Orðrómur um hugsanlegt framboð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til formanns Sjálfstæðisflokksins á komandi landsfundi er enn ein vísbending um að Guðlaugur Þór og formaðurinn Bjarni Benediktsson gangi ekki í takt. Og að innan flokks skipist menn í sveitir. Líklega er um að ræða eitt verst geymda leyndarmál í íslenskum stjórnmálum. Væntanleg skýrsla Ríkisendurskoðunar um söluna á Íslandsbanka og sviptingar í væntanlegum ráðherrakapal Sjálfstæðisflokksins eru nýtt krydd í ósætti þeirra flokksbræðra. Kenningar þess efnis að Bjarni vilji beita sér fyrir því að það dragist að kynna efni skýrslunnar þar til eftir Landsfund hafa ratað inn á ritstjórnargólf Vísis. Kenningin er sú að ef skýrslan reynist Bjarna erfið eykur það líkur á því að Guðlaugur Þór sæti lags til muna og Bjarni vilji ekki gefa honum slíkt færi. Fátt bítur á formann þótt fylgi standi í stað Bjarni og Guðlaugur Þór tilheyra hvor sínum armi innan Sjálfstæðisflokksins. Bjarni hefur tilheyrt forystu hans lengi og verið formaður frá árinu 2009 þegar hann sigraði Kristján Þór Júlíusson með 58 prósent atkvæða gegn 40 prósentum Kristjáns Þórs. Á þessum tíma var fylgi flokksins farið að dala nokkuð. Flokkur sem var þekktur fyrir að fá sín 40 prósent í Alþingiskosningum var farinn að færast nær 30 prósentum þennan áratuginn. Í kosningunum 2009, eftir hrun, fékk flokkurinn aðeins tæp 24 prósent í kosningunum. Sú var staðan þegar Bjarni tók við sem formaður nokkrum mánuðum síðar. Síðan þá hefur fylgi flokksins í kosningum haldist yfir 20 prósentum en ekki rofið 30 prósenta múrinn. Þó mörgum Sjálfstæðismanni sem á að venjast meiri slætti á sínum flokki gremjist þetta er fátt ef nokkuð sem gefur til kynna að staða Bjarna sem formaður sé veik. Fátt virðist bíta á hann. Nauð stuðnings Guðlaugs Þórs gegn Hönnu Birnu Þó staða Bjarna sé sterk, eins og raun ber vitni, hafa þessar gagnrýniraddir, sem vísa til fyrrum dýrðardaga flokksins, átt hljómgrunn. Færi Guðlaugur fram gegn Bjarna þá væri það ekki í fyrsta skipti sem Bjarni fengi sterkt mótframboð. Pétur heitinn Blöndal bauð sig fram gegn Bjarna á aukalandsfundi árið 2010. Pétur fékk 30 prósenta fylgi gegn 62 prósenta fylgi Bjarna. Hanna Birna Kristjánsdóttir, þá fyrrverandi borgarstjóri, bauð sig fram til formennsku gegn Bjarna á Landsfundi flokksins 2011. Í aðdraganda fundarins var birt skoðanakönnun, unnin af stuðningsfólki Hönnu Birnu, sem benti til þess að mun fleiri væru líklegir til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn með Hönnu Birnu sem formann en Bjarna. Baráttan var ansi hörð en Bjarni hafði sigur með 55 prósentum gegn 44 prósentum Hönnu Birnu. Spilaði þar vafalítið stórt hlutverk að Guðlaugur Þór og hans armur greiddi atkvæði með Bjarna. Sá stuðningur virðist ekki hafa stillt til friðar meðal þeirra Bjarna og Guðlaugs Þórs nema þá til skamms tíma. Á Landsfundi tveimur árum síðar vann Bjarni yfirburðarsigur en athygli vakti að Hanna Birna fékk 19 prósent atkvæða þrátt fyrir að vera ekki í framboði. „Þeir töpuðu“ Tæplega hálft annað ár er liðið síðan Guðlaugur hélt ræðu með stuðningsfólki sínu að loknum dramatískum sigri á Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í baráttunni um oddvitasætið í Reykjavík. Guðlaugur Þór hlaut 3508 atkvæði á móti 3326 atkvæðum Áslaugar Örnu. Hafa verður í huga að Guðlaugur Þór og Áslaug Arna höfðu á þessum tíma setið saman í ríkisstjórn í fjögur ár. Mikið var undir og augljóst að Guðlaugi var létt með sigurinn og undir niðri kraumaði ýmislegt. Áslaug Arna og Bjarni Benediktsson ræða saman undir fjögur augu á þinginu.Vísir/Vilhelm „Þið skulið alveg átta ykkur á því að við höfum kannski haldið að þetta væri tiltölulega einfalt að því leytinu til að sá sem hér stendur hefur mælst vinsælasti ráðherra Sjálfstæðisflokksins, eini Sjálfstæðismaðurinn sem hefur unnið erfiðasta kjördæmi okkar, Reykjavík norður, ekki einu sinni, heldur þrisvar. Samt sem áður var lögð einhver gríðarlega mikil áhersla á það að sjá til þess að sá sem hér stendur, og það er ekki bara ég, heldur þið, myndi ekki fá að vera áfram oddviti. Þið sáuð til þess að allir þeir sem unnu gegn því, að þeir töpuðu,“ sagði Guðlaugur. Stuðningsmenn fögnuðu Guðlaugi innilega og heyrðist kallað „losaðu þig við Bjarna“. Annar kallaði „formaðurinn“ í gleðivímu. Ýmsir stöldruðu við orð Guðlaugs. „Þeir töpuðu“. Þótt Guðlaugur Þór hafi ekki viljað upplýsa frekar hverja hann ætti við, því slík mál væru leyst innanhúss í Sjálfstæðisflokknum, má ljóst vera að Bjarni Benediktsson hefur verið hluti af því mengi. Bjarni og Áslaug Arna eru miklir mátar og naut hún baklands hans í kosningabaráttunni við Guðlaug Þór. Bjarni sagðist ekkert vita til hvers Guðlaugur Þór væri að vísa. Orðin hefðu verið látin falla í hita leiksins. Sumir telja ljóst að Bjarni sjái Áslaugu Örnu fyrir sér sem arftaka sinn sem formaður flokksins þegar hann skilur við formannsstólinn. Með sigrinum minnti Guðlaugur Þór á stöðu sína hjá flokknum. Tap gegn Áslaugu hefði sett hann í erfiða stöðu og í raun útilokað frekari frama innandyra. Ráðherrastóll Guðlaugs Þórs í óvissu? Þegar ný ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins var kynnt í nóvember í fyrra útskýrði Bjarni smá ráðherrakapal sem yrði í dómsmálaráðuneytinu. Jón Gunnarson myndi byrja sem ráðherra en Guðrún Hafsteinsdóttir, nýkjörinn þingmaður, tæki við eftir að hámarki átján mánuði. Fyrir viku var komið annað hljóði í strokkinn hjá Bjarna. Allt í einu útilokaði hann ekki að Jón yrði áfram dómsmálaráðherra. Þó sagðist hann standa við fyrri yfirlýsingu um að Guðrún yrði ráðherra þegar átján mánuðir væru liðnir. „Við skulum bara sjá hvað gerist þegar að því kemur,“ sagði Bjarni í viðtali við RÚV og hélt þétt að sér spilunum. Svo þétt að Guðrún á ekki von á neinu öðru en hún verði dómsmálaráðherra eftir nokkra mánuði. Jón Gunnarsson hefur gegnt embætti dómsmálaráðherra í tæpt ár.Vísir/Vilhelm Erfitt er að draga aðra ályktun af þessu en að Bjarni sé ánægður með störf Jóns sem ráðherra og velti fyrir sér að setja Guðrúnu í embætti annars ráðherra. En hvaða ráðherra? Augljóst má telja að Bjarni mun ekki gera breytingu í óþökk Áslaugar Örnu og því síður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur varaformanns flokksins. Einn ráðherrastóll er eftir. Í honum situr Guðlaugur Þór. Ljóst má telja að Guðlaugur Þór telur Bjarna beina spjótum að sér með þessari óvæntu kúvendingu í ráðherrakapalnum. Jafnvel að stöðu hans sé ógnað. Skýrslan sem alltaf er handan við hornið Við þessa dramatík og flækjur bætist svo, eins og áður hefur verið nefnt, biðin langa eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á fjórðungshlut ríkisins í Íslandsbanka í apríl. Mikill meirihluti landsmanna sagðist í skoðanakönnunum ósáttur við söluna, mótmælt var endurtekið á Austurvelli eða við Ráðherrabústaðinn og ekki bætti úr skák þegar í ljós kom að faðir Bjarna var á meðal kaupenda. Bjarni sagði föður sinn hafa keypt hlut í trássi við sína ósk. Frá mótmælunum á Austurvelli í apríl.Vísir/Einar Bjarni sagðist bera pólitíska ábyrgð á málinu og óskaði eftir því við Ríkisendurskoðun að taka út söluna. Stefnt var á að birta niðurstöðuna í júní. Síðan eru liðnir tæplega fimm mánuðir. Skýrslan er endurtekið sögð handan við hornið en ekkert gerist. Umsagnafrestur rann út í gær og sagði Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi nokkra daga í birtingu skýrslunnar. Aðeins er vika í að Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefjist. Hvort skýrslan verði birt fyrir eða eftir fundinn gæti skipt sköpum varðandi andrúmsloft á þinginu, hver svo sem niðurstaðan verður. Fréttastofa reyndi að kreista nánari tímasetningu birtingar út úr Ríkisendurskoðanda í hádeginu. „Okkur hafa nú borist umsagnir fjármálaráðuneytis og Bankasýslu. Við munum taka þann tíma sem við þurfum til að fara vandlega yfir þessi viðbrögð áður en skýrslan fer til þingsins. Ég vil ekki segja annað um tímamörk á þessu stig,“ segir Guðmundur Björgvin. Guðmundur Björgvin Helgason gegnir embætti ríkisendurskoðanda.Vísir/Vilhelm Því er alls óljóst hvort skýrslan birtist fyrir eða eftir Landsfund. Kæmi Bjarna á óvart Bjarni var spurður út í mögulegt mótframboð Guðlaugs Þórs í viðtali í Bítinu í morgun. „Hann hefur nú ekkert gefið það út enn þá,“ svaraði Bjarni. Hann hefði jú séð frétt Morgunblaðsins í morgun þess efnis að Guðlaugur Þór lægi undir feldi. Hann sagði þó að það myndi koma sér á óvart ef ákveðið yrði að skipta um forystu flokksins þegar aðeins eitt ár er liðið af núverandi kjörtímabili. „Mér finnst hins vegar núna, við erum að hefja þetta kjörtímabil, það er eitt ár búið og það er mikið eftir. Það kæmi mér á óvart, ég verð nú að segja það bara alveg hreint út, ef að menn sæju ástæðu til þess að fara að skipta um forystu flokksins á þessum tímapunkti. Það eru hlutir sem mér finnst kannski eiga frekar heima þegar menn eru að fara inn í kosningar og menn segja: „Heyrðu, nú vil ég leiða flokkinn í kosningum og ganga til samtals við kjósendur,“ sagði Bjarni. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem kvisast hefur út orðrómur um mótframboð Guðlaugs. Hvort Guðlaugur Þór fari fram og taki slaginn, sem vafalítið yrði mjög harður, verður að koma í ljós. Fréttastofa hefur ekki náð tali af Guðlaugi Þór þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Sjálfstæðisflokkurinn Alþingi Salan á Íslandsbanka Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur Fréttaskýringar Formannsslagur Bjarna og Guðlaugs Þórs Tengdar fréttir Segja Guðlaug Þór velta því fyrir sér að sækjast eftir formannsembættinu Samkvæmt áreiðanlegum heimildum veltir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, því nú fyrir sér að bjóða sig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum. 26. október 2022 06:45 Mest lesið Kosningavaktin: Íslendingar ganga að kjörborðinu Innlent Misbýður ummæli um samhljóm stefnu sinnar og Breiviks Innlent Telja sig hafa fundið vísbendingu í máli D.B. Cooper Erlent Kostuleg kosningabarátta: Óvæntar uppákomur og skrautlegir skandalar Innlent Hafa gefið út 99 leyfi til dýratilrauna síðustu fimm ár Innlent Læknar undirrita nýjan kjarasamning Innlent Erfitt að útskýra fyrir þriggja ára að það verði ekkert af afmæli í leikskólanum Innlent „Verðum að bregðast við áður en það verður of seint“ Innlent Haldlögðu metmagn af kókaíni í sameiginlegri aðgerð 62 ríkja Erlent Erlendir fjárfestar buðu fúlgur fjár Innlent
Væntanleg skýrsla Ríkisendurskoðunar um söluna á Íslandsbanka og sviptingar í væntanlegum ráðherrakapal Sjálfstæðisflokksins eru nýtt krydd í ósætti þeirra flokksbræðra. Kenningar þess efnis að Bjarni vilji beita sér fyrir því að það dragist að kynna efni skýrslunnar þar til eftir Landsfund hafa ratað inn á ritstjórnargólf Vísis. Kenningin er sú að ef skýrslan reynist Bjarna erfið eykur það líkur á því að Guðlaugur Þór sæti lags til muna og Bjarni vilji ekki gefa honum slíkt færi. Fátt bítur á formann þótt fylgi standi í stað Bjarni og Guðlaugur Þór tilheyra hvor sínum armi innan Sjálfstæðisflokksins. Bjarni hefur tilheyrt forystu hans lengi og verið formaður frá árinu 2009 þegar hann sigraði Kristján Þór Júlíusson með 58 prósent atkvæða gegn 40 prósentum Kristjáns Þórs. Á þessum tíma var fylgi flokksins farið að dala nokkuð. Flokkur sem var þekktur fyrir að fá sín 40 prósent í Alþingiskosningum var farinn að færast nær 30 prósentum þennan áratuginn. Í kosningunum 2009, eftir hrun, fékk flokkurinn aðeins tæp 24 prósent í kosningunum. Sú var staðan þegar Bjarni tók við sem formaður nokkrum mánuðum síðar. Síðan þá hefur fylgi flokksins í kosningum haldist yfir 20 prósentum en ekki rofið 30 prósenta múrinn. Þó mörgum Sjálfstæðismanni sem á að venjast meiri slætti á sínum flokki gremjist þetta er fátt ef nokkuð sem gefur til kynna að staða Bjarna sem formaður sé veik. Fátt virðist bíta á hann. Nauð stuðnings Guðlaugs Þórs gegn Hönnu Birnu Þó staða Bjarna sé sterk, eins og raun ber vitni, hafa þessar gagnrýniraddir, sem vísa til fyrrum dýrðardaga flokksins, átt hljómgrunn. Færi Guðlaugur fram gegn Bjarna þá væri það ekki í fyrsta skipti sem Bjarni fengi sterkt mótframboð. Pétur heitinn Blöndal bauð sig fram gegn Bjarna á aukalandsfundi árið 2010. Pétur fékk 30 prósenta fylgi gegn 62 prósenta fylgi Bjarna. Hanna Birna Kristjánsdóttir, þá fyrrverandi borgarstjóri, bauð sig fram til formennsku gegn Bjarna á Landsfundi flokksins 2011. Í aðdraganda fundarins var birt skoðanakönnun, unnin af stuðningsfólki Hönnu Birnu, sem benti til þess að mun fleiri væru líklegir til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn með Hönnu Birnu sem formann en Bjarna. Baráttan var ansi hörð en Bjarni hafði sigur með 55 prósentum gegn 44 prósentum Hönnu Birnu. Spilaði þar vafalítið stórt hlutverk að Guðlaugur Þór og hans armur greiddi atkvæði með Bjarna. Sá stuðningur virðist ekki hafa stillt til friðar meðal þeirra Bjarna og Guðlaugs Þórs nema þá til skamms tíma. Á Landsfundi tveimur árum síðar vann Bjarni yfirburðarsigur en athygli vakti að Hanna Birna fékk 19 prósent atkvæða þrátt fyrir að vera ekki í framboði. „Þeir töpuðu“ Tæplega hálft annað ár er liðið síðan Guðlaugur hélt ræðu með stuðningsfólki sínu að loknum dramatískum sigri á Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í baráttunni um oddvitasætið í Reykjavík. Guðlaugur Þór hlaut 3508 atkvæði á móti 3326 atkvæðum Áslaugar Örnu. Hafa verður í huga að Guðlaugur Þór og Áslaug Arna höfðu á þessum tíma setið saman í ríkisstjórn í fjögur ár. Mikið var undir og augljóst að Guðlaugi var létt með sigurinn og undir niðri kraumaði ýmislegt. Áslaug Arna og Bjarni Benediktsson ræða saman undir fjögur augu á þinginu.Vísir/Vilhelm „Þið skulið alveg átta ykkur á því að við höfum kannski haldið að þetta væri tiltölulega einfalt að því leytinu til að sá sem hér stendur hefur mælst vinsælasti ráðherra Sjálfstæðisflokksins, eini Sjálfstæðismaðurinn sem hefur unnið erfiðasta kjördæmi okkar, Reykjavík norður, ekki einu sinni, heldur þrisvar. Samt sem áður var lögð einhver gríðarlega mikil áhersla á það að sjá til þess að sá sem hér stendur, og það er ekki bara ég, heldur þið, myndi ekki fá að vera áfram oddviti. Þið sáuð til þess að allir þeir sem unnu gegn því, að þeir töpuðu,“ sagði Guðlaugur. Stuðningsmenn fögnuðu Guðlaugi innilega og heyrðist kallað „losaðu þig við Bjarna“. Annar kallaði „formaðurinn“ í gleðivímu. Ýmsir stöldruðu við orð Guðlaugs. „Þeir töpuðu“. Þótt Guðlaugur Þór hafi ekki viljað upplýsa frekar hverja hann ætti við, því slík mál væru leyst innanhúss í Sjálfstæðisflokknum, má ljóst vera að Bjarni Benediktsson hefur verið hluti af því mengi. Bjarni og Áslaug Arna eru miklir mátar og naut hún baklands hans í kosningabaráttunni við Guðlaug Þór. Bjarni sagðist ekkert vita til hvers Guðlaugur Þór væri að vísa. Orðin hefðu verið látin falla í hita leiksins. Sumir telja ljóst að Bjarni sjái Áslaugu Örnu fyrir sér sem arftaka sinn sem formaður flokksins þegar hann skilur við formannsstólinn. Með sigrinum minnti Guðlaugur Þór á stöðu sína hjá flokknum. Tap gegn Áslaugu hefði sett hann í erfiða stöðu og í raun útilokað frekari frama innandyra. Ráðherrastóll Guðlaugs Þórs í óvissu? Þegar ný ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins var kynnt í nóvember í fyrra útskýrði Bjarni smá ráðherrakapal sem yrði í dómsmálaráðuneytinu. Jón Gunnarson myndi byrja sem ráðherra en Guðrún Hafsteinsdóttir, nýkjörinn þingmaður, tæki við eftir að hámarki átján mánuði. Fyrir viku var komið annað hljóði í strokkinn hjá Bjarna. Allt í einu útilokaði hann ekki að Jón yrði áfram dómsmálaráðherra. Þó sagðist hann standa við fyrri yfirlýsingu um að Guðrún yrði ráðherra þegar átján mánuðir væru liðnir. „Við skulum bara sjá hvað gerist þegar að því kemur,“ sagði Bjarni í viðtali við RÚV og hélt þétt að sér spilunum. Svo þétt að Guðrún á ekki von á neinu öðru en hún verði dómsmálaráðherra eftir nokkra mánuði. Jón Gunnarsson hefur gegnt embætti dómsmálaráðherra í tæpt ár.Vísir/Vilhelm Erfitt er að draga aðra ályktun af þessu en að Bjarni sé ánægður með störf Jóns sem ráðherra og velti fyrir sér að setja Guðrúnu í embætti annars ráðherra. En hvaða ráðherra? Augljóst má telja að Bjarni mun ekki gera breytingu í óþökk Áslaugar Örnu og því síður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur varaformanns flokksins. Einn ráðherrastóll er eftir. Í honum situr Guðlaugur Þór. Ljóst má telja að Guðlaugur Þór telur Bjarna beina spjótum að sér með þessari óvæntu kúvendingu í ráðherrakapalnum. Jafnvel að stöðu hans sé ógnað. Skýrslan sem alltaf er handan við hornið Við þessa dramatík og flækjur bætist svo, eins og áður hefur verið nefnt, biðin langa eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á fjórðungshlut ríkisins í Íslandsbanka í apríl. Mikill meirihluti landsmanna sagðist í skoðanakönnunum ósáttur við söluna, mótmælt var endurtekið á Austurvelli eða við Ráðherrabústaðinn og ekki bætti úr skák þegar í ljós kom að faðir Bjarna var á meðal kaupenda. Bjarni sagði föður sinn hafa keypt hlut í trássi við sína ósk. Frá mótmælunum á Austurvelli í apríl.Vísir/Einar Bjarni sagðist bera pólitíska ábyrgð á málinu og óskaði eftir því við Ríkisendurskoðun að taka út söluna. Stefnt var á að birta niðurstöðuna í júní. Síðan eru liðnir tæplega fimm mánuðir. Skýrslan er endurtekið sögð handan við hornið en ekkert gerist. Umsagnafrestur rann út í gær og sagði Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi nokkra daga í birtingu skýrslunnar. Aðeins er vika í að Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefjist. Hvort skýrslan verði birt fyrir eða eftir fundinn gæti skipt sköpum varðandi andrúmsloft á þinginu, hver svo sem niðurstaðan verður. Fréttastofa reyndi að kreista nánari tímasetningu birtingar út úr Ríkisendurskoðanda í hádeginu. „Okkur hafa nú borist umsagnir fjármálaráðuneytis og Bankasýslu. Við munum taka þann tíma sem við þurfum til að fara vandlega yfir þessi viðbrögð áður en skýrslan fer til þingsins. Ég vil ekki segja annað um tímamörk á þessu stig,“ segir Guðmundur Björgvin. Guðmundur Björgvin Helgason gegnir embætti ríkisendurskoðanda.Vísir/Vilhelm Því er alls óljóst hvort skýrslan birtist fyrir eða eftir Landsfund. Kæmi Bjarna á óvart Bjarni var spurður út í mögulegt mótframboð Guðlaugs Þórs í viðtali í Bítinu í morgun. „Hann hefur nú ekkert gefið það út enn þá,“ svaraði Bjarni. Hann hefði jú séð frétt Morgunblaðsins í morgun þess efnis að Guðlaugur Þór lægi undir feldi. Hann sagði þó að það myndi koma sér á óvart ef ákveðið yrði að skipta um forystu flokksins þegar aðeins eitt ár er liðið af núverandi kjörtímabili. „Mér finnst hins vegar núna, við erum að hefja þetta kjörtímabil, það er eitt ár búið og það er mikið eftir. Það kæmi mér á óvart, ég verð nú að segja það bara alveg hreint út, ef að menn sæju ástæðu til þess að fara að skipta um forystu flokksins á þessum tímapunkti. Það eru hlutir sem mér finnst kannski eiga frekar heima þegar menn eru að fara inn í kosningar og menn segja: „Heyrðu, nú vil ég leiða flokkinn í kosningum og ganga til samtals við kjósendur,“ sagði Bjarni. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem kvisast hefur út orðrómur um mótframboð Guðlaugs. Hvort Guðlaugur Þór fari fram og taki slaginn, sem vafalítið yrði mjög harður, verður að koma í ljós. Fréttastofa hefur ekki náð tali af Guðlaugi Þór þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Segja Guðlaug Þór velta því fyrir sér að sækjast eftir formannsembættinu Samkvæmt áreiðanlegum heimildum veltir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, því nú fyrir sér að bjóða sig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum. 26. október 2022 06:45