Viðskipti innlent

Vara við svika­póstum sem sendir hafa verið í nafni DHL og Póstsins

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Valitor varar við svikapóstum í nafni þekktra fyrirtækja. 
Valitor varar við svikapóstum í nafni þekktra fyrirtækja.  NORDICPHOTOS/GETTY

Valitor varar við svikahröppum sem reynt hafa að blekkja korthafa til að staðfesta kort í Apple Pay-snjallsímalausninni eða gefa upp SMS-öryggiskóða. Þannig hafa „sviksamlegir tölvupóstar“ til að mynda verið sendir út í nafni þekktra fyrirtækja á borð við DHL og Póstinn að því er fram kemur í tilkynningu frá Valitor.

Það að óprúttnir aðilar kjósi að senda út slíka tölvupósta í nafni þessara fyrirtækja er sennilega engin tilviljun enda eiga margir eflaust von á pakkasendingum nú í aðdraganda jólanna.

„Dæmi eru um að í tölvupósti sé fólki sagt að sending bíði þeirra og að það þurfi að smella á hlekk og gefa upp kortnúmer og öryggisnúmer greiðslukorts. Sé brugðist við því og kortaupplýsingar gefnar, fylgir gjarnan SMS skilaboð með kóða. Einnig eru dæmi um að fólk sé blekkt með svipuðum hætti til að skrá kortaupplýsingarnar í það sem virðist vera Apple Pay,“ segir í tilkynningu Valitor.

Fyrirtækið ítrekar jafnframt viðvaranir sínar og biðlar þess til almennings að opna ekki hlekki sem fylgja slíkum skilaboðum og að gefa ekki upp korta- eða persónuupplýsingar.

„Einnig er mikilvægt er að gefa alls ekki upp öryggiskóða sem berst með SMS hvort sem um er að ræða kóða til að ljúka við greiðslu, eða ef skilaboðin gefa til kynna að verið sé að skrá kort í Apple Pay. Texta skilaboð þessi innihalda ítarlegar upplýsingar um það sem korthafi er að samþykkja með slíkum staðfestingarkóða og því er afar mikilvægt að lesa vel skilaboðin og áframsenda kóðann ekki í blindni. Því miður eru dæmi um að korthafar hafið tapað háum upphæðum vegna svika af þessum toga,“ segir í tilkynningynni.

Telji fólk sig hafa orðið fyrir barðinu á slíkum svikapósti eða skilaboðum er því bent á að hafa samband við sinn viðskiptabanka eða þjónustuver Valitor. Þá sé hægt að tilkynna svik til lögreglunnar á netfangið [email protected].






Fleiri fréttir

Sjá meira


×