Skoðun

Er ekki hægt að borga okkur líka?

Eyrún Baldursdóttir skrifar
Nýverið bárust þær gleðifréttir frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu að ráðherra stefni á að greiða kennaranemum á fimmta ári laun fyrir starfsnám sitt. Sem hjúkrunarfræðinemi velti ég því strax fyrir mér hvort hið sama gæti gerst fyrir hina fjölmörgu nemendur á Heilbrigðisvísindasviði sem vinna launalaust á Landspítalanum og öðrum heilbrigðisstofnunum á meðan á námi sínu stendur.

Mikill sigur vannst á síðasta ári þegar ljósmóðurfræðinemar fengu þá kröfu uppfyllta að nemalaun voru aftur tekin upp í þeirra klíníska námi. Það var stórt skref í í hagsmunabaráttu stúdenta en við í Röskvu viljum halda áfram og krafa okkar er að allt starfsnám háskólanema verði metið til launa líkt og fram kemur í stefnu Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS). Fyrsta skref gæti til dæmis verið að jafna kjör allra stúdenta sem stunda nám á framhaldsstigi í samræmi við ljósmóðurfræðinema.

Menntamálaráðherra hefur gefið út að ein ástæða þess að nauðsynlegt sé að greiða kennaranemum laun á meðan námi stendur sé til þess að auka aðsókn í námið. Við í Röskvu teljum að þær forsendur gildi einnig fyrir hjúkrunarfræðinema en gríðarlegur skortur er á starfandi hjúkrunarfræðingum. Aðsókn í námið er langt frá því að vera nægileg til þess að tryggja endurnýjun starfstéttar sem er að eldast hratt. Sömuleiðis þurfa yfirvöld að viðurkenna að tími og framlag stúdenta er mikils virði og nauðsynlegur þáttur í heilbrigðiskerfinu eins og það er í dag.

Launað starfsnám allra nema á Heilbrigðisvísindasviði er mikilvægt jafnréttismál. Það er nánast ómögulegt fyrir stúdenta að ná endum saman á námslánum einum og sér. Húsnæðiskostnaður, samgöngur og almennt uppihald er kostnaðarsamt og þurfa flestir stúdentar að vinna meðfram námi. Álagið í sumum greinum á Heilbrigðisvísindasviði, t.d. hjá læknanemum, er gríðarlegt. Auk fullrar viðveruskyldu á heilbrigðisstofnun frá kl. 08-16 á virkum dögum taka nemar launalausar helgarvaktir í 12 klukkustundir í senn. Ofan á það þurfa þeir nemendur, sem hafa minna á milli handanna eða hafa ekki fjárhagslegan stuðning frá foreldrum, að vinna hlutastarf til að afla tekna. Slíkt fyrirkomulag er óásættanlegt. Það gæti stuðlað að kulnun strax á námsárunum og gerir nám í heilbrigðisvísindum óaðgengilegt þeim sem ekki hafa sterkt fjárhagslegt bakland.

Við í Röskvu sættum okkur ekki við slíkt fyrirkomulag lengur. Launað starfsnám á að vera tryggt fyrir alla nemendur, líka á Heilbrigðisvísindasviði. Stúdentar geta haft áhrif á hverjir leiða þessa baráttu og þú getur treyst því að við í Röskvu munum gera það þeim krafti sem einkennir öll okkar störf.

Kjósum háskóla fyrir alla, kjósum Röskvu.

Eyrún Baldursdóttir, 1. sæti á Heilbrigðisvísindasviði fyrir Röskvu




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×