Ferðalög

Perlur Íslands: „When in doubt, farðu til Seyðisfjarðar“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Helgi Ómarsson segir að Íslendingar gætu auðveldlega stoppað í viku á Seyðisfirði og fundið eitthvað áhugavert að gera.
Helgi Ómarsson segir að Íslendingar gætu auðveldlega stoppað í viku á Seyðisfirði og fundið eitthvað áhugavert að gera. Mynd/Helgi Ómarsson

„Árið 1999 fluttum við fjölskyldan til Seyðisfjarðar og þar byrjaði hægt og rólega mjög sterkt ástarsamband mitt við bæinn,“ segir ljósmyndarinn Helgi Ómarsson. Hann er búsettur í Danmörku en er í augnablikinu í heimsókn hjá fjölskyldunni á Seyðisfirði. Helgi er bloggari á Trendnet og er með hlaðvarpið Helgaspjallið sem finna má meðal annars á Spotify. Ljósmyndarinn heldur líka úti gullfallegu Instagrammi, sem allir áhugasamir um tísku, ferðalög og heilsu ættu að skoða.

Mynd/Helgi Ómarsson

„Ég hef alltaf sagt að Seyðisfjörður býr yfir magískri orku í andrúmsloftinu. Að alast upp hér þá verður tekur maður margt sem sjálfssögðum hlut en ég flyt frá Djúpavogi sem var líka mikil náttúruperla. Núna þegar ég er búinn að búa erlendis síðustu tíu ár þá fær maður alveg glænýja sýn á hvað Seyðisfjörður er stórkostlegur staður og hvað hann hefur margt að geyma.“

Mynd/Ómar Bogason

Helgi segir að Seyðisfjörður sé hin fullkomna blanda af náttúru og menningu.

„Hér er allt sem maður þarf og gæti ég auðveldlega mælt með að vera hérna í heila viku og það væri nóg hægt að gera og sjá. Hér er hægt að borða geggjaðan mat, pizzurnar á Skaftfelli eru þær bestu úti á landi og þar eru einnig reglulegir matseðlar með hinum ýmsu kúsínum. Hótel Aldan er líka yndisleg, á sumardögum hittast allir fyrir utan og borða geitaostasalat eða eitthvað djúsí. Inni í bænum er líka sundhöllin okkar sjarmatröll bæjarins. Eldgömul sundlaug með krúttlegum draugum og gott vibe.“

Ómar Bogason, faðir Helga, hefur tekið margar gullfallegar myndir á Seyðisfirði. Mynd/Ómar Bogason

Nefnir hann sérstaklega yndislega Vestdalinn.

„Þar eru gönguleiðir upp að fossum, tjörnum og svæðið þarna er ótrúlega fallegt. Vestdalseyrin er einnig mjög sérstök, þar var bæjarlífið áður, þar var kirkja og verslanir. Það er hálf magnað að spá í því þegar maður stendur þarna. En svo er gönguleiðir úti um allan fjörðinn - og inni í bænum eru fjallageitur í öðru hverju húsi sem geta komið með nýjar gönguleiðir fyrir fólk til að prófa.“

Mynd/Ómar Bogason

Í þetta skiptið kom Helgi til Íslands með skipi frá Danmörku og var nokkra daga á leiðinni. Fjölskyldan beið svo eftir honum á bryggjunni.

Mynd/Ómar Bogason

„Á veturna er skíðasvæðið okkar í Stafdal best í heimi og Seyðisfjörður finnst mér geggjaður á veturna. Ég veit ekki hvort bæjarbúar séu sammála mér, en ég er búinn að búa í rennandi blautri Kaupmannahöfn í rúmlega átta ár og sakna snjóstormsins og vetrarríkið sem ég ólst upp við hér.“

Mynd/Ómar Bogason

„When in doubt, farðu til Seyðisfjarðar,“ segir Helgi að lokum.

Mynd/Ómar Bogason

Perlur leynast víða á Íslandi og það er ljóst að sumarið 2020 verða Íslendingar á ferð og flugi um alla landshluta. Vísir verður á flakki með landanum í sumar. Veist þú um perlu sem landsmenn ættu ekki að missa af á ferðalagi? Segðu okkur frá og sendu okkur myndir á netfangið [email protected]. Við birtum valdar frásagnir hér á Vísi.


Tengdar fréttir








×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.