Skoðun

Hefði Nóbels­verð­launa­skáldið kallað þá ske­menn?

Ole Anton Bieltvedt skrifar
Það hefur verið með ólíkindum, hvernig bullið og ruglið um ESB-orkupakkana hefur flætt yfir bakkana, án efnisraka, góðra útskýringa eða skiljanlegs málflutnings.

Það hefur verið talinn góður siður að hugsa og kynna sér málin fyrst og tjá sig svo á eftir. Hér, hins vegar, láta menn í stórum stíl – líka virðingarverðir menn og að margra mati góðir og klárir, líka merkir ritstjórar og fyrrverandi ráðherrar, svo að ekki sé nú talað um þá, sem hvort tveggja eru – móðan mása og spara ekki stóru orðin annaðhvort af þekkingarskorti eða í stórfelldum blekkingaleik.

Þessi mannskapur heldur því fram, að Íslendingar búi yfir gífurlegri raforku, langt umfram aðra menn og þjóðir, og að vondir útlendingar og ESB-grýlur ásælist þennan mikla orkuauð okkar.

Hver er sannleikurinn í málinu? Hér að neðan verður reynt, að koma kjarna hans að – þó að þetta verði kannske bara eins og dropi í ólgandi ósanninda- og blekkingahafið.

„Orkan okkar“ – þar sem nokkrir þeirra eru samankomnir, sem Laxness hefði kannske kallað skemenn – segir m.a. þetta í heilsíðuauglýsingu í Mogga nýlega.

„VIÐ ERUM MESTA RAFORKUÞJÓÐ HEIMS.“

Þetta myndi auðvitað gera íslenzka raforku merkilega, og væri jafnvel hægt að tala um sérstök auðæfi, ef þetta væri nú bara satt og rétt.

Og hver er sannleikurinn? ESB framleiðir (2017) 2.895.917.693 gígavattstundir af raforku. Og hvað framleiddi Ísland? 18.061.163 gígavattstundir. Íslenzk raforkuframleiðsla er sem sé aðeins 0,6% af raforkuframleiðslu ESB.

Íslenzk raforka er þannig rétt upp í nös á ketti í evrópsku heildarsamhengi; það ásælist hana enginn og það hefur enginn minnsta áhuga á henni. Liggur ekki líka fyrir, að okkur kynni sjálf að skorta orku, til eigin nota, innan þriggja ára? Næstu meiriháttar rafstrengir verða lagðir yfir Miðjarðarhaf, frá Afríku til Evrópu, byggt á óendanlegri sólarorku þeirrar álfu, verði Evrópa þá ekki orðin sjálfri sér næg með sólar-, vind- og sjávarfallaorku.

Og hvað meinti svo rithöfundurinn mikli með „skemaður“? Blekkingameistari, loddari, hræsnari, en reyndar líka seiðkarl. Simmi seiðkarl? Hljómar ekki illa.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×