Skoðun

Berjumst fyrir auknum jöfnuði

Elín Björg Jónasdóttir skrifar
Þær raddir heyrast stundum að verkalýðshreyfingin sé að verða úrelt fyrirbæri. Að búið sé að tryggja þau réttindi sem þurfi að tryggja. Það er gríðarlegt vanmat á verkefnum hreyfingarinnar. Þeir sem taka þátt í kröfugöngum um land allt í dag, á baráttudegi verkalýðsins, eru sannarlega ekki þeirrar skoðunar.

Þó mikið hafi áunnist frá því í árdaga verkalýðshreyfingarinnar hafa grundvallarþarfirnar ekki breyst. Öll þurfum við að hafa í okkur og á. Öll þurfum við að hafa einhvers staðar höfði að að halla. Öll þurfum við að búa við öryggi. Það eru grundvallarþarfirnar.

Við þurfum líka að búa í samfélagi sem við erum sátt við. Samfélagi þar sem félagslegt réttlæti ríkir, þar sem allir búa við mannsæmandi lífskjör. Til að svo megi verða þurfum við að vinna gegn sívaxandi misskiptingu í samfélaginu. Við þurfum að halda áfram baráttunni fyrir því að auka jöfnuð.

Þeir sem tala hvað hæst fyrir mikilvægi efnahagslegs stöðugleika, en átta sig ekki á mikilvægi þess að koma á félagslegum stöðugleika, ættu að líta til þess.

Jöfnuður í samfélaginu er ein helsta forsenda stöðugleika. Á meðan sumir eiga varla til hnífs og skeiðar og horfa á aðra greiða sjálfum sér margföld árslaun venjulegs launafólks í bónusa eða arð verður engin sátt og enginn stöðugleiki. Eftir því sem misskiptingin í samfélaginu verður meiri munu þau átök sem einkennt hafa samfélag okkar undanfarið harðna.

Ef stjórnmálamönnum og öðrum sem tala um stöðugleika er einhver alvara verður að byrja á því að tryggja launafólki og almenningi öllum mannsæmandi lífskjör og draga úr misskiptingunni frekar en að halda áfram að auka ójöfnuð.

Markmið okkar allra á að vera að auka lífsgæði í landinu og koma á velferðarkerfi að norrænni fyrirmynd sem við getum öll verið stolt af.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×