Innlent

Lögregla leitar karlmanns og ökutækis

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sjáist bíllinn í umferðinni skal hringja tafarlaust í 112.
Sjáist bíllinn í umferðinni skal hringja tafarlaust í 112. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar karlmanns og ökutækis í tengslum við rannsókn hennar á innbroti í verslun í Skútuvogi í Reykjavík í nótt, en tilkynning um málið barst lögreglu kl. 5.41. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar tilkynningin barst var þjófurinn á bak og burt, en sá hafði ekið rauðum Chevrolet Spark, með skráningarnúmerið HNM06, inn um aðalinngang verslunarinnar, stolið þar einhverju af verkfærum og síðan farið aftur akandi af vettvangi.

Lögreglan leitar ökumannsins en hann má sá á meðfylgjandi myndum, og sömuleiðis ökutækisins, en því hafði áður verið stolið í Grænuhlíð í Reykjavík.

Ökumaðurinn, sem er 170-175 sm á hæð, var klæddur í svarta peysu/jakka með hvítum röndum, gráar buxur, svarta skó og með lambhúshettu. Bíllinn er að líkindum dældaður og rispaður eftir innbrotið.

Sjáist bíllinn í umferðinni skal hringja tafarlaust í 112, en upplýsingum um hvar bíllinn er niðurkominn má sömuleiðis koma á framfæri í tölvupósti á netfangið [email protected] eða einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×