni meðferð gegn vannæringu í heila viku. Þú þarft ekki að horfa en þú getur hjálpað.

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×