Ómetanleg gjöf strákanna Kjartan Hreinn Njálsson skrifar 10. október 2017 07:00 Í einfaldleika sínum eru íþróttir heillandi fyrirbæri. Þetta á sannarlega við í tilfelli fótboltans þar sem ellefu leikmenn mæta jafn mörgum á rétthyrndum velli og freista þess að koma knetti í markið hjá hinum. Reglurnar í fótbolta eru 17 talsins, ekki fleiri en það. Það er í þessum einfaldleika sem töfrarnir eiga sér stað og við sáum þessa galdra eiga sér stað á Laugardalsvelli í gær þegar íslensku leikmennirnir unnu sem ein heild, innan ramma reglnanna, og tryggðu sér þátttökurétt á Heimsmeistaramóti landsliða í knattspyrnu. Það var ástríða þeirra, hæfileikar og liðsheild, sem tryggðu þeim sigur. Til góðs eða ills þá eru íþróttir rótgróinn hluti af samfélagi mannanna. Við vitum að fornmenn öttu kappi í grösugum hæðum fyrir fimmtán þúsund árum á svæði sem í dag er kennt við Lascaux í Frakklandi. Þeir sem fylgdust með kapphlaupinu hrifust svo af að þeir ristu og máluðu myndir af hetjunum. Í dag er í raun ómögulegt að ímynda sér samfélag án íþrótta. Í þeim sjáum við hvers megnug við erum, hvert andlegt þrek okkar er, hve sterk við raunverulega erum. Við sjáum hvernig einstaklingur, eða hópur einstaklinga, getur gert eitthvað sem áður þótti ómögulegt. Jafnvel eitthvað sem þótti aðeins á færi guðanna. Þannig endurtaka ævafornar sögur sig í íþróttunum og við erum minnt á ákveðin grunngildi sem skilgreina okkar nútíma samfélag. Í árangri karla- og kvennalandsliðanna er nefnilega að finna kunnuglegt stef þar sem hetjurnar svara kalli ævintýrsins og þurfa að etja við ofurefli áður en þær snúa heim á ný. Þessar hetjur snúa heim sem breyttar manneskjur, ögn fróðari um heiminn. Það má margt læra af velgengni karlalandsliðsins í fótbolta, en í grunninn sýnir þessi árangur fram á mikilvægi samheldninnar, og það á öllum stigum samfélagsins. Sem ein heild er liðið margfalt betra en stakir hlutar þess. Þessi samtakamáttur er okkur lífsnauðsynlegur. Hann leggur línurnar í þeim verkefnum sem við tökum okkur fyrir hendur og sker úr um það hvort okkur heppnast ætlunarverkið eða ekki. Það sama á við um samfélag okkar, þar sem við lútum öll sömu reglum en kappkostum að auðga og bæta tilvist okkar innan þess ramma sem við höfum í sameiningu sett okkur. Og við þekkjum það mæta vel hvað það getur gert okkur þegar reglurnar, skrifaðar og óskrifaðar, eru brotnar á kostnað annarra. Goðsögurnar eru stór hluti af því mikla verkefni að styrkja samfélag okkar. Þær blása mönnum móð í brjóst og gera okkur vongóð um framhaldið. Karlalandsliðið hefur nú fært okkur aðra slíka sögu í ríkulegan sagnaarf okkar. Þessi gjöf strákanna er dýrmætari en nokkur bikar, og við stöndum í ævinlegri þakkarskuld við þá. Áfram Ísland! Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kjartan Hreinn Njálsson Mest lesið Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Jæja, ræðum þá þetta dásamlega Evrópusamband Haraldur Ólafsson Skoðun Misskilin mannúð í hælisleitendamálum Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir Skoðun Barnaskapur Bjarna Ben; Fjölmargar þjóðir með meiri kaupmátt en við! Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hvert er fóðrið til að skipulögð glæpastarfsemi geti þrifist hér á landi? Jú, villuráfandi stefnulaus ungmenni! Davíð Bergmann Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Ætla Íslendingar að standa vörð um orkuauðlindir sínar? Ágústa Ágústsdóttir Skoðun Varnarveggur gegn vonbrigðum Sanna Magdalena Mörtudóttir Skoðun 11 ástæður fyrir því að kjósa Pírata Baldur Karl Magnússon Skoðun
Í einfaldleika sínum eru íþróttir heillandi fyrirbæri. Þetta á sannarlega við í tilfelli fótboltans þar sem ellefu leikmenn mæta jafn mörgum á rétthyrndum velli og freista þess að koma knetti í markið hjá hinum. Reglurnar í fótbolta eru 17 talsins, ekki fleiri en það. Það er í þessum einfaldleika sem töfrarnir eiga sér stað og við sáum þessa galdra eiga sér stað á Laugardalsvelli í gær þegar íslensku leikmennirnir unnu sem ein heild, innan ramma reglnanna, og tryggðu sér þátttökurétt á Heimsmeistaramóti landsliða í knattspyrnu. Það var ástríða þeirra, hæfileikar og liðsheild, sem tryggðu þeim sigur. Til góðs eða ills þá eru íþróttir rótgróinn hluti af samfélagi mannanna. Við vitum að fornmenn öttu kappi í grösugum hæðum fyrir fimmtán þúsund árum á svæði sem í dag er kennt við Lascaux í Frakklandi. Þeir sem fylgdust með kapphlaupinu hrifust svo af að þeir ristu og máluðu myndir af hetjunum. Í dag er í raun ómögulegt að ímynda sér samfélag án íþrótta. Í þeim sjáum við hvers megnug við erum, hvert andlegt þrek okkar er, hve sterk við raunverulega erum. Við sjáum hvernig einstaklingur, eða hópur einstaklinga, getur gert eitthvað sem áður þótti ómögulegt. Jafnvel eitthvað sem þótti aðeins á færi guðanna. Þannig endurtaka ævafornar sögur sig í íþróttunum og við erum minnt á ákveðin grunngildi sem skilgreina okkar nútíma samfélag. Í árangri karla- og kvennalandsliðanna er nefnilega að finna kunnuglegt stef þar sem hetjurnar svara kalli ævintýrsins og þurfa að etja við ofurefli áður en þær snúa heim á ný. Þessar hetjur snúa heim sem breyttar manneskjur, ögn fróðari um heiminn. Það má margt læra af velgengni karlalandsliðsins í fótbolta, en í grunninn sýnir þessi árangur fram á mikilvægi samheldninnar, og það á öllum stigum samfélagsins. Sem ein heild er liðið margfalt betra en stakir hlutar þess. Þessi samtakamáttur er okkur lífsnauðsynlegur. Hann leggur línurnar í þeim verkefnum sem við tökum okkur fyrir hendur og sker úr um það hvort okkur heppnast ætlunarverkið eða ekki. Það sama á við um samfélag okkar, þar sem við lútum öll sömu reglum en kappkostum að auðga og bæta tilvist okkar innan þess ramma sem við höfum í sameiningu sett okkur. Og við þekkjum það mæta vel hvað það getur gert okkur þegar reglurnar, skrifaðar og óskrifaðar, eru brotnar á kostnað annarra. Goðsögurnar eru stór hluti af því mikla verkefni að styrkja samfélag okkar. Þær blása mönnum móð í brjóst og gera okkur vongóð um framhaldið. Karlalandsliðið hefur nú fært okkur aðra slíka sögu í ríkulegan sagnaarf okkar. Þessi gjöf strákanna er dýrmætari en nokkur bikar, og við stöndum í ævinlegri þakkarskuld við þá. Áfram Ísland!
Hvert er fóðrið til að skipulögð glæpastarfsemi geti þrifist hér á landi? Jú, villuráfandi stefnulaus ungmenni! Davíð Bergmann Skoðun
Hvert er fóðrið til að skipulögð glæpastarfsemi geti þrifist hér á landi? Jú, villuráfandi stefnulaus ungmenni! Davíð Bergmann Skoðun