Skoðun

Strigaskór úr kaffi

Hrund Gunnsteinsdóttir skrifar

„Úrgangur og mengun eru ekki slys, heldur afleiðingar ákvarðana okkar. Um 80% af ákvörðunum sem hafa áhrif á umhverfið eru teknar á hugmyndastigi hönnunar,“ segir Ellen MacArthur, en stofnun í hennar nafni er leiðandi hugveita á sviði hringrásarhagkerfisins. „Ef við lítum á sóun sem hönnunargalla, getum við gengið úr skugga um að úrgangur og mengun verða ekki til yfir höfuð.“

„Stærsta viðskiptatækifærið“

Hringrásarhagkerfi er byggt á þeirri grundvallarreglu að hanna burt úrgang og mengun, endurnýta vörur og efni og endurnýja eða endurbyggja náttúruna í leiðinni.

William McDonough, leiðandi sjálfbærni arkitekt við Stanford háskóla og höfundur Cradle to Cradle, segir hringrásarhagkerfið fela í sér „stærsta viðskiptatækifærið sem okkar tegund hefur séð”.

Frans Van Houten, forstjóri Philips, tekur í sama streng en Philips hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir breyting á viðskiptamódelum sínum yfir í hringrásarhagkerfi. “Hjá Philips er markmið okkar að taka aftur á móti öllum vörum sem við höfum selt til heilbrigðisgeirans. Með því að skipta við sama hóp viðskiptavina aftur og aftur, sem í raun eru að kaupa vörur okkar sem þjónustu, getum við skapað mjög arðsaman og endurtekinn tekjustraum.”

Atvinnusköpun á forsendum hringrásar

Um allan heim drekkum við næstum því 2 milljarða kaffibolla á hverjum degi. Stærstur hluti kaffikorgsins fer ofan í vaskinn eða í landfyllingar. Rens framleiðir strigaskó úr kaffikorgi og endurunnu plasti. Hvert par vegur um 460 grömm; 300 grömm eru úr kaffi. Endurunna plastið í hverju pari jafnast á við sex plastflöskur.

Lehigh Technologies er fyrirtæki sem breytir notuðum dekkjum og gúmmíi sem annars yrði hent, í gúmmípúður, sem er notað til að búa til ný dekk, malbik og byggingarefni.

HYLA Mobile starfa í samstarfi við mörg af leiðandi framleiðslu- og þjónustufyrirtækjum heims við að gefa notuðum snjallsímum og - tækjum annað líf. Áætlað er að fyrirtækið hafi endurnotað meira en 50 milljarða tækja, greitt 4 milljarða dollara til eigenda þeirra og komið í veg fyrir að 6500 tonn fari í landfyllingar.

Viðmiðaskipti

Mike Barry, fyrrverandi forstjóri sjálfbærni hjá Marks & Spencer í Bretlandi er þekktur fyrir að vera höfundur ‘Áætlunar A’, sem hafði það markmið að gera M&S sjálfbærasta smásölufyrirtækið í Bretlandi. Mike segir neysluhegðun okkar komna í þrot.

„Ef fram heldur sem horfir, þarf jörðin að framleiða 50% meiri orku, 50% meiri mat, 30% meira vatn næstu áratugina. Þetta mun aldrei takast, nema við breytum neysluhegðun okkar.“

Skrifstofur standa auðar 60% af tímanum, bílar standa óhreyfðir 92-98% af tímanum og þriðjungi matar er sóað. Fimmtíuogsjö prósent alls fatnaðar endar sem landfylling, 35% af öllu efni sem kemur til í virðiskeðjunni endar sem úrgangur áður en flíkin eða vefnaðarvaran fer í hendur kaupenda.

Íslensk hringrás í beinni

Að umbreyta kerfum og viðskiptamódelum krefst víðtækrar samvinnu atvinnulífs, skóla, yfirvalda, sveitafélaga og eintaklinga. Á Janúarráðstefnu Festu 30. janúar næstkomandi, munu fimm ólík, en leiðandi fyrirtæki segja frá vegferð sinni innanlands og erlendis í átt að hringrásarhagkerfinu. Sögur þeirra innihalda áskoranir samfara tækifærum og varpa ljósi á hlutverk ólíkra aðila. Að lokum ætla þau að setja sér metnaðarfull markmið fyrir næstu 12 mánuðina og kynna árangurinn að þeim tíma loknum í samstarfi við Festu.

Höfundur er framkvæmdastjóri Festu.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×