Skoðun

Opið bréf til stjórn­valda varðandi Krist­nes­spítala

Kristbjörg Anna Guðmundsdóttir skrifar

Ég er 43 ára öryrki, ég greindist með MS sjúkdóminn árið 2005. Ég fékk tvö stór köst á þeim tíma og var þá með tvö börn, fædd 2001 og 2002. Sem betur fer fékk ég ekki fleiri stór MS köst meðan börnin voru lítil og lífið hélt bara áfram.

Árið 2014 gerist það svo að ég fæ mjög stórt MS kast sem lýsti sér í máttleysi, dofa og slæmum sjóntaugabólgum. Síðan þá hef ég fengið köst reglulega og líkamlegri og andlegri heilsu hrakað verulega sem afleiðing af þeim.

Í dag þarf ég að nota göngugrind á góðum dögum og rafknúinn hjólastól þegar ég er verri, sjónin er orðin mjög slæm og ég þ.a.l. hætt að geta keyrt sjálf og á stundum erfitt með tal.

En þá að Kristnesspítala og hvað hann kemur þessu við.

Síðustu ár hef ég fengið að fara í endurhæfingu á Kristnesi á eins til þriggja ára fresti. Endurhæfingarveran hefur líka nýst sem hvíldarinnlögn fyrir mig og ekki síður fyrir fjölskyldu mína sem þarf að sinna mér dagsdaglega.

Nú hafa stjórnvöld tekið þennan möguleika frá okkur og tekið þá ákvörðun að breyta endurhæfingardeildinni alfarið í dagdeild. Þetta kemur sér að sjálfsögðu afskaplega illa fyrir þá sem eiga erfitt með að koma sér sjálfir á milli svo ekki sé talað um fólk utan Akureyrar sem þarf þá að gista á sjúkrahóteli á Akureyri, hafi það ekki aðra gistingu.

Hér virðist aðeins vera um einfalda sparnaðaraðgerð að ræða þar sem aðstaðan á Kristnesspítala er alveg ágæt og stenst allar kröfur af því er ég best veit.

Ég vil hvetja stjórnvöld til að endurskoða þetta og hvet líka alla sem eru í sömu stöðu og ég að láta í sér heyra.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×