Bíó og sjónvarp

Undir trénu seld um allan heim

Stefán Árni Pálsson skrifar
Edda Björgvinsdóttir fer á kostum í myndinni.
Edda Björgvinsdóttir fer á kostum í myndinni. ljósmynd/Brynjar Snær
Undir trénu hlaut nýverið sérstök dómnefndarverðlaun á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Denver en þar var hún tilnefnd til Krzysztof Kieslowski verðlaunanna. Undir trénu hefur tekið þátt í þremur keppnum í USA og hlotið verðlaun á þeim öllum.

Áður hafði Hafsteinn Gunnar Sigurðsson hlotið verðlaun fyrir bestu leikstjórn á Fantastic Fest í Austin, Texas auk þess sem Undir trénu hlaut aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar í Hamptons, New York. Þá birti fagtímaritið Screen Daily frétt í gær þar sem greint var frá því að myndin hefur selst feikilega vel út um allan heim Eins og áður hefur verið greint frá tryggði hið virta dreifingarfyrirtæki Magnolia sér réttinn á Norður-Ameríku en auk þess hefur myndin verið seld tli Skandinavíu, Frakklands, Benelúx-landanna, Stóra-Bretlands, Ítalíu, Spánar, Portúgal, Grikklands, Sviss, Austurríkis, Eystrasaltslandanna, Póllands, Tékklands, Króatíu, Slóvakíu, Kína, Suður-Kóreu, Ástralíu og Nýja-Sjálands.

Grímar Jónsson framleiðandi er hæstánægður með árangur myndarinnar á erlendum mörkuðum enda alls ekki sjálfgefið að mynd frá jafnlitlu málsvæði nái svo langt.

„Við vissum að við værum með góða mynd í höndunum með breiða skírskotun en markaðurinn er erfiður og það er efitt að sjá fyrir hvað nær í gegn. Aðsóknin hér heima hefur auðvitað verið algjörlega frábær og það er gaman að finna hvað það er mikill áhuga erlendis líka. Það verður áhugavert að fylgjast með á næstu mánuðum þegar myndin ratar í almennar sýningar erlendis en nú er hún aðallega í spilun á kvikmyndahátíðum,“ segir Grímar Jónsson sem er á leið til Los Angeles ásamt Hafsteini Gunnar Sigurðssyni leikstjóra og Eddu Björgvinsdóttur leikkonu.

Eftir helgi munu fara fram sýningar á myndinni fyrir Akademíumeðlimi en Undir trénu er framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna í ár. Það mun svo koma í ljós um miðjan desember hvaða 9 myndir komast áfram í forvalinu.

Undir trénu er enn í sýningum í kvikmyndahúsum og hafa um 42þúsund manns séð hana síðan hún var frumsýnd í byrjun september. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.