Skoðun

Ég treysti Sólveigu Önnu Jónsdóttur til að leiða Eflingu

Kristín Þorsteinsdóttir skrifar

Ég er Eflingarfélagi og hef verið lengi á vinnumarkaði. Ég hef unnið umönnunarstörf og er í dag félagsliði. Ég man vel eftir þeirri breytingu sem varð í Eflingu þegar Sólveig Anna Jónsdóttir kom inn sem formaður árið 2018.

Sólveigu var og er alveg frábært að starfa með. Hún er réttsýn og hefur komið ýmsu áfram sem hefur lengi verið baráttumál okkar láglaunakvenna. Hlutur okkar hefur verið hennar kappsmál, og árangurinn hefur svo sannarlega komið okkur til góða, til dæmis í síðustu kjarasamningum við sveitarfélögin. Þar sat ég með Sólveigu í samninganefnd og varð vitni að hennar miklu elju við samningaborðið.

Það besta við Sólveigu er að hún missir aldrei baráttuviljann þó svo að á móti blási. Það er einstakur og mjög dýrmætur eiginleiki. Íslenskt þjóðfélag er ekki hannað í kringum þarfir okkar láglaunafólksins og til að fá jafnvel minnstu kjarabætur þarf að berjast af hörku.

Nú er rætt um að leggja fram vantraustsstillögu á Sólveigu vegna skipulagsbreytinga á skrifstofunum. Þess vegna langar mig að segja að ég sem Eflingarfélagi treysti Sólveigu. Ég styð Sólveigu og vona svo sannarlega að aðrar láglaunakonur og láglaunafólk geri það. Það er okkar hagur. Áfram Sólveig!

Höfundur er Eflingarfélagi.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×