Lífið

Ásta auglýsir eftir aukaleikurum fyrir nýjasta myndbandið

Stefán Árni Pálsson skrifar
Tónlistarkonan Ásta Kristín Pjetursdóttir fékk þrjár tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna.
Tónlistarkonan Ásta Kristín Pjetursdóttir fékk þrjár tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Tónlistarkonan Ásta Kristín Pjetursdóttir auglýsir eftir aukaleikurum á öllum aldri fyrir tónlistarmyndband sitt við lagið Sykurbað, sem finna má á samnefndri breiðskífu.

Platan, sem er frumburður Ástu, kom út í október síðastliðnum og hefur hún hlotið einróma lof gagnrýnenda.

Í síðustu viku kom í ljós að platan fékk þrjár tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna, sem plata ársins í flokki þjóðlagatónlistar, Ásta sem söngkona ársins og lagið Sykurbað sem lag ársins í opnum flokki.

Myndbandið, sem tekið verður upp á ónefndum stað í Reykjavík, er fyrsta tónlistarmyndband Ástu og óhætt er að fullyrða að mikil eftirvænting ríki hjá aðdáendum hennar. Því eru unnendur myndbandsverka hvattir til að hafa samband við Ástu, því um einstakt tækifæri er að ræða til að taka þátt í gerð tónlistarmyndbands.

Tökur á myndbandinu fara fram laugardaginn 29. febrúar 2020 milli 12:30 - 13:30  og er áhugasömum bent á að hafa beint samband við Ástu í gegnum instagram-reikning hennar, @asta.music, eða senda póst á [email protected].






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.