Skoðun

Framsóknarfjölmiðlun

Starri Reynisson skrifar

Það er ekki hægt að leggja nógu mikla áherslu á það hversu miklu máli blómlegt og lifandi fjölmiðlaumhverfi skiptir samfélagið. Við hljótum öll að geta verið sammála um það. Því dettur mér ekki í hug að draga í efa að það búi eingöngu góður ásetningur að baki fjölmiðlafrumvarpi Lilju Alfreðsdóttur. Þá ber samt að hafa í huga að vegurinn til glötunar er gjarnan varðaður góðum ásetningi.

Tillaga Lilju gengur fyrst og fremst út á að þeir fjölmiðlar sem mæta ákveðnum skilyrðum geti fengið beinan ríkisstyrk fyrir allt að 18% af ritstjórnarkostnaði. Skilyrðin sem fjölmiðlar þurfa að mæta henta einna best stærri miðlum sem þurfa ekki endilega á stuðningnum að halda. Þá yrði skipuð nefnd sem hefði það hlutverk að fara yfir styrkumsóknir og meta hvaða fjölmiðlar ættu að fá styrk.

Þetta kemur beint úr handbók Framsóknarflokksins um hvernig skuli styðja við þjóðhagslega mikilvægar iðngreinar. Það á að heimfæra landbúnaðarstyrkjakerfi Framsóknarflokksins yfir á fjölmiðlamarkaðinn. Í stað þess að ýta undir aðlögun fjölmiðla að breyttum aðstæðum á markaði á að hjálpa þeim, og jafnvel verðlauna þá fyrir, að viðhalda úreltu rekstrarformi með því að nota ríkisfé til að mæta tapi þeirra. Það er enn eina ferðina verið að skrúfa frá krana sem liggur beint inn í ríkissjóð, en reynslan sýnir okkur að strax og það er búið og gert er nær ómögulegt að skrúfa fyrir aftur.

Enn fremur yrði þetta fyrirkomulag til þess að langflestir fjölmiðlar landsins yrðu háðir stuðningi ríkisins til lengri tíma. Það er ekki heilbrigt, sér í lagi þar sem fordæmi eru fyrir því að íslenskir stjórnmálamenn veitist að fjölmiðlum þegar þeim mislíkar efnistök og fréttaflutningur þeirra. Þannig gæti þessi nálgun dregið talsvert úr getu fjölmiðla til að gagnrýna bæði ríkisvaldið og pólitíska valdhafa hvers tíma.

Höfundur er forseti Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×