Skoðun

Styttum vakta-vinnuvikuna

Elín Björg Jónsdóttir skrifar
Stytting vinnuvikunnar úr 40 stundum í 36 hefur verið ein meginkrafa BSRB um langt skeið. Við finnum nú fyrir verulega auknum áhuga í samfélaginu og sífellt fleiri eru að átta sig á mikilvægi þess að launafólk hafi meiri tíma til að sinna fjölskyldu og vinum eftir að vinnudeginum lýkur.

Hingað til hefur umræðan átt það til að afmarkast við vinnustaði þar sem unnið er í dagvinnu. Við höfum oft heyrt það viðkvæði að ómögulegt sé að stytta vinnuvikuna á vaktavinnustöðum án þess að kostnaður sem af því hljótist verði greiddur.

Ríkið og BSRB hafa staðið fyrir tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar með fjórum vinnustöðum. Á einum þeirra, hjá Lögreglustjóranum á Vestfjörðum, er unnin vaktavinna. Tilraunaverkefnið átti að standa í eitt ár en var nýlega framlengt um eitt ár til viðbótar í ljósi þess hversu jákvæðar niðurstöður komu eftir fyrsta árið og vegna óska þátttakenda.

Í verkefni sem BSRB og Reykjavíkurborg standa að tekur nú fjöldi dag- og vaktavinnustaða, þar sem um fjórðungur starfsmanna borgarinnar starfar, þátt í að stytta vinnuvikuna í tilraunaskyni. Enginn þeirra vaktavinnustaða sem taka þátt hafa fengið viðbótarfjármagn vegna tilraunaverkefnisins.

Þessi reynsla sýnir að fjöldi vaktavinnustaða getur stytt vinnuvikuna án þess að það þurfi að bæta fjármagni í reksturinn. Verkefnin eru þó ólík og því getur þurft að mæta kostnaði að hluta hjá öðrum.

Velferðarráðuneytið auglýsir þessa dagana eftir umsóknum frá vaktavinnustöðum hjá ríkinu sem hafa áhuga á að taka þátt í tilraunaverkefni BSRB og ríkisins um styttingu vinnutíma. Sá vinnustaður sem verður fyrir valinu verður þá sá fimmti í yfirstandandi tilraun fram að sumri 2019.

Allir vaktavinnustaðir eru hvattir til að sækja um en þátttakan getur afmarkast við deild eða svið innan vinnustaðarins. BSRB hvetur sérstaklega stjórnendur á vinnustöðum sem hafa talið styttingu vinnuvikunnar ómögulega vegna kostnaðar til að taka málið til skoðunar.

Höfundur er formaður BSRB




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×