Skoðun

Ljótur leikur

Oddný G. Harðardóttir skrifar
Fjármálaráðherra kynnti fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2020-2024 síðastliðinn laugardag. Það er athyglisvert að lesa áætlunina í ljósi stöðunnar á vinnumarkaði og þá sérstaklega með kjör stóru kvennastéttanna hjá ríkinu í huga.

Skattabreytingarnar í áætluninni eru þær sömu sem áður voru boðaðar með tæpum 7 þúsund krónum á mánuði til allra, líka þeirra sem eru með milljónir á mánuði. Hefur einhver beðið stjórnvöld um þessa rausn við ríkasta helming landsmanna? Þarna er illa farið með almannafé. Húsnæðisstuðningurinn er alls ekki sá sem vonast hafði verið eftir og barnabætur eru með sömu skerðingunum á lágar millitekjur og í ár.

Í upphafi kjörtímabilsins setti ríkisstjórnin sér fjármálastefnu sem gerir ráð fyrir ákveðnum afgangi á ríkissjóði. Út af þeirri stefnu má ekki bregða nema hér verði efnahagshrun eða náttúruhamfarir. Þannig á ríkissjóður að skila 29 milljarða króna afgangi á árinu 2020. Þegar búið er að reikna bæði tekjur og gjöld miðað við nýja hagspá og þegar búið er að reikna kerfislægan kostnað s.s. vegna fjölgunar aldraðra, þá er ekki mikið eftir upp í loforð ríkisstjórnarinnar. Þess vegna setur hún 5 milljarða króna aðhald á árið 2020 og samtals verður aðhaldið orðið rúmir 13 milljarðar árið 2024.

Og svo er viðbótaraðhald sem enginn veit enn hversu mikið verður. Ef ríkisstarfsmenn semja um meira en 0,5% launahækkanir umfram verðlag verða ráðuneytin að skera niður fyrir þeim launakostnaði. Þetta mun hafa í för með sér lakari þjónustu við sjúklinga og börn og aðra þá sem þurfa á þjónustu ríkisins að halda og þetta mun auka enn álag á stóru kvennastéttirnar eins og á það sé bætandi, eða líklegt sé að þetta muni laða til starfa fleiri hjúkrunarfræðinga eða sjúkraliða. Þessi skilaboð í gegnum fjármálaáætlunina eiga væntanlega að setja pressu á samningsaðila. Slíkt er ekkert annað en ljótur leikur stjórnvalda í upphafi kjaraviðræðna við ríkisstarfsmenn.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×