Skoðun

Þegar öllu er á botninn hvolft: Sjúkra­þjálfun og grindar­botninn

Fanney Magnúsdóttir skrifar

Enn lifa alltof margar konur við skert lífsgæði vegna vandamála frá grindarbotni. Algengt er að konur trúi því að hluti af því að vera kona og eignast börn feli í sér að þurfa að glíma við þvagleka það sem eftir er. Af þessum ástæðum getur verið erfitt að segja til um algengi vandamála tengdum kvenheilsu, eins og t.d. þvagleka, blöðru- eða legsigs, vegna þess hve margar konur sækja sér ekki aðstoðar. Grindarbotninn er frekar flókið fyrirbæri því ólíkt öðrum beinagrindarvöðvum þá er hann inni í mjaðmagrindinni og við sjáum ekki hvernig hann spennist og slakast þegar við stöndum fyrir framan spegilinn eins og með flesta aðra vöðva. Því er ekki óalgengt að fólk átti sig ekki á staðsetningu, stærð og umfangi grindarbotnsvöðvanna.

Niðurstöður lokaverkefnis míns til meistaragráðu í Líf- og læknavísindum sýndu að konur sem leituðu á Landspítala vegna aðgerðar á sigi grindarholslíffæra voru með 30% minni virkni í grindarbotnsvöðvum en konur í samanburðarhópi. Því má álykta að grindarbotnsþjálfun geti haft verndandi áhrif. Sjúkraþjálfarar með sérþekkingu í kvenheilsu geta lagt mat á virkni grindarbotnsvöðva og leiðbeint með hvaða leið er viðeigandi í þjálfun.

Undanfarið hefur verið vitundarvakning um kvenheilsu og með opnara samfélagi og samfélagsmiðlum hafa konur fengið trú á að þær geti bætt lífsgæði sín. Sífellt fleiri fagmenn hafa sýnt málefninu áhuga, leitað sér þekkingar og sérhæft sig. Þar eru sjúkraþjálfarar engin undantekning. Fleiri og fleiri sjúkraþjálfarar sækja sér námskeið til að geta betur mætt þessum hópi skjólstæðinga, en konur eru jú um helmingur mannkyns. Spurðu sjúkraþjálfara út í hvernig þú getur tryggt heilbrigða starfsemi grindarbotns og notið þeirra sjálfsögðu lífsgæða sem því fylgir.

Höfundur er sjúkraþjálfari.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×