Skoðun

Pólun samfélagsins

Helgi Héðinsson skrifar
Í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum 2016 fór að bera aftur á fyrirbæri sem kallað hefur verið pólun samfélagsins (e. social polarization). Pólun má í grunninn skýra sem einhvers konar þörf til að skilja að svart og hvítt, hægri og vinstri pólitík, rétt og rangt, satt eða logið. Stærsti vandinn við þetta er að flest okkar hafa hugmyndir sem falla einhvers staðar pólanna á milli.

Í ljósi átakanna sem nú ríkja á vinnumarkaði og þeirrar pólunar sem hún lýsir er fróðlegt að staldra við og velta fyrir sér hvað það er sem veldur.

Tilhneiging til pólunar getur átt sér fjölmargar rætur. Misskipting, óréttlæti, óstöðugleiki eða annað sem kallar fram sterkar tilfinningar. Bál pólunar er knúið áfram af ýmsu, en tvennt kemur fyrst upp í hugann. Fyrir það fyrsta er eftirspurn fjölmiðla eftir frétta- og umfjöllunarefni yfirleitt þannig háttað að sóst er eftir þeim sjónarmiðum sem vekja mest viðbrögð og leiða af sér áhorf, deilingar á samfélagsmiðlum og harkaleg skoðanaskipti.

Í öðru lagi virðist þörf einstaklinga til tjáningar aukast eftir því sem menn færast nær sínum pól og finna sig knúna til að sannfæra aðra um sinn eina sannleik. Í báðum tilfellum hafa þessar aðgerðir áhrif á skynjun okkur á samfélaginu og þeim aðstæðum sem við búum við. Alvarlegasta afleiðingin er að öll umræða umverpist um pólana og verður allt annað en málefnaleg. Byggð upp á tilfinningum og skoðunum umfram staðreyndir.

Ábyrgð

Við berum ábyrgð, enda er það fólk sem rekur fjölmiðla og það er fólk sem tekur ákvörðun um að beita sér á samfélagsmiðlum. Það er ekki hagur nokkurs manns að hér verði okkur skipt í tvö lið sem aldrei leita málamiðlana. Tvö lið sem bæði eru ófær um að hafa staðreyndir og sannleika að leiðarljósi. Þróun sem lítið hefur fram að færa annað en átök, deilur, vondar tilfinningar og óstöðugleika samfélagsins. Berum ábyrgð.

Höfundur er oddviti Skútustaðahrepps 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×