Innlent

Sá sem réðst á fullorðna fólkið verður í varðhaldi út mánuðinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eitt af sambýlum eldri borgara við Sléttuveg þar sem árásin varð á Nýársdag.
Eitt af sambýlum eldri borgara við Sléttuveg þar sem árásin varð á Nýársdag. Já.is
Karlmaður um tvítugt hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 31. janúar á grundvelli almannahagsmuna eftir að hafa ráðist á konu á níræðisaldri og nágranna hennar í íbúðarkjarna fyrir eldri borgara við Sléttuveg á Nýársdag.

Tilkynning barst til lögreglu um klukkan 18 en eldri borgararnir sem urðu fyrir árásinni voru fluttir á slysadeild. Réðst maðurinn fyrst inn í íbúð konunnar og reyndi nágranni hennar að koma henni til aðstoðar.

Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu, segir manninn hafa verið í annarlegu ástandi. Hann sé um tvítugt og eigi að baki smá feril hjá lögreglu. Ekki hafi annað komið til greina en að úrskurða hann í gæsluvarðhald.

„Það er ekki hægt að láta menn komast upp með svona,“ segir Guðmundur Páll. Flest bendi til þess að maðurinn hafi komist inn í sameignina áður en hann gekk inn í íbúð í kjarnanum. Gestir sem voru að heimsækja foreldra sína komu fullorðna fólkinu til aðstoðar og héldu ofbeldismanninum þar til lögreglu bar að garði.

Maðurinn hefur verið yfirheyrður og verður sömuleiðis rætt við fullorðna fólkið og vitni næstu daga. Í framhaldinu verður málið sent í ákæruferli.

Veistu meira um málið? Sendu okkur ábendingu á [email protected] Fullum trúnaði heitið.



Tengdar fréttir

Réðst á eldri konu og nágranna hennar

Ungur maður, sem lögregla segir hafa verið í mjög annarlegu ástandi, réðst í gærkvöldi á eldri konu á heimli hennar við Sléttuveg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×