Skoðun

Lengjum fæðingarorlofið strax

Elín Björg Jónsdóttir skrifar
Félags- og jafnréttismálaráðherra er tíðrætt um það hlutverk fæðingarorlofskerfisins að stuðla að jafnrétti. Það er vissulega eitt af meginmarkmiðunum en vandinn er að þessu markmiði höfum við ekki náð. Raunar höfum við færst fjær markmiðinu á undanförnum árum og lítið bólar á raunverulegum breytingum á kerfinu sem BSRB og fleiri hafa kallað eftir lengi.

Niðurskurður í kjölfar hrunsins stórskaðaði fæðingarorlofskerfið og ekki hefur verið bætt þar úr nema að litlum hluta. Ráðherra hefur nú boðað hækkun hámarksgreiðslna í 600 þúsund krónur á mánuði. Sú hækkun er vissulega mikilvægt skref. En hún er bara eitt lítið skref af þeim mörgu sem stíga verður til að kerfið skili í raun því mikilvæga hlutverki að stuðla að jafnrétti á vinnumarkaði.

Mikilvægt er að lengja orlofið í 12 mánuði. Þá þarf einnig að tryggja börnum dagvistunarúrræði strax og orlofi lýkur. Rannsóknir sýna að mæður taka ekki bara lengra orlof en feður, þær axla einnig frekar ábyrgð á því að brúa bilið frá fæðingarorlofi þar til barnið kemst í dagvistun eða á leikskóla. Þær eru því að jafnaði mun lengur frá vinnu en feður sem hefur neikvæð áhrif á stöðu þeirra á vinnumarkaði. Það er ekki nóg að tryggja að feður taki eitthvað fæðingarorlof. Eftir nær tveggja áratuga reynslu af fæðingarorlofskerfinu er ljóst að næstu skref verða að vera þau að tryggja feðrum sömu möguleika og mæðrum til sex mánaða fæðingarorlofs.

Einnig þarf að tryggja að þeir sem lægst hafa launin geti tekið fullt fæðingarorlof. Það má gera með því að tekjur allt að 300 þúsund krónum skerðist ekki í fæðingarorlofi.

Ef þetta hljómar kunnuglega er það trúlega vegna þess að þessar tillögur komu fram í skýrslu sem starfshópur ráðherra skilaði snemma árs í fyrra. Sé ráðherra alvara þegar hann talar um mikilvægi fæðingarorlofskerfisins fyrir jafnrétti á vinnumarkaði mun hann þegar í stað hefja vinnu við að breyta lögum í samræmi við tillögur starfshópsins. Það er ekki eftir neinu að bíða.

 

Höfundur er formaður BSRB.

 

 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×