Skoðun

Rekstur í Reykjavík

Davíð Þorláksson skrifar
Framtíðin er loðin og teygjanleg í Reykjavík ef marka má sáttmála meirihlutans í borgarstjórn. Þar er fjallað almennt um hlutina en innan um eru skýrar tillögur og tíma- eða tölusettar áætlanir. Það á sérstaklega við um atvinnumálin. Reykjavík er stærsta útgerðar-, iðnaðar-, ferðaþjónustu-, verslunar- og þjónustupláss landsins. Því miður virðist ekki vera forgangsatriði að hlúa betur að hlutverki borgarinnar hvað þetta varðar. Það vill stundum gleymast að sveitarfélög taka til sín og ráðstafa fimmtungi opinberra tekna og 14% opinberra skulda hvíla á sveitarfélögunum. Það er ekki bara ríkið sem hefur áhrif á samkeppnishæfni fyrirtækja, heldur gera sveitarfélögin það líka.

Fasteignamat hefur hækkað talsvert síðustu ár í takt við hækkandi fasteignaverð og vegna breyttra matsaðferða hjá Þjóðskrá. Þá hefur verið talsverð uppbygging, einkum í húsnæði undir gistingu. Greiða þarf níu sinnum hærra fasteignagjald af atvinnuhúsnæði en íbúðarhúsnæði. Allt þetta hefur leitt til þess að tekjur borgarinnar af fasteignagjöldum hækkuðu um 28% frá 2014 til 2017 á sama tíma og verðlag hækkaði um 5%. Í sáttmálanum er lofað að fasteignagjöld lækki um 0,05 prósentur á atvinnuhúsnæði fyrir lok kjörtímabilsins. Það er auðvitað engin skattalækkun, heldur bara aðeins minni skattahækkun en ella.

Síðustu ár hafa einkennst af samfelldum hagvexti og uppgangi. Það er góðæri. Atvinnuleysi í Reykjavík í apríl var aðeins 2,39%. Við getum ekki treyst á að þetta verði alltaf svona. Reykjavíkurborg verður að hlúa betur að fyrirtækjunum í borginni. Fyrsta skrefið væri að lækka fasteignagjöld raunverulega á atvinnuhúsnæði.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×