Skoðun

Þekkti ekki dómaframkvæmd

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar

Í máli Benedikts Bogasonar gegn mér vitnaði lögmaður minn til dóms Hæstaréttar 25. september 2014, þar sem Þorvaldur Gylfason hafði verið sýknaður af kröfu minni um ómerkingu tiltekinna ummæla um mig. Þar stóð svo á að sex dómarar í Hæstarétti höfðu ógilt kosningar til svonefnds stjórnlagaþings, sem á árinu 2010 hafði verið kjörið til að fjalla um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Hafði Þorvaldur dylgjað um það í fræðigrein, sem hann birti í ritgerð við háskólann í Munchen, að ég hefði á laun samið eina af kærunum vegna þessara kosninga og síðan stjórnað þeirri afgreiðslu Hæstaréttar að ógilda kosningarnar vegna annmarka á framkvæmd hennar.

Þetta voru býsna alvarlegar ásakanir sem beindust auk mín að hinum dómurunum sem ég átti að hafa stjórnað til verksins. Þetta voru auðvitað ósannar dylgjur. Ég taldi mér skylt að höfða mál á hendur Þorvaldi til að fá þær ómerktar. Hann var sýknaður af kröfu minni. Þó að forsendur fyrir dómsniðurstöðunni í Hæstarétti hefðu að hluta verið undarlegar, var dómurinn fordæmi fyrir því að ekki yrðu lagðar miklar hömlur á tjáningarfrelsi þeirra sem vildu gagnrýna dóma og ákvarðanir Hæstaréttar. Þessi ummæli Þorvaldar um mig voru miklu grófaari en ummæli mín um dóminn í máli Baldurs Guðlaugssonar, sem Benedikt Bogason stefndi mér fyrir.

Sá munur var þar á að Þorvaldur sakaði mig um beinar ólögmætar athafnir en grein mín um mál Baldurs fól í sér rökstudda gagnrýni á efnislegar forsendur dóms réttarins. Um slíkt hlýtur að gilda miklu rýmra tjáningarfrelsi en þegar um ræðir ásakanir um að dómari hafi með beinum athöfnum brotið gegn lögum.

Þess vegna hefði Benedikt átt að vita að ekki yrði vænlegt fyrir hann að stefna mér til ómerkingar ummæla minna um dóminn í máli Baldurs. En hann virtist ekki hafa þekkt lagaframkvæmdina á þessu sviði og óð bara áfram hugsunarlaust eins og bolakálfur.

Upprifjun Þorvaldar Gylfasonar á þessu máli nú styður því ekki málstað Benedikts Bogasonar í málsýfingunum gegn mér, eins og hann virðist telja.

Höfundur er lögmaður.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×