Skoðun

Að fórna flug­freyjum fyrir Flug­leiðir

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir skrifar

Ríkisstjórnin virtist ekki æst í að koma Icelandair til hjálpar í upphafi yfirstandandi þrenginga. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði hreint út að ef björgunartilraunir myndu mistakast þyrfti einfaldlega að stofna nýtt félag.

Skilja mátti á orðum ríkisstjórnarinnar að hún væri ekki tilbúin að veita Icelandair neina sértæka ríkisaðstoð fyrr en félagið kæmi sér í betri fjárhagsstöðu með hagræðingu, hlutafjárútboði og samningum við kröfuhafa sína. Þrátt fyrir þessa andstöðu í orðum fjármálaráðherra var ríkulegur ríkisstuðningur hins vegar uppi á borðum, undir nafninu almennar aðgerðir.

Icelandair var stærsti einstaki notandi hlutabótaleiðarinnar, aðalnotandi uppsagnastyrkja ríkisstjórnarinnar sem svo greiddi félaginu fyrir að halda vissum flugleiðum opnum þrátt fyrir litla sem enga eftirspurn. Áætlaður „almennur“ ríkisstuðningur við Icelandair hefur því þegar hlaupið á milljörðum króna. Fyrir vikið tórir félagið ennþá, þrátt fyrir tekjusamdrátt upp á 85 prósent.

Í skjóli þessa stuðnings ákváðu stjórnendur Icelandair að grafa undan réttindum starfsmanna sinna, sem tók þau áratugi að ná fram. Hvergi var framganga flugfélagsins þó ógeðfelldari en í garð flugfreyja og réttinda þeirra. Ítrekað reyndi forstjóri Icelandair að sundra samtakamætti stéttarinnar með óumbeðnum tölvupóstsendingum til flugliða á viðkvæmum stundum í kjaraviðræðum. Steininn tók svo algjörlega úr þegar félagið sagði upp öllum flugfreyjum á einu bretti og hótaði því að ganga til samninga við annað stéttarfélag. Þessi aðgerð, sem framkvæmd var að undirlagi og með stuðningi Samtaka atvinnulífsins, réðst að undirstöðum réttinda vinnandi fólks á Íslandi.

Meðan þessir opinberu kúgunartilburðir stóðu yfir þögðu stjórnarliðar þunnu hljóði, jafnvel þau sem stilla sér upp með launafólki og kvennastéttum á tyllidögum. Í ærandi þögninni vöknuðu spurningar.

Var um þegjandi samþykki ríkisstjórnarinnar fyrir árás á stéttabaráttu flugfreyja að ræða? Var umrædd aðför jafnvel að áeggjan mannsins sem taldi „ekki tímabært“ að semja við félagið fyrr en „hagræðing í rekstri“ hefði átt sér stað? Þetta eru aðkallandi og eðlilegar spurningar.

Icelandair sætti gagnrýni vegna framgöngu sinnar í samningaviðræðunum við Flugfreyjufélag Íslands.Vísir/Vilhelm

Hefði Icelandair t.d. haft efni á þeim gjörningi að segja upp öllum sínum flugliðum ef ekki hefði verið fyrir uppsagnarstyrki ríkisstjórnarinnar? Hvernig ætti annars að lesa í fagnaðarlæti forsætisráðherra þegar samningar náðust en grafarþögn hennar um þá svívirðilegu samningatækni sem var beitt?

Rökin fyrir því að ríkisstjórnin hafi mögulega stutt þessa aðför að réttindum vinnandi fólks er ekki einungis að finna í þögninni. Rökin er jafnframt að finna í orsök og afleiðingu.

Bjarni sagði Icelandair að þau þyrftu að hagræða í rekstri sínum áður en til skoðunar kæmi að ábyrgjast lán til félagsins. Talað var um að auka hlutafé fyrst, ná samningum við kröfuhafa og ýmislegt fleira. Það eina sem breyttist frá því að Bjarni setti skilyrðin fyrir ríkisaðstoð á borðið, og þar til vilyrði um slíkt lá fyrir, var að Icelandair tókst að hagræða í rekstrinum um milljarða á ársgrundvelli. Hvar fundu þau þá fjárhæð? Jú, í vösum starfsmanna sinna. Laun þeirra voru lækkuð og réttindi rifin niður. Kjaraskerðing sem náð var fram með fordæmalausri aðför að réttindum launafólks.

Í stað viðvörunar ákvað ríkisstjórnin að verðlauna verkalýðsvargana í Icelandair. Aðför í skiptum fyrir aðstoð.

Það var eftir öðru sem frá ríkisstjórninni kemur að aukin velferð starfsmanna Icelandair er hvergi sjáanleg í skilyrðum ríkisaðstoðarinnar. Ef einhver hefur sýnt fram á að þurfa aðhald í réttindamálum starfsfólks, þá er það einmitt flugfélagið.

Stendur til að tryggja að Icelandair endurráði eftir starfsaldri eins og hefð er fyrir? Á að tryggja að Icelandair hætti að refsa þeim flugfreyjum sem tóku þátt í verkalýðsbaráttu? Hvað gerist ef Félagsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að félagið hafi gerst brotlegt við Flugfreyjufélag Íslands í máli ASÍ gegn Icelandair? Ætlar ríkisstjórnin að styðja við félagið eftir slíkan áfellisdóm? Eða mun ríkisstjórnin kannski taka undir með samherjum sínum í Samtökum atvinnulífsins um að lögin séu orðin úrelt og þeim þurfi að breyta?

Ef ríkisstjórninni væri raunverulega annt um velferð launafólks þá hefði hún sett stjórnendum Icelandair, sem hafa afhjúpað sig sem mannauðsmisindismenn, stólinn fyrir dyrnar. Það hefði hún getað gert með því að setja eðlileg skilyrði fyrir stuðningi sínum eða farið fram á eignarhlut í félaginu strax í upphafi ástandsins. Þannig hefði mátt tryggja samstöðu með flugstéttum, við sama samningaborð og forsætisráðherra segist vilja leysa hlutina.

Þess í stað vill VG setja nafn sitt við niðurrif á fornum sigrum verkalýðshreyfingarinnar og fórna flugfreyjum fyrir Flugleiðir.

Höfundur er þingmaður Pírata.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×