Skoðun

Framtíðarborgin Reykjavík

Eyþór Arnalds skrifar
Hvernig viljum við hafa Reykjavík í framtíðinni? Ef ég fengi því ráðið væri Reykjavík spennandi borg með nægu rými fyrir fjölskyldur en jafnframt eftirsóttur ferðamannastaður. Borg sem væri fyrsti búsetukostur ungs fólks, borg sem stæðist samanburð við aðrar borgir í Evrópu hvað varðar menntun og atvinnutækifæri. Reykjavík besta sveitarfélagið til að búa í á Íslandi. Hvernig komumst við á þennan stað? Hvað getur Reykjavík gert?

Hvað á Reykjavík að verða?

Í fyrsta lagi þarf skólakerfið, allt frá leikskóla, að búa nemendur undir framtíð sem tekur örum breytingum. Skapandi hugsun fái að þroskast og nemendur séu færir um að taka að sér krefjandi verkefni einir eða í hóp. Í öðru lagi þarf að tryggja nægt framboð á húsnæði og lóðum svo ungt fólk geti eignast sitt eigið húsnæði í öllum hlutum borgarinnar, bæði í Austur- og Vesturborginni. Í þriðja lagi þarf að tryggja góðar samgöngur bæði fyrir fjölskyldubíla og strætisvagna. Það verður aðeins gert með því að hafa gatnakerfi sem stenst kröfur um öryggi og skilvirkni.

Reykjavík á að vera í fararbroddi í að nýta tækni í samgöngum líkt og gerðist í fjarskiptum. Borgin á að auðvelda eldri borgurum að búa í eigin húsnæði með lægri álögum og virkja þá sem eldri eru til áframhaldandi þátttöku í samfélaginu. Ein stærsta áskorun framtíðarinnar er fólgin í hækkandi aldri þjóðarinnar en jafnframt er það eitt stærsta tækifæri okkar að virkja fólk á efri árum. Loks sé ég fyrir mér að stjórnkerfi borgarinnar verði skilvirkt með stuttum boðleiðum og lágum kostnaði. Þannig borg vil ég búa til og breyta áherslum til móts við nýja framtíð.

Höfundur er frambjóðandi í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×