Skoðun

Lummur

Arnar Tómas Valgeirsson skrifar
Lumman er ekki fremst í flokki íslensku flatbakstursfjölskyldunnar. Systur hennar, pönnukakan og vafflan, eru mun vinsælli kostur í fjölskylduboðum, og þrátt fyrir vinsældir orðatiltækisins þá veit ég ekki hvert ég ætti að fara til að kaupa mér heitar lummur þótt ég vildi það. Samt sem áður finnst mér alltaf gaman að vera boðið upp á lummur sem gerist að jafnaði á um það bil fimm ára fresti, þó með nokkrum vikmörkum. Það ætti því að vera auðvelt að áætla hversu oft ég hef borðað lummur á lífsleiðinni og hversu oft ég mun borða lummur áður en ég dey, miðað við meðal lífslíkur Íslendinga.

Ef ég næ að lifa til níræðs mun ég því borða lummur um það til tíu sinnum í viðbót áður en ég gef upp öndina. Það er ekki víst hvort þessi ályktun standist því ég get orðið bráðkvaddur eða uppskriftin að lummum gleymst í óeirðum tengdum loftslagshamförum eða Eurovision á næstu árum. Það er því ekki ómögulegt að síðasta skipti sem ég borðaði lummur hafi verið síðasta skipti sem ég borða lummur.

Það er frekar ógnvænlegt að hugsa til þess að ég hef líklega gert ótal hluti í síðasta skipti án þess að gera mér grein fyrir því. Ég er ekki viss um að ég muni nokkurn tímann sjá úlfalda aftur í eigin persónu, kaupa mér Hockey Pulver eða setjast upp í Saab. Þótt ég eigi ágætis minningar tengdar þessum hlutum finnst mér þó ólíklegt að ég muni sjá eftir þeim á þar til gerðum dánarbeði mínum. Ég á hins vegar nóg af vandamönnum sem ég hitti á um það bil fimm ára fresti, þó með nokkrum vikmörkum, og myndi sjá eftir – þótt þeir séu pínu lummó.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×