Elizabeth Holmes var um tíma ein skærasta stjarnan í Sílikondalnum í Kaliforníu og jafnvel sögð vera næsti Steve Jobs eða Bill Gates. Í dag er hún alræmd í frumkvöðla- og tæknigeiranum þar sem hún sætir ákæru fyrir fjársvik og tilraun til fjársvika. Talið er að Holmes hafi blekkt fjárfesta til að leggja mörg hundruð milljónir dollara í fyrirtæki sitt Theranos á 15 ára tímabili, eða allt frá því að hún stofnaði fyrirtækið árið 2003 og þar til það hætti starfsemi í september í fyrra. Saga Holmes er um margt ótrúleg. Hún var ekki nema 19 ára gömul þegar hún hætti í námi í Stanford-háskóla til þess að einbeita sér að Theranos sem hún var þá nýbúin að stofna. Í gegnum árin tókst henni að fá til liðs við sig nafntogaða fjárfesta og stjórnmálamenn á borð við Walton-fjölskylduna sem stofnaði Walmart-keðjuna, fjölmiðlamógúlinn Rupert Murdoch, og fyrrverandi utanríkisráðherrana Henry Kissinger og George Shultz. Holmes í viðtali með Bill Clinton, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, árið 2015. Hún fékk til liðs við sig bæði áhrifamikla fjárfesta sem og stjórnmálamenn.vísir/getty Framúrskarandi og heillandi með djúpa rödd í svörtum rúllukragabol Margir af þeim sem lögðu fjármuni og nafn sitt við Theranos þegar uppgangur fyrirtækisins var sem mestur lýstu Holmes á þeim tíma sem framúrskarandi og heillandi manneskju. Djúp rödd hennar og svartur rúllukragabolurinn sem hún klæddist, innblásin af Jobs, urðu nokkurs konar einkennismerki hennar. Einhverjir telja reyndar að hún hafi vísvitandi dýpkað rödd sína og að rödd hennar sé í raun ekki svo djúp frá náttúrunnar hendi. Varan sem Theranos var með í þróun og ætlaði að markaðssetja var lýst sem byltingarkenndri fyrir heilbrigðiskerfið. Upphaflega hugmyndin var að setja á markað nokkurs konar plástur sem myndi gefa sjúklingi sýklalyfin sem hann þyrfti á að halda. Plásturinn átti einnig að geta greint blóð sjúklingsins og þannig aðlagað lyfjaskammtinn eftir því hvernig sjúklingurinn brást við lyfinu. Varan sem á endanum var markaðssett var talsvert öðruvísi en plásturinn sem Holmes ætlaði sér upphaflega að þróa og framleiða. Varan sem Theranos setti á markað átti að geta framkvæmt fullkomnar blóðprufur með aðeins nokkrum dropum af blóði sem teknir voru með nál í fingur. Ekki aðeins átti þessi aðferð við prufuna sjálfa að vera mun ódýrari en hin hefðbundna blóðprufa þar sem töluvert magn af blóði er tekið með nál úr æð, heldur áttu einstaklingar einnig að geta komist að því hvort þeir væru með sjúkdóma eins og krabbamein eða sykursýki. Eins og síðar hefur komið í ljós var það víðs fjarri sannleikanum að nokkuð í líkingu við þetta væri mögulegt. Í dag telja raunar flestir þeirra sem rannsakað hafa starfsemi Theranos að fyrirtækið hafi aldrei verið nálægt því að ná að framleiða og þróa þá vöru sem fjárfestum og almenningi var talin trú um að væri í pípunum. Innblásin af ótta við nálar Elizabeth Holmes er fædd í Washington DC þann 3. febrúar 1984. Hún er dóttir hjónanna Christian Holmes IV og Noel Anne Daoust og að mestu alin upp í Houston í Texas. Faðir hennar starfaði meðal annars sem aðstoðarforstjóri hjá orkufyrirtækinu Enron og svo hjá hinum ýmsu ríkisstofnunum eftir skandalinn sem setti Enron á hliðina. Þrátt fyrir að Holmes hefði enga háskólagráðu, hvorki í læknavísindum né verkfræði, höfðu margir óbilandi trú á henni, ekki hvað síst vegna þess að langafi hennar var læknir og langalangafi hennar frumkvöðull. Holmes var því talin vera með þetta í blóðinu. Sem barn er Holmes sögð hafa verið með mikið keppnisskap. Ung að árum kvaðst hún ætla að verða milljarðamæringur og þegar hún var sjö ára gerði hún tilraun til þess að hanna tímavél með því að teikna upp mjög nákvæmar verkfræðiteikningar af vélinni. Holmes var fyrirmyndarnemandi. Þegar hún var unglingur lærði hún kínversku og komst inn í sumarnámskeið Stanford-háskóla í kínversku sem meðal annars fól í sér ferð til Beijing. Holmes ætlaði sér alltaf að verða læknir en var dauðhrædd við nálar. Síðar sagði hún að sá ótti hefði haft áhrif á hana þegar hún stofnaði Theranos. Stjarna Holmes fór að skína skært árið 2013, 10 árum eftir að hún stofnaði Theranos. Mikil leynd hafði ávallt hvílt yfir starfseminni og leyndin var í raun ekki mikið minni eftir að fyrirtækið hóf að auglýsa sig og markaðssetja.vísir/getty Mikil leynd yfir starfseminni Fyrstu tíu árin í rekstri Theranos fór ekki mikið fyrir fyrirtækinu. Mikil leynd hvíldi yfir starfseminni en fyrirtækið stækkaði jafnt og þétt og fjárfestum fjölgaði. Fyrirtækið var þó aldrei skráð á hlutabréfamarkað. Einn af þeim fyrstu sem kom að borðinu árið 2003 var Channing Robertson prófessor í efnaverkfræði við Stanford og einn af kennurum Holmes við skólann. Holmes leitaði til hans þegar hún vildi stofna fyrirtæki í kringum hugmynd sína að plástrinum. Blaðamaður Fortune, Roger Parloff, ræddi við Robertson þegar hann heimsótti Theranos árið 2014. Hann varði fjórum dögum í Kaliforníu þar sem hann ræddi ítarlega við Holmes, fjölskyldu hennar og vini og fólk sem hafði komið að fyrirtækinu, líkt og Robertson. „Ég vissi að hún væri öðruvísi“ Grein Parloff átti sinn þátt í því að gera Holmes að stjörnu, meðal annars vegna þess að unga uppfinningakonan prýddi forsíðu Fortune. Í upphafi greinarinnar ræðir Parloff við Robertson sem rifjar upp þegar Holmes kom fyrst til hans með hugmyndina að Theranos. „Ég vissi að hún væri öðruvísi. Það hvernig hún nálgaðist flókin tæknileg vandamál var nýstárlegt og algjörlega einstakt að mínu viti,“ sagði Robertson. Plásturinn sem hún kynnti fyrir kennara sínum var eitthvað sem hann hafði aldrei séð áður. Robertson fannst hugmyndin mögnuð og var heillaður af ástríðu Holmes fyrir verkefninu. „Þegar ég áttaði mig á því hvað Elizabeth er í raun þá fattaði ég að ég væri mögulega að horfa í augun á næsta Steve Jobs eða Bill Gates,“ sagði Robertson í viðtalinu við Fortune. Henry Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, átti um tíma sæti í stjórn Theranos.vísir/getty Sannfærði stjórnina um að setja sig ekki af sem forstjóra Sú mikla leynd sem hvíldi yfir allri starfsemi Theranos, á grundvelli þess sem Holmes kallaði viðskiptaleyndarmál, gerði það að verkum að fjárfestar lögðu fyrirtækinu til peninga án þess að vita í raun hvað raunverulega fór fram innan veggja Theranos. Þá lagði Holmes aldrei fram nein fjárhagsleg gögn fyrir fjárfesta sem endurskoðendur höfðu farið yfir en kynningar hennar á starfseminni voru engu að síður allar mjög sannfærandi og trúverðugar. Árið 2008 hafði stjórn Theranos ákveðið að Holmes þyrfti að hætta sem forstjóri og einhver reynslumeiri ætti að taka við keflinu. Sannfæringarkraftur Holmes virðist hins vegar hafa verið slíkur að á tveggja tíma fundi með stjórninni tókst henni að fá stjórnarmenn ofan af því að setja hana af og leyfa henni að vera áfram í forstjórasætinu. Ramesh Sunny Balwani var nánasti samstarfsmaður Holmes um margra ára skeið. Þau voru einnig par.vísir/getty Vænisjúkur kærasti og stjórnarformaður Árið 2009 kom Ramesh „Sunny“ Balwani til starfa hjá Theranos. Balwani hafði kynnst Holmes árið 2002. Balwani og Holmes tóku saman ári síðar en 19 ára aldursmunur er á þeim. Balwani, sem einnig sætir ákæru fyrir fjársvik og tilraun til fjársvika, gegndi ýmsum stjórnunarstöðum hjá Theranos en segja má að hann hafi séð um rekstur fyrirtækisins dag frá degi. Fyrrverandi starfsmenn Theranos hafa lýst Balwani sem yfirþyrmandi manni sem gat verið ógnandi í samskiptum og svo óttasleginn um að viðskiptaleyndarmál fyrirtækisins lækju út að hann var vænisjúkur. Leyndin skipti Holmes einnig miklu máli, svo miklu að ef gestir komu í höfuðstöðvar Theranos fylgdu öryggisverðir þeir út um allt, líka ef gestirnir þurftu að nota salernið. Balwani og Holmes unnu náið saman hjá Theranos og voru með tögl og haldir í fyrirtækinu. Fæstir vissu hins vegar af því að þau ættu líka í ástarsambandi og byggju saman. Walgreens er ein stærsta keðja apóteka í Bandaríkjunum. Hörð samkeppni við stærsta keppinautinn CVS leiddi til þess að Walgreens fór í samstarf við Theranos þrátt fyrir að vita ekki nægilega mikið um starfsemi fyrirtækisins.vísir/getty Risasamningur við Walgreens Spólum áfram til ársins 2013. Þá landaði Theranos stórum samningi við apótekakeðjuna Walgreens í Bandaríkjunum. Samkvæmt samkomulaginu átti að opna nokkurs konar heilbrigðisstöðvar Theranos í 42 útibúum Walgreens í Phoenix, tvær stöðvar í Kaliforníu og eina í Pennsylvaníu. Á þessum heilbrigðisstöðvum bauðst sjúklingum að láta taka hjá sér blóðprufur, aðeins nokkra dropa, sem síðan voru sendar til greiningar á rannsóknarstofu Theranos. Var þetta mun ódýrari kostur en að fara í blóðprufu á hefðbundinn hátt. Því miður fyrir sjúklingana reyndist það Theranos þrautin þyngri, og nánast ómögulegt, að greina prufurnar rétt með tækninni sem fyrirtækið hafði þróað. Það leið því ekki á löngu þar til starfsmennirnir í heilbrigðisstöðvum Theranos í Walgreens fóru að taka blóðprufur á hefðbundinn hátt. Töluvert magn af blóði þurfti því til þess að hægt væri að greina blóðið í þar til gerðum tækjum sem Theranos hafði keypt af öðrum framleiðendum. Enn var þó reynt að greina blóðið í tæki Theranos sem kallað var Edison. Forsíða Fortune í júní 2014 var ein af fjölmörgum fjölmiðlaumfjöllunum sem áttu sinn þátt í að gera stjörnu úr Elizabeth Holmes. „How Theranos Misled Me“ Þessi vandræðagangur Theranos við blóðprufurnar varð almenningi ekki kunnur fyrr en í október 2015 þegar The Wall Street Journal birti grein John Carreyrou, blaðamanns, sem bar yfirskriftina „Hot Startup Theranos Has Struggled With Its Blood-Test Technology.“ Árið áður hafði Theranos verið metið á níu milljarða dollara og stjarna Holmes skein skært. Greinin var því afhjúpandi fyrir fjölmarga sem komið höfðu að rekstri Theranos, sett peninga í fyrirtækið sem og fyrir þá sem höfðu farið í blóðprufu hjá fyrirtækinu. Þá kom greinin afar illa við ýmsa blaða- og fréttamenn sem fjallað höfðu um Theranos og Holmes á árunum 2013 til 2015 og tekið orð hennar um fyrirtækið, tæknina og vöruna trúanleg. Þannig hefur Parloff, sem setti Holmes á forsíðuna á Fortune, lýst því hversu hræðilega honum leið þegar hann las grein Carreyrou. Um mánuði eftir að greinin birtist í The Wall Street Journal skrifaði Parloff leiðréttingu á forsíðuumfjölluninni með fyrirsögninni „How Theranos Misled Me.“ Elizabeth Holmes þegar hún kom fyrir rétt í Kaliforníu í apríl síðastliðnum.vísir/getty Ekki nógu stórt og ekki nógu mikið blóð Tæknin sem var hugarfóstur Holmes, tækið Edison sem átti að geta greint blóð með aðeins nokkrum dropum, virkaði illa. Ástæðan var sú að tækið var ekki nógu stórt og magnið af blóði ekki nógu mikið. Holmes gat hins vegar ekki sætt sig við að tæknin virkaði ekki sem skyldi þar sem draumur hennar var að tækið væri nógu lítið til þess að fólk gæti haft það heima hjá sér og þannig framkvæmt blóðprufurnar sjálft við stofuborðið. Starfsfólk lagði því mikið á sig til þess að fá tækið til að virka en fyrrverandi starfsmenn hafa lýst því hvernig oft á tíðum ríkti einfaldlega ringulreið á tilraunastofunni vegna þess að allt gekk á afturfótunum. Starfsmenn töldu að blekkingum hefði verið beitt Í grein Carreyrou í The Wall Street Journal er sagt frá því að Edison-tækið gat aðeins gert fimmtán greiningar á blóðprufum af þeim 240 sem Theranos auglýsti að það gæti framkvæmt. Aðrar greiningar voru gerðar með hefðbundnum tækjum frá framleiðendum á borð við Siemens. Fjórir fyrrverandi starfsmenn Theranos ræddu við Carreyrou við vinnslu greinarinnar. Þeir sögðu frá því að starfsmenn settu spurningamerki við það hversu áreiðanlegar greiningarnar væru sem gerðar voru með Edison-tækinu. Þá hafði einn starfsmaður kvartað til eftirlitsstofnana þar sem Theranos sinnti ekki upplýsingaskyldu um ónákvæmni í greiningunum. Slíkt gæti verið brot á alríkislögum um tilraunastofur sagði starfsmaðurinn. Í greininni var það jafnframt rakið hvernig starfsmenn töldu að Holmes og Belwani hefðu beitt blekkingum til þess að fá í gegn leyfið sem nauðsynlegt var til þess að mega taka blóðprufur og greina þær. Þannig létu Holmes og Balwani ekki frammistöðuprófa Edison-tækið heldur létu aðeins greina blóðprufurnar í tækjum frá öðrum framleiðendum. Var þetta vegna þess að Edison-tækið skilaði ekki nógu nákvæmum og góðum greiningum í prófunum. Starfsmenn Theranos voru ekki vissir um að löglega væri staðið að málum þar sem gera átti frammistöðuprófanir á öllum þeim tækjum sem fyrirtækið ætlaði að nota. Úr 4,5 milljörðum í núll Holmes reyndi að taka til varna í kjölfar greinar Carreyrou en sönnunargögnin gegn henni hrönnuðust upp og fallið var hátt. Nokkrum mánuðum áður en grein Carreyrou birtist í The Wall Street Journal hafði viðskiptatímaritið Forbes metið auðæfi Holmes á 4,5 milljarða dollara. Hún var á toppnum yfir ríkustu konur Bandaríkjanna sem voru „sjálfskapaðir“ milljarðamæringar. Í júní 2016, átta mánuðum eftir að grein Carreyrou birtist, mat Forbes auðæfi Holmes á núll dollara. Þá stóðu öll spjót að Theranos og Holmes, ekki aðeins varðandi ónákvæmar greiningar og lélegan aðbúnað á rannsóknarstofu heldur var sjónum einnig beint að fjárhag fyrirtækisins. Var talið að árlegar tekjur þess væru innan við 100 milljónir dollara. Í sama mánuði hætti Walgreens samstarfi sínu við Theranos og nokkrum vikum síðar sviptu eftirlitsstofnanir fyrirtækið leyfi til þess að reka rannsóknarstofu. Walgreens höfðaði mál gegn Theranos í nóvember 2016 og lauk því með sektargreiðslu utan dómstóla í ágúst 2017. Gætu átt 20 fangelsi yfir höfði sér Árið 2016 misstu 340 manns vinnuna hjá Theranos. Í byrjun árs 2017 var 155 manns sagt upp en það var nánast helmingur allra þeirra sem enn voru í vinnu hjá Holmes. Í mars 2018 var Holmes síðan gert að greiða 500 þúsund dollara í sekt fyrir að hafa aflað Theranos fjár með lygum og blekkingum. Alríkisstofnun sem fer meðal annars með málefni er varða útgáfu, sölu og skrásetningu verðbréfa í Bandaríkjunum, The Securities and Exchange Commission, sagði Holmes hafa blekkt fjárfesta með fullyrðingum um fyrirtækið sem voru fjarri sannleikanum. Í júní í fyrra var síðan gefin út ákæra á hendur Holmes og Balwani fyrir fjársvik og tilraunir til fjársvika. Eru þau ekki aðeins ákærð fyrir að hafa blekkt fjárfesta heldur einnig fyrir að hafa blekkt lækna og sjúklinga sem sóttu þjónustu til Theranos. Bæði Holmes og Balwani neita sök. Þau eru ekki lengur par. Þau hættu saman árið 2016, um svipað leyti og Balwani lét af störfum hjá Theranos. Verði þau fundin sek gætu þau átt 20 ára fangelsisdóm yfir höfði sér. Næsta fyrirtaka í máli þeirra verður í Kaliforníu eftir þrjár vikur en áætlað er að aðalmeðferð hefjist þann 8. júlí næstkomandi. Þessi umfjöllun er byggð á heimildarmyndinni The Inventor: Out for Blood in Silicon Valley, sem aðgengileg er á Stöð 2 Maraþon, hlaðvarpsþáttunum The Dropout og að hluta á bókinni Bad Blood: Secret and Lies in a Silicon Valley Startup auk fjölda blaðagreina sem ritaðar hafa verið um Theranos og Elizabeth Holmes í gegnum árin. Bandaríkin Fréttaskýringar Tækni Elizabeth Holmes og Theranos Tengdar fréttir Sú sem var sögð næsti Steve Jobs greiðir sekt vegna blekkinga Frumkvöðlar sem ætla sér að breyta iðnaði verða að segja fjárfestum sannleikann, segir sú sem fór fyrir málinu gegn þessum frumkvöðli. 14. mars 2018 23:57 Mest lesið „Stelpupabbarnir eru ósjálfrátt betur á verði“ Atvinnulíf Verðbólgan komin undir fimm prósent Viðskipti innlent Gengið frá kaupum Haga á færeyska verslanarisanum Viðskipti innlent Helena til Íslandssjóða Viðskipti innlent Þrjú fá kauprétt fyrir alls 277 milljónir Viðskipti innlent Ósætti með vinnubrögð Blackbox sem virðist á barmi gjaldþrots Viðskipti innlent EX90 sló í gegn á frumsýningu hjá Brimborg Samstarf Magga í Pfaff: „Ég man meira að segja hvar fyrsti kossinn var“ Atvinnulíf Driffjöður Vertonet: „Við erum að setja kjöt á beinin núna“ Atvinnulíf Velgengni í New York: „Mér finnst ég ekkert hafa verið hér mjög lengi“ Atvinnulíf
Elizabeth Holmes var um tíma ein skærasta stjarnan í Sílikondalnum í Kaliforníu og jafnvel sögð vera næsti Steve Jobs eða Bill Gates. Í dag er hún alræmd í frumkvöðla- og tæknigeiranum þar sem hún sætir ákæru fyrir fjársvik og tilraun til fjársvika. Talið er að Holmes hafi blekkt fjárfesta til að leggja mörg hundruð milljónir dollara í fyrirtæki sitt Theranos á 15 ára tímabili, eða allt frá því að hún stofnaði fyrirtækið árið 2003 og þar til það hætti starfsemi í september í fyrra. Saga Holmes er um margt ótrúleg. Hún var ekki nema 19 ára gömul þegar hún hætti í námi í Stanford-háskóla til þess að einbeita sér að Theranos sem hún var þá nýbúin að stofna. Í gegnum árin tókst henni að fá til liðs við sig nafntogaða fjárfesta og stjórnmálamenn á borð við Walton-fjölskylduna sem stofnaði Walmart-keðjuna, fjölmiðlamógúlinn Rupert Murdoch, og fyrrverandi utanríkisráðherrana Henry Kissinger og George Shultz. Holmes í viðtali með Bill Clinton, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, árið 2015. Hún fékk til liðs við sig bæði áhrifamikla fjárfesta sem og stjórnmálamenn.vísir/getty Framúrskarandi og heillandi með djúpa rödd í svörtum rúllukragabol Margir af þeim sem lögðu fjármuni og nafn sitt við Theranos þegar uppgangur fyrirtækisins var sem mestur lýstu Holmes á þeim tíma sem framúrskarandi og heillandi manneskju. Djúp rödd hennar og svartur rúllukragabolurinn sem hún klæddist, innblásin af Jobs, urðu nokkurs konar einkennismerki hennar. Einhverjir telja reyndar að hún hafi vísvitandi dýpkað rödd sína og að rödd hennar sé í raun ekki svo djúp frá náttúrunnar hendi. Varan sem Theranos var með í þróun og ætlaði að markaðssetja var lýst sem byltingarkenndri fyrir heilbrigðiskerfið. Upphaflega hugmyndin var að setja á markað nokkurs konar plástur sem myndi gefa sjúklingi sýklalyfin sem hann þyrfti á að halda. Plásturinn átti einnig að geta greint blóð sjúklingsins og þannig aðlagað lyfjaskammtinn eftir því hvernig sjúklingurinn brást við lyfinu. Varan sem á endanum var markaðssett var talsvert öðruvísi en plásturinn sem Holmes ætlaði sér upphaflega að þróa og framleiða. Varan sem Theranos setti á markað átti að geta framkvæmt fullkomnar blóðprufur með aðeins nokkrum dropum af blóði sem teknir voru með nál í fingur. Ekki aðeins átti þessi aðferð við prufuna sjálfa að vera mun ódýrari en hin hefðbundna blóðprufa þar sem töluvert magn af blóði er tekið með nál úr æð, heldur áttu einstaklingar einnig að geta komist að því hvort þeir væru með sjúkdóma eins og krabbamein eða sykursýki. Eins og síðar hefur komið í ljós var það víðs fjarri sannleikanum að nokkuð í líkingu við þetta væri mögulegt. Í dag telja raunar flestir þeirra sem rannsakað hafa starfsemi Theranos að fyrirtækið hafi aldrei verið nálægt því að ná að framleiða og þróa þá vöru sem fjárfestum og almenningi var talin trú um að væri í pípunum. Innblásin af ótta við nálar Elizabeth Holmes er fædd í Washington DC þann 3. febrúar 1984. Hún er dóttir hjónanna Christian Holmes IV og Noel Anne Daoust og að mestu alin upp í Houston í Texas. Faðir hennar starfaði meðal annars sem aðstoðarforstjóri hjá orkufyrirtækinu Enron og svo hjá hinum ýmsu ríkisstofnunum eftir skandalinn sem setti Enron á hliðina. Þrátt fyrir að Holmes hefði enga háskólagráðu, hvorki í læknavísindum né verkfræði, höfðu margir óbilandi trú á henni, ekki hvað síst vegna þess að langafi hennar var læknir og langalangafi hennar frumkvöðull. Holmes var því talin vera með þetta í blóðinu. Sem barn er Holmes sögð hafa verið með mikið keppnisskap. Ung að árum kvaðst hún ætla að verða milljarðamæringur og þegar hún var sjö ára gerði hún tilraun til þess að hanna tímavél með því að teikna upp mjög nákvæmar verkfræðiteikningar af vélinni. Holmes var fyrirmyndarnemandi. Þegar hún var unglingur lærði hún kínversku og komst inn í sumarnámskeið Stanford-háskóla í kínversku sem meðal annars fól í sér ferð til Beijing. Holmes ætlaði sér alltaf að verða læknir en var dauðhrædd við nálar. Síðar sagði hún að sá ótti hefði haft áhrif á hana þegar hún stofnaði Theranos. Stjarna Holmes fór að skína skært árið 2013, 10 árum eftir að hún stofnaði Theranos. Mikil leynd hafði ávallt hvílt yfir starfseminni og leyndin var í raun ekki mikið minni eftir að fyrirtækið hóf að auglýsa sig og markaðssetja.vísir/getty Mikil leynd yfir starfseminni Fyrstu tíu árin í rekstri Theranos fór ekki mikið fyrir fyrirtækinu. Mikil leynd hvíldi yfir starfseminni en fyrirtækið stækkaði jafnt og þétt og fjárfestum fjölgaði. Fyrirtækið var þó aldrei skráð á hlutabréfamarkað. Einn af þeim fyrstu sem kom að borðinu árið 2003 var Channing Robertson prófessor í efnaverkfræði við Stanford og einn af kennurum Holmes við skólann. Holmes leitaði til hans þegar hún vildi stofna fyrirtæki í kringum hugmynd sína að plástrinum. Blaðamaður Fortune, Roger Parloff, ræddi við Robertson þegar hann heimsótti Theranos árið 2014. Hann varði fjórum dögum í Kaliforníu þar sem hann ræddi ítarlega við Holmes, fjölskyldu hennar og vini og fólk sem hafði komið að fyrirtækinu, líkt og Robertson. „Ég vissi að hún væri öðruvísi“ Grein Parloff átti sinn þátt í því að gera Holmes að stjörnu, meðal annars vegna þess að unga uppfinningakonan prýddi forsíðu Fortune. Í upphafi greinarinnar ræðir Parloff við Robertson sem rifjar upp þegar Holmes kom fyrst til hans með hugmyndina að Theranos. „Ég vissi að hún væri öðruvísi. Það hvernig hún nálgaðist flókin tæknileg vandamál var nýstárlegt og algjörlega einstakt að mínu viti,“ sagði Robertson. Plásturinn sem hún kynnti fyrir kennara sínum var eitthvað sem hann hafði aldrei séð áður. Robertson fannst hugmyndin mögnuð og var heillaður af ástríðu Holmes fyrir verkefninu. „Þegar ég áttaði mig á því hvað Elizabeth er í raun þá fattaði ég að ég væri mögulega að horfa í augun á næsta Steve Jobs eða Bill Gates,“ sagði Robertson í viðtalinu við Fortune. Henry Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, átti um tíma sæti í stjórn Theranos.vísir/getty Sannfærði stjórnina um að setja sig ekki af sem forstjóra Sú mikla leynd sem hvíldi yfir allri starfsemi Theranos, á grundvelli þess sem Holmes kallaði viðskiptaleyndarmál, gerði það að verkum að fjárfestar lögðu fyrirtækinu til peninga án þess að vita í raun hvað raunverulega fór fram innan veggja Theranos. Þá lagði Holmes aldrei fram nein fjárhagsleg gögn fyrir fjárfesta sem endurskoðendur höfðu farið yfir en kynningar hennar á starfseminni voru engu að síður allar mjög sannfærandi og trúverðugar. Árið 2008 hafði stjórn Theranos ákveðið að Holmes þyrfti að hætta sem forstjóri og einhver reynslumeiri ætti að taka við keflinu. Sannfæringarkraftur Holmes virðist hins vegar hafa verið slíkur að á tveggja tíma fundi með stjórninni tókst henni að fá stjórnarmenn ofan af því að setja hana af og leyfa henni að vera áfram í forstjórasætinu. Ramesh Sunny Balwani var nánasti samstarfsmaður Holmes um margra ára skeið. Þau voru einnig par.vísir/getty Vænisjúkur kærasti og stjórnarformaður Árið 2009 kom Ramesh „Sunny“ Balwani til starfa hjá Theranos. Balwani hafði kynnst Holmes árið 2002. Balwani og Holmes tóku saman ári síðar en 19 ára aldursmunur er á þeim. Balwani, sem einnig sætir ákæru fyrir fjársvik og tilraun til fjársvika, gegndi ýmsum stjórnunarstöðum hjá Theranos en segja má að hann hafi séð um rekstur fyrirtækisins dag frá degi. Fyrrverandi starfsmenn Theranos hafa lýst Balwani sem yfirþyrmandi manni sem gat verið ógnandi í samskiptum og svo óttasleginn um að viðskiptaleyndarmál fyrirtækisins lækju út að hann var vænisjúkur. Leyndin skipti Holmes einnig miklu máli, svo miklu að ef gestir komu í höfuðstöðvar Theranos fylgdu öryggisverðir þeir út um allt, líka ef gestirnir þurftu að nota salernið. Balwani og Holmes unnu náið saman hjá Theranos og voru með tögl og haldir í fyrirtækinu. Fæstir vissu hins vegar af því að þau ættu líka í ástarsambandi og byggju saman. Walgreens er ein stærsta keðja apóteka í Bandaríkjunum. Hörð samkeppni við stærsta keppinautinn CVS leiddi til þess að Walgreens fór í samstarf við Theranos þrátt fyrir að vita ekki nægilega mikið um starfsemi fyrirtækisins.vísir/getty Risasamningur við Walgreens Spólum áfram til ársins 2013. Þá landaði Theranos stórum samningi við apótekakeðjuna Walgreens í Bandaríkjunum. Samkvæmt samkomulaginu átti að opna nokkurs konar heilbrigðisstöðvar Theranos í 42 útibúum Walgreens í Phoenix, tvær stöðvar í Kaliforníu og eina í Pennsylvaníu. Á þessum heilbrigðisstöðvum bauðst sjúklingum að láta taka hjá sér blóðprufur, aðeins nokkra dropa, sem síðan voru sendar til greiningar á rannsóknarstofu Theranos. Var þetta mun ódýrari kostur en að fara í blóðprufu á hefðbundinn hátt. Því miður fyrir sjúklingana reyndist það Theranos þrautin þyngri, og nánast ómögulegt, að greina prufurnar rétt með tækninni sem fyrirtækið hafði þróað. Það leið því ekki á löngu þar til starfsmennirnir í heilbrigðisstöðvum Theranos í Walgreens fóru að taka blóðprufur á hefðbundinn hátt. Töluvert magn af blóði þurfti því til þess að hægt væri að greina blóðið í þar til gerðum tækjum sem Theranos hafði keypt af öðrum framleiðendum. Enn var þó reynt að greina blóðið í tæki Theranos sem kallað var Edison. Forsíða Fortune í júní 2014 var ein af fjölmörgum fjölmiðlaumfjöllunum sem áttu sinn þátt í að gera stjörnu úr Elizabeth Holmes. „How Theranos Misled Me“ Þessi vandræðagangur Theranos við blóðprufurnar varð almenningi ekki kunnur fyrr en í október 2015 þegar The Wall Street Journal birti grein John Carreyrou, blaðamanns, sem bar yfirskriftina „Hot Startup Theranos Has Struggled With Its Blood-Test Technology.“ Árið áður hafði Theranos verið metið á níu milljarða dollara og stjarna Holmes skein skært. Greinin var því afhjúpandi fyrir fjölmarga sem komið höfðu að rekstri Theranos, sett peninga í fyrirtækið sem og fyrir þá sem höfðu farið í blóðprufu hjá fyrirtækinu. Þá kom greinin afar illa við ýmsa blaða- og fréttamenn sem fjallað höfðu um Theranos og Holmes á árunum 2013 til 2015 og tekið orð hennar um fyrirtækið, tæknina og vöruna trúanleg. Þannig hefur Parloff, sem setti Holmes á forsíðuna á Fortune, lýst því hversu hræðilega honum leið þegar hann las grein Carreyrou. Um mánuði eftir að greinin birtist í The Wall Street Journal skrifaði Parloff leiðréttingu á forsíðuumfjölluninni með fyrirsögninni „How Theranos Misled Me.“ Elizabeth Holmes þegar hún kom fyrir rétt í Kaliforníu í apríl síðastliðnum.vísir/getty Ekki nógu stórt og ekki nógu mikið blóð Tæknin sem var hugarfóstur Holmes, tækið Edison sem átti að geta greint blóð með aðeins nokkrum dropum, virkaði illa. Ástæðan var sú að tækið var ekki nógu stórt og magnið af blóði ekki nógu mikið. Holmes gat hins vegar ekki sætt sig við að tæknin virkaði ekki sem skyldi þar sem draumur hennar var að tækið væri nógu lítið til þess að fólk gæti haft það heima hjá sér og þannig framkvæmt blóðprufurnar sjálft við stofuborðið. Starfsfólk lagði því mikið á sig til þess að fá tækið til að virka en fyrrverandi starfsmenn hafa lýst því hvernig oft á tíðum ríkti einfaldlega ringulreið á tilraunastofunni vegna þess að allt gekk á afturfótunum. Starfsmenn töldu að blekkingum hefði verið beitt Í grein Carreyrou í The Wall Street Journal er sagt frá því að Edison-tækið gat aðeins gert fimmtán greiningar á blóðprufum af þeim 240 sem Theranos auglýsti að það gæti framkvæmt. Aðrar greiningar voru gerðar með hefðbundnum tækjum frá framleiðendum á borð við Siemens. Fjórir fyrrverandi starfsmenn Theranos ræddu við Carreyrou við vinnslu greinarinnar. Þeir sögðu frá því að starfsmenn settu spurningamerki við það hversu áreiðanlegar greiningarnar væru sem gerðar voru með Edison-tækinu. Þá hafði einn starfsmaður kvartað til eftirlitsstofnana þar sem Theranos sinnti ekki upplýsingaskyldu um ónákvæmni í greiningunum. Slíkt gæti verið brot á alríkislögum um tilraunastofur sagði starfsmaðurinn. Í greininni var það jafnframt rakið hvernig starfsmenn töldu að Holmes og Belwani hefðu beitt blekkingum til þess að fá í gegn leyfið sem nauðsynlegt var til þess að mega taka blóðprufur og greina þær. Þannig létu Holmes og Balwani ekki frammistöðuprófa Edison-tækið heldur létu aðeins greina blóðprufurnar í tækjum frá öðrum framleiðendum. Var þetta vegna þess að Edison-tækið skilaði ekki nógu nákvæmum og góðum greiningum í prófunum. Starfsmenn Theranos voru ekki vissir um að löglega væri staðið að málum þar sem gera átti frammistöðuprófanir á öllum þeim tækjum sem fyrirtækið ætlaði að nota. Úr 4,5 milljörðum í núll Holmes reyndi að taka til varna í kjölfar greinar Carreyrou en sönnunargögnin gegn henni hrönnuðust upp og fallið var hátt. Nokkrum mánuðum áður en grein Carreyrou birtist í The Wall Street Journal hafði viðskiptatímaritið Forbes metið auðæfi Holmes á 4,5 milljarða dollara. Hún var á toppnum yfir ríkustu konur Bandaríkjanna sem voru „sjálfskapaðir“ milljarðamæringar. Í júní 2016, átta mánuðum eftir að grein Carreyrou birtist, mat Forbes auðæfi Holmes á núll dollara. Þá stóðu öll spjót að Theranos og Holmes, ekki aðeins varðandi ónákvæmar greiningar og lélegan aðbúnað á rannsóknarstofu heldur var sjónum einnig beint að fjárhag fyrirtækisins. Var talið að árlegar tekjur þess væru innan við 100 milljónir dollara. Í sama mánuði hætti Walgreens samstarfi sínu við Theranos og nokkrum vikum síðar sviptu eftirlitsstofnanir fyrirtækið leyfi til þess að reka rannsóknarstofu. Walgreens höfðaði mál gegn Theranos í nóvember 2016 og lauk því með sektargreiðslu utan dómstóla í ágúst 2017. Gætu átt 20 fangelsi yfir höfði sér Árið 2016 misstu 340 manns vinnuna hjá Theranos. Í byrjun árs 2017 var 155 manns sagt upp en það var nánast helmingur allra þeirra sem enn voru í vinnu hjá Holmes. Í mars 2018 var Holmes síðan gert að greiða 500 þúsund dollara í sekt fyrir að hafa aflað Theranos fjár með lygum og blekkingum. Alríkisstofnun sem fer meðal annars með málefni er varða útgáfu, sölu og skrásetningu verðbréfa í Bandaríkjunum, The Securities and Exchange Commission, sagði Holmes hafa blekkt fjárfesta með fullyrðingum um fyrirtækið sem voru fjarri sannleikanum. Í júní í fyrra var síðan gefin út ákæra á hendur Holmes og Balwani fyrir fjársvik og tilraunir til fjársvika. Eru þau ekki aðeins ákærð fyrir að hafa blekkt fjárfesta heldur einnig fyrir að hafa blekkt lækna og sjúklinga sem sóttu þjónustu til Theranos. Bæði Holmes og Balwani neita sök. Þau eru ekki lengur par. Þau hættu saman árið 2016, um svipað leyti og Balwani lét af störfum hjá Theranos. Verði þau fundin sek gætu þau átt 20 ára fangelsisdóm yfir höfði sér. Næsta fyrirtaka í máli þeirra verður í Kaliforníu eftir þrjár vikur en áætlað er að aðalmeðferð hefjist þann 8. júlí næstkomandi. Þessi umfjöllun er byggð á heimildarmyndinni The Inventor: Out for Blood in Silicon Valley, sem aðgengileg er á Stöð 2 Maraþon, hlaðvarpsþáttunum The Dropout og að hluta á bókinni Bad Blood: Secret and Lies in a Silicon Valley Startup auk fjölda blaðagreina sem ritaðar hafa verið um Theranos og Elizabeth Holmes í gegnum árin.
Sú sem var sögð næsti Steve Jobs greiðir sekt vegna blekkinga Frumkvöðlar sem ætla sér að breyta iðnaði verða að segja fjárfestum sannleikann, segir sú sem fór fyrir málinu gegn þessum frumkvöðli. 14. mars 2018 23:57