Innlent

Banaslys í malarnámu í Þrengslunum

Kolbeinn Tumi Daðason og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Banaslysið varð í nótt.
Banaslysið varð í nótt.

Karlmaður á sextugsaldri fannst látinn í malarnámu í Þrengslunum í morgun. Jarðýta sem maðurinn stjórnaði virðist hafa farið fram af brún og fallið ofan í námuna úr mikilli hæð. Maðurinn var við næturvinnu þegar slysið varð.

Lögreglan á Suðurlandi segir að tilkynning hafi borist rétt upp úr klukkan sjö í morgun til Neyðarlínu um slys í malarnámu suðaustanvert í Lambafelli við Þrengslaveg.

„Þar reyndist jarðýta sem verið var að nota við að losa efni og ýta fram af fjallsbrúninni hafa farið fram af brúninni og ofan í námuna. Stjórnandi vélarinnar, íslenskur karlmaður á sextugs aldri, fannst skammt frá vélinni og reyndist látinn þegar að var komið.“

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var maðurinn við vinnu á afar stórri jarðýtu, þeirri stærstu sem Liebherr framleiðir. Ýtan er af tegundinni Liebherr PR776 Litronic, vegur um 73 tonn og er í eigu GT verktaka sem eru með vinnslu í námunni.

„Það er þannig þegar við vinnum vaktavinnu að þá er bara einn á tækinu á hverjum tíma sem vaktin er,“ segir Gísli Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri GT verktaka, í samtali við fréttastofu.

Hann segist ekki vita til þess að sérstakar kröfur séu um að starfsmenn hafi samband við hvorn annan á vaktinni og láti vita af sér en þeir séu allir í símasambandi og reglulega sé haft samband við þá. „Það er þannig þegar menn eru á vöktum að þeir heyrast alltaf.“

Þá segir hann ekki vitað hvað hafi gerst.

„Það er rétt byrjað að rannsaka þetta, hvað eiginlega gerðist og það veit það enginn. Við höfum ekki heyrt neitt,“ segir Gísli.

Ef í ljós komi að breyta þurfi verkferlum til að tryggja betur öryggi vinnufólks verði farið í þá vinnu.

Tildrög slyssins, sem talið er hafa átt sér stað einhvern tímann á tímabilinu eftir klukkan 23 í gærkvöldi og til morguns, eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi.

„Gott væri að fá upplýsingar, frá vegfarendum um Þrengslaveg á þeim tíma geti þeir upplýst með einhverjum hætti um tímasetningar s.s. hvort þeir hafi séð til vinnu vélarinnar. Slíkum upplýsingum má koma til okkar í síma 444 2000, í tölvupósti á [email protected] eða á facebook síðu lögreglunnar á Suðurlandi.“

Tilkynninguna í heild má sjá að neðan.

Kl. 07:02 í morgun barst Neyðarlínu tilkynning um slys í malarnámu suðaustanvert í Lambafelli við Þrengslaveg. Þar reyndist jarðýta sem verið var að nota við að losa efni og ýta fram af fjallsbrúninni hafa farið fram af brúninni og ofan í námuna. Stjórnandi vélarinnar, íslenskur karlmaður á sextugs aldri, fannst skammt frá vélinni og reyndist látinn þegar að var komið.

Tildrög slyssins, sem talið er hafa átt sér stað einhverntíman á tímabilinu eftir kl. 23:00 í gærkvöldi og til morguns, eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi. Gott væri að fá upplýsingar, frá vegfarendum um Þrengslaveg á þeim tíma geti þeir upplýst með einhverjum hætti um tímasetningar s.s. hvort þeir hafi séð til vinnu vélarinnar. Slíkum upplýsingum má koma til okkar í síma 444 2000, í tölvupósti á [email protected] eða á facebook síðu lögreglunnar á Suðurlandi

Ekki er unnt að veita frekari upplýsingar um rannsóknina að sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×