Skoðun

Umferðartafir á Miklubraut þjóðhagslega dýrar

Finnur Thorlacius skrifar
Þeir sem leið eiga úr Árbænum eða Mosfellsbæ til vinnu á morgnana niður Ártúnsbrekkuna verða þessa dagana að sætta sig við gríðarlegar tafir vegna mikillar umferðarteppu sem þar myndast ávallt á morgnana og stendur líklega í ríflega klukkutíma á hverjum morgni.

Ekki þarf að efast um þá þjóðhagslegu óhagkvæmni sem af þessum töfum hlýst en það tekur nær aldrei minna en 25-30 mínútur fyrir vegfarendur að skila sér til vinnu á þessum tíma. Hæglega má búast við því að hver vegfarandi tefjist um 15 mínútur á hverjum morgni vegna þessa og ekki tekur mikið betra við að loknum vinnudegi.

Vegfarendur á þessari leið á degi hverjum skipta tugum þúsunda og ef giskað er á þeir séu 30.000 þúsund tapast 7.500 vinnustundir daglega við þessar umferðatafir. Ef gert er ráð fyrir að hver vinnustund þessa fólks kosti vinnuveitendur 4.000 kr. á klukkustund kosta þessar umferðatafir 30 milljónir á hverjum virkum degi. Fjöldi vinnudaga á hverju ári eru 260 og því má áætla að kostnaðurinn sé 7,8 milljarðar á ári, bara við það að tefja hvern starfsmann um þetta korter á dag sitjandi í bíl sínum af óþörfu á degi hverjum.

Lausnin á þessu vandamáli hlýtur að felast í því að greiða fyrir umferðinni með mislægum umferðarmannvirkjum á þeim gatnamótum sem skera Miklubrautina. Mislæg gatnamót eru þegar til staðar við Réttarholtsveg, en ekki við Grensásveg, Háaleitisbraut og Kringlumýrarbraut, en eftir það í vesturátt er umferðin farin að þynnast það mikið að líklega er ekki þörf fyrir slík mannvirki vestar.

Forvitnilegt væri að reikna út hvað slík mannvirki myndu kosta á þessum þremur ofantöldu gatnamótum og reikna í framhaldinu út á hve fáum árum þau myndu borga sig. Það telur ekki í mörgum árum, jafnvel innan við tveimur árum. Líklega myndu þau borga sig upp 10-20 sinnum hraðar upp en til dæmis Vaðlaheiðargöng, sem jafnvel aldrei munu borga sig upp.

Víst er að róttækar breytingar verða að eiga sér stað til að greiða götu fólks á höfuðborgarsvæðinu á næstu misserum og því fyrr því betra. Loforð um innviðauppbyggingu í stjórnmálum þessa dagana ættu nú loksins að snúa að höfuðborgarsvæðinu. Tími er kominn til.  




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×