Skoðun

Fjármálaeftirlitið framfylgir ákvæðum laga um kaupauka

Unnur Gunnarsdóttir skrifar
Nokkuð ítarleg grein birtist í Markaði Fréttablaðsins hinn 11. október sem vísað er til á forsíðu með yfirskriftinni „Smærri fyrirtækjum settur stóllinn fyrir dyrnar“. Þar segir einnig að ströng túlkun Fjármálaeftirlitsins á reglum um kaupaukagreiðslur hafi það í för með sér að fjármálafyrirtæki eigi þess ekki lengur kost að umbuna starfsfólki með greiðslu arðs af B-hlutabréfum.

Í tilefni greinarinnar langar mig að koma á framfæri nokkrum atriðum til að skýra afstöðu Fjármálaeftirlitsins varðandi eftirlit með kaupaukum.

Fyrst af öllu vil ég benda á að það er hlutverk Fjármálaeftirlitsins að framfylgja lögum um fjármálafyrirtæki sem Alþingi hefur sett, þ. á m. ákvæðum þeirra er varða kaupauka. Ákvæði um hámark kaupauka og bann við að greiða vissum starfsmönnum fjármálafyrirtækja kaupauka er að finna í 57. gr. laga um fjármálafyrirtæki, auk þess sem ákvæðið skyldar einnig Fjármálaeftirlitið til að setja reglur um frestun kaupauka.

Þá vil ég benda á að smæstu fjármálafyrirtækin (verðbréfafyrirtæki sem bera takmarkaðar starfsskyldur) eru nú þegar undanþegin takmörkunum á kaupaukum og kaupaukakerfum, sbr. e-lið 4. mgr. 25. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

Enn fremur vil ég undirstrika að Fjármálaeftirlitið hefur ekki bannað að hlutafé fjármálafyrirtækja sé skipt í flokka eða að starfsmenn eigi hluti í fjármálafyrirtækjum. Telji Fjármálaeftirlitið hins vegar að með slíkri skiptingu sé verið að komast undan ákvæðum laga og reglna um kaupauka og kaupaukakerfi mun eftirlitið bregðast við.

Að því er varðar málið sem vísað er til í grein Markaðarins, og tengist Arctica Finance hf., þá var Fjármálaeftirlitinu ekki kunnugt um það fyrr en nýlega að starfsmenn hefðu fengið að kaupa B, C og D bréf á nafnverði (þ.e. þeir greiddu samtals 200 þúsund krónur fyrir hlutina) en fengið á sex ára tímabili 668 milljónir króna í arð vegna sömu bréfa. Þetta taldi Fjármálaeftirlitið ástæðu til að rannsaka og í kjölfarið að bregðast við með stjórnvaldssekt og úrbótakröfu. Ítarlegan rökstuðning fyrir þessari ákvörðun er að finna í gagnsæistilkynningu sem Fjármálaeftirlitið gaf út á vef sínum hinn 5. október síðastliðinn.

Höfundur er forstjóri Fjármálaeftirlitsins.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×