Skoðun

Fyrr og síðar

Einar Benediktsson skrifar
Gildi sagnaritunar Íslendinga fyrir menningarheiminn í löndum austan hafs og vestan varð mér æ ljósara í ævistarfi mínu í utanríkisþjónustunni. Nærtækastur er Noregur. Án Snorra væri engin heildarmynd til af nokkurra alda tímabili norskrar sögu. Sagan af víkingaöldinni er ávallt til reiðu ef Íslendingar kunna með þá auðlegð að fara og flytja öðrum þjóðum. Íslandskynningin í Bandaríkjunum og Kanada í tilefni 1000 ára afmælis landafundar Leifs Eiríkssonar var hin mesta sigurför tengd siglingu víkingaskipsins Íslendings um hafnir Nýfundnalands, Nova Scotia og austurstrandar Bandaríkjanna til New York. Var athygli allra fjölmiðla hvarvetna miklu meiri en dæmi eru um slíka viðburði á Íslands vegum.

Háskólasamfélög í Evrópu og Ameríku hafa lengi haft í sínu liði sérfræðinga á sviði íslenskra fræða. Við marga úr þeim hópi mikilla Íslandsvina hafði ég í Frakklandi, Bretlandi, Noregi og Bandaríkjunum afar gagnleg og ánægjuleg samskipti og ber að þakka. Eftir þá og forvera þeirra liggur ótrúlegur forði ritverka og þýðinga úr íslenskum fræðum, sem komið hafa samfara kennslustörfum og einnig ná til nemenda frá Asíulöndum

Það verður að telja fráleitt, að á öld rappsins hættum við að rækja hlutverk okkar sem Íslendinga við varðveislu tungunnar og þeirra fjársjóða sem hún geymir. Eitthvað slíkt hefur verið fyrir hendi mína lífstíð: dönskuslettur áður, enskan og Hollywood-bylgjan með stríðinu og lengi á eftir eða þá fyrirferð erlendra sjónvarpsstöðva síðan. En íslensk fjölmiðlun dafnar og við eigum öflugt menntakerfi. Við risum upp úr Hruninu með fullgerða Hörpu til eflingar menningu þjóðfélagsins.

Við eigum rétt til þátttöku, svo sem sérstaða krefst, í samfélagi Evrópuþjóða. Sá ótvíræði réttur er reistur á menningu þjóðarinnar, sem er hinn norðlægi burðarás í grunni Evrópu. Hann sköpuðu Íslendingar og varðveittu til eignar og útbreiðslu. Dagrenning sögu hins norræna kynstofns er skráð í Reykholti.

Höfundur er fyrrverandi sendiherra.

 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×