Frítíminn

Bankið í ofninum: Kaktus, bráðamóttaka og biðraðir

Pétur Blöndal skrifar
Pétur Blöndal.
Pétur Blöndal.

Óhöppin gera ekki boð á undan sér. Vinur minn fór ekki varhluta af því í hjólaferð til Kanarí. Hann var svona líka spriklandi kátur yfir því að komast í sólina og hitann, en ekki vildi betur til en hann hjólaði utan í kaktus. Það ku víst glettilega algengt þarna úti. Alls ekki notaleg lífsreynsla.

Eins og nærri má geta voru ummerkin talsverð á hjólagarpinum, sem var dágóða stund að plokka nálarnar úr sér. Daginn eftir var förinni heitið heim til föðurlandsins, þannig að hann lét vera að leita læknisaðstoðar ytra, en þegar vélin lenti við Leifsstöð var komin ígerð í sárið og höndin eins og boxhanski.

Hann fór því beinustu leið á bráðamóttökuna á Borgarspítalanum. Þetta var í kringum miðnætti á miðvikudegi og hann var því bjartsýnn á að biðin yrði ekki löng. En ekki fór hjá því að það þyrmdi yfir hann þegar hjúkrunarfræðingurinn í móttökunni færði honum þær fregnir að það væru 62 á undan honum. „Þetta verður ljómandi fín nótt hérna,“ bætti hún við brosandi. Hann tvísteig aðeins og spurði svo með bænarrómi: „Er þetta nokkuð? Get ég ekki bara komið aftur á morgun.“ Hún leit á höndina, hristi höfuðið og sagði ákveðin í bragði: „Nei, nei, þú vilt láta skoða þetta.“

Biðraðir á biðraðir ofan

Ég hef lengi velt því fyrir mér hvers vegna biðin er svona löng eftir þjónustu á bráðamóttökunni í Fossvogi. Nú er rétt að taka fram að vinur minn hjólagarpurinn dáðist að heilbrigðisstarfsfólkinu, flott fólk sem unnið hafi vel undir þessum kringumstæðum. Öll samskipti hafi verið á léttu nótunum og hann meira að segja fengið „lazy boy“-hægindastól eftir tveggja tíma bið.

Svona hefur þetta verið árum ef ekki áratugum saman. Raðir dag eftir dag, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, öllum til armæðu, bæði sjúklingum og heilbrigðisstarfsfólki.

Auðvitað er ekki við starfsfólkið að sakast, en við blasir að vandinn er kerfislægur. Sjálfsagt má venjast öllu, en verður það ekki að teljast alvarlegt mál að hlutirnir gangi ekki hraðar fyrir sig á því sviði heilbrigðiskerfisins sem kallast „bráðamóttaka“? Í orðinu felst jú að fólk sem þangað leitar þurfi bráðnauðsynlega að komast að, enda er orðabókarskilgreiningin „bráð veikindi og slys“. Er ekki dálítið skrítið að einmitt þar sé fólki gert að fara í biðröð – jafnvel klukkutímum saman?

Hvað um tæknina?

Svona hefur þetta verið árum ef ekki áratugum saman. Raðir dag eftir dag, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, öllum til armæðu, bæði sjúklingum og heilbrigðisstarfsfólki. Ef út í það er farið, hvað skyldu allir þessi tímar sem fólk dúsir á biðstofum kosta þjóðfélagið?

Auðvitað eru þetta leikmannspælingar, en maður hlýtur samt að velta upp þeirri spurningu, hvort ekki megi nýta tæknina betur. Það er til dæmis búið að taka upp númerakerfi á Læknavaktinni í Austurveri, þannig að maður getur rölt sér í bakaríið á meðan beðið er, keypt blóm eða látið bursta skóna. Varla telst það byltingarkennd nýjung. Það mætti jafnvel setja upp kerfi með boðum í farsímann þegar styttist í læknisskoðunina. Búið hefur verið til „app“ af minna tilefni. Einhverra hluta vegna er engu slíku fyrir að fara á bráðamóttökunni.

Kostnaður við hvern sjúkling er mun lægri á hjúkrunarheimilum og öðrum þjónustuúrræðum en spítölum. Í fjölgun slíkra rýma felst því sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið, aukið hagræði, minni raðir á bráðamóttöku og betri þjónusta.

Einnig heyrði ég ágæta uppástungu um að komið yrði á fót heilbrigðisþjónustu, sem tæki við fólki með minniháttar áverka eða veikindi allan sólarhringinn. Í anda sólarhringsopnunar apóteksins í Austurveri. Það þarf kannski aðeins minni viðbúnað en heilan spítala til að sauma nokkur spor. Það hefði gagnast öðrum vini mínum sem beið klukkutímum saman, en svo tók innan við tíu mínútur að lappa upp á hann. Myndi það ekki draga úr álaginu í Fossvoginum?

Fleiri hjúkrunarrými

Þegar ég heyrði í lækni sem þekkir vel til á þessu sviði, og spurði hver væri skjótasta leiðin til að grynnka á þessum vanda, þá sagði hann brýnast að útvega fleiri rými á hjúkrunarheimilum, þannig að hægt væri að útskrifa fólk af spítalanum.

Í grunninn snýst þetta sumsé um flæði inn og út af spítalanum og á milli deilda, allt eftir þörfum sjúklinga. Til þess að ástandið sé eðlilegt er miðað við 80-90% umsetningu á hverju rúmi. En nú er staðan sú að venjulegar legudeildir eru með um og yfir 100% nýtingu. Eðli málsins samkvæmt er þá lítið svigrúm til að taka við nýjum sjúklingum.

Það þarf því að tryggja eðlilegt flæði á spítalanum og losa um stíflur. Og það jákvæða er, að í því ætti að felast sparnaður. Kostnaður við hvern sjúkling er mun lægri á hjúkrunarheimilum og öðrum þjónustuúrræðum en spítölum. Í fjölgun slíkra rýma felst því sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið, aukið hagræði, minni raðir á bráðamóttöku og betri þjónusta.

Af hverju er ekki samið?

Einhverra hluta vegna hefur verið látið hjá líða að uppfylla þessa brýnu þörf. Eða eigum við að segja bráðaþörf? Efalaust nokkuð til í gagnrýnisröddum, sem segja það dæmigert fyrir opinber kerfi, þar sem lögmál framboðs og eftirspurnar eiga ekki alltaf upp á pallborðið.

Eftir stendur að margar leiðir eru að þessu marki að fjölga hjúkrunarrýmum og leysa fráflæðisvanda spítalans. Einungis þarf forgangsröðun, fjármagn og framkvæmdavilja. Er það ekki annars?

Það vakti til dæmis athygli mína að í lok árs 2020 lagði heilbrigðisráðuneytið áherslu á að það fengi fjárveitingu upp á 1.350 milljónir króna til þess að semja um rekstur hundrað nýrra hjúkrunarrýma. Fjárheimildin var samþykkt í ríkisstjórn og af Alþingi og er á fjárlögum 2021. En þrátt fyrir bráðaþörfina hafa Sjúkratryggingar ekki enn náð samningum um þessi rými. Það hlýtur að sæta furðu – ekki síst á tímum heimsfaraldurs. Væri ekki strax ákveðin viðleitni að innleysa tékkann?

Það sem meira er, fjárheimildin er fastur liður á fjárlögum, þannig að aðrar 1.350 milljónir bætast við á fjárlögum 2022. Alls er því heimildin komin upp í 2.700 milljónir. En hvar eru hjúkrunarrýmin? Fyrir liggur að mikill áhugi hefur verið fyrir hendi hjá einkaframtakinu að hlaupa undir bagga, en tékkinn liggur óhreyfður í skúffu ráðuneytisins.

Eftir stendur að margar leiðir eru að þessu marki að fjölga hjúkrunarrýmum og leysa fráflæðisvanda spítalans. Einungis þarf forgangsröðun, fjármagn og framkvæmdavilja. Er það ekki annars?


„Á ég að gera það?“ spurði Indriði í Fóstbræðrum og fórnaði höndum. Í þessum vikulegu pistlum á laugardögum verður ómakið tekið af Indriða, hlustað eftir banki í ofninum og hver veit nema einhver taki að sér að „gera það“ – ganga í að kippa hlutunum í lag. Allar hugmyndir, ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar.

Pétur Blöndal: [email protected].






×