Frítíminn

Hvað er ólíkt með gluggum og raforku?

Pétur Blöndal skrifar
Hár kostnaður hamlar frumkvæði og dregur úr verðmætasköpun.
Hár kostnaður hamlar frumkvæði og dregur úr verðmætasköpun.

Það meikar ekki alltaf sens hvernig vara og þjónusta er verðlögð. Maður skyldi til dæmis ætla að dreifikostnaður rafmagns sé verðlagður eftir kostnaði við dreifingu rafmagns. En sú er ekki raunin.

Gott dæmi um þetta er Laugaland í Borgarfirði, þar sem hjónin Þórhallur og Erla rækta gúrkur af miklum myndarskap, ásamt Hjalta syni sínum. Raflýst gróðurhúsin þekja fjögur þúsund fermetra og nýta þau meira rafmagn en 600 heimili í Borgarnesi. Ekki þarf að lesa á neinn mæli á Laugalandi – hann er með fjarbúnaði. Einhver myndi nú halda að hagræði fælist í öllu þessu. Ekki síst þar sem þau búa svo vel að vera nálægt spennistöð. En það er ekki aldeilis.

Hvað búa margir heima hjá þér?

Dreifikostnaður raforku á svæði dreifiveitunnar RARIK fer nefnilega eftir því hvort byggðakjarninn telur að minnsta kosti 200 manns eða ekki. Gildir þá einu hversu mikið magn er keypt eða hvort staðsetningin er nálægt spennistöð. Fjölskyldan á Laugalandi borgar því mun hærri taxta en hvert og eitt heimili á Borgarnesi og fyrirtækin þar í bæ.

Ef ég fer í verslun og kaupi glugga, þá get ég mögulega fengið magnafslátt ef ég kaupi marga glugga, en ég er aldrei spurður hversu margir búi heima hjá mér

Og spurning vaknar hvað í ósköpunum íbúafjöldi hefur með dreifikostnað raforku að gera – það virðist blasa við að hagræðið við raforkuflutninga felist í magni raforku sem keypt er og hversu einfalt er að flytja það. Enda verður magnið að viðmiði þegar notkunin sprengir skalann og fer yfir 10 megavött, en þá flyst notandinn líka frá RARIK yfir til Landsnets.

„Ef ég fer í verslun og kaupi glugga, þá get ég mögulega fengið magnafslátt ef ég kaupi marga glugga, en ég er aldrei spurður hversu margir búi heima hjá mér,“ segir Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna, þegar rætt er við hann við smíð þessa pistils. „Magnið skiptir RARIK hinsvegar engu máli þegar kemur að verðlagningu raforku – það vill bara telja íbúana!“

Þarf að flytja fólk í iðngarða?

Raunar verður málið enn skrítnara ef við fylgjum raforkustrengnum yfir jörð Laugalands og áfram í gegnum Grábrókarhraunið – leiðin liggur á Bifröst. Þá er íbúaviðmið RARIK aftur nýtt til að reikna út dreifikostnað á rafmagninu. Og þegar þar búa fleiri en 200 manns, þá verður einingaverðið lægra en á Laugalandi. Gildir þá einu, þó að augljóst sé að hagræðið sé mun meira við dreifinguna til Laugalands en Bifrastar.

Þetta undarlega fyrirkomulag skiptir ekki bara fjölskylduna á Laugalandi máli. Hár kostnaður hamlar frumkvæði og dregur úr verðmætasköpun. Nú er talað fyrir iðngörðum víða um land og verður spennandi að fylgjast með framþróun þess máls. Þar skiptir máli að halda kostnaði í skefjum, enda skilar rekstur sprotafyrirtækja sjaldnast tekjum á fyrstu metrunum. Þá bregður svo við, að ekki virðist skipta máli upp á kostnaðinn við dreifingu raforku til þeirra frumkvöðla, sem þar reyna að hasla sér völl, hver áformin eru eða hversu mikla raforku á að nota, heldur gæti þurft að flytja 200 íbúa í iðngarðana til að raforkuverðið verði samkeppnishæft!

Kostar að fara yfir götuna

Raunar getur líka skipt máli hvoru megin götunnar fyrirtækið er staðsett, eins og á Selfossi þar sem byggðin hefur verið að breiðast út frá svæði HS veitna yfir á svæði RARIK. Um leið breytist kostnaður við dreifingu raforkunnar. Það er því jafnvel ekki nóg að vera við sömu götuna, heldur er götunúmerið farið að skipta máli þegar kemur að dreifikostnaði. Eins og allt önnur lögmál gildi um oddanúmer en slétt.

Nú hefur almenningur val um raforkusölufyrirtæki, en ekki um dreifiveitur. Þá vaknar spurningin, hvort ekki sé eðlilegt að gera enn meiri kröfur til þess að verðlagning þjónustunnar meiki sens og sé gagnsæ, þar sem viðskiptavinirnir eiga jú ekki vel um annað.

Bankið í ofninum

„Á ég að gera það?“ spurði Indriði í Fóstbræðrum og fórnaði höndum. Í þessum vikulegu pistlum á laugardögum verður ómakið tekið af Indriða, hlustað eftir banki í ofninum og hver veit nema einhver taki að sér „gera það“ – ganga í að kippa hlutunum í lag. Allar hugmyndir, ábendingar og athugasemdir vel þegnar.

Pétur Blöndal [email protected].






×