Lífið samstarf

Efna til lagasamkeppni við ljóð Hannesar Hafstein

Hannesarholt
Hannearholt stendur nú fyrir lagasamkeppni við ljóð Hannesar Hafstein
Hannearholt stendur nú fyrir lagasamkeppni við ljóð Hannesar Hafstein

„Við verðum að vera skapandi á þessum undarlegu tímum þar sem samverustundir eru færri og fámennari en vant er. Hannesarholt er meðal annars tónlistarhús, en lítið er um tónleika þessa dagana og tækifæri tónlistarfólks færri en vanalega. Þess vegna er lagakeppni eins og þessi mikilvæg bæði sem hvatning og sem stuðningur við íslenskt tónlistarfólk. Við viljum fá alla tegund tónlistar, pönk, rokk, kórverk og klassík og allt þar á milli. Eina skilyrðið er að lagið sé við ljóð Hannesar Hafstein, fyrsta íslenska ráðherrans,“ segir Vigdís Jóhannsdóttir stjórnarformaður Hannesarholts um lagakeppnina Leynist lag í þér? sem stendur nú sem hæst.

Hannesarholt við Grundarstíg 10 hýsir ýmiskonar menningarviðburði. Húsið var byggt árið 1915 fyrir Hannes Hafstein fyrsta ráðherra Íslands og er meðal 15 elstu steinsteyptra húsa í Reykjavík.

Með keppninni er skorað á lagahöfunda að semja nýtt lag fyrir rödd, með eða án undirleiks við ljóð Hannesar og af nægu er að taka. Eftir Hannes liggja hundruð ljóða, ættjarðaróðar, ástarljóð, minningarljóð og drykkjuvísur en hann var þekktur fyrir að yrkja af sömu snilld um ólíkustu efni og tilfinningar.

Hannes Hafstein fæddist 4. desember 1861 og lést 13. desember 1922. Hann var fyrsti ráðherra Íslands 1904 og eftir hann liggja hundruð ljóða og vísna. Síðustu æviár sín bjó Hannes ásamt fjölskyldu sinni að Grundarstíg 10 í Reykjavík og lét sjálfur byggja húsið.

„Ljóðin eftir Hannes má auðvitað finna á bókasöfnum og á netinu en við mælum sérstaklega með að kíkja til okkar í Hannesarholt og fletta í gegnum ljóðabækur Hannesar þar yfir kaffibolla. Markmiðið með keppninni er að tengja nútíð við fortíðina og styðja við tónlistarfólk í dag. Nú eru margir einangraðir heima en það er hægt að vera skapandi. Við höfum staðið fyrir allskonar viðburðum í Hannesarholti haldið tónleika og ráðstefnur, upplestur rithöfunda og kvöldstundir af fjölbreyttu tagi, en þetta er okkar fyrsta lagasamkeppni,“ segir Vigdís og hvetur alla sem vettlingi geta valdið til að senda inn lag.

„Við erum ekki að flækja hlutina varðandi skilareglur, það má glamra lagið hvernig sem er og taka upp á síma og senda inn eða senda inn nótur, hvað sem er, dómnefndin fer yfir öll innsend lög.“

Dómnefndina skipa Þórður Magnússon, Kristjana Stefánsdóttir, Tryggvi M. Baldvinsson og fulltrúar útvarpsstöðva Sýnar.

Þeir sem luma á lagi hafa til 20. október til að senda inn á netfangið [email protected] merkt Það leynist lag í mér. Sigurlagið verður frumflutt á tónleikum í nóvember í Hannesarholti. Vegleg peningaverðlaun eru fyrir efstu 3 sætin auk þess sem allir verðlaunahafar fá að halda einkatónleika í Hljóðbergi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.