Lífið

Hætti við að selja húsið og ætlar að lifa bíl­lausum lífs­stíl

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sigmar Vilhjálmsson segir að um samfélagslega tilraun verði að ræða.
Sigmar Vilhjálmsson segir að um samfélagslega tilraun verði að ræða. Vísir/Vilhelm

At­hafna­maðurinn Sig­mar Vil­hjálms­son, betur þekktur sem Simmi Vill, ætlar að lifa bíl­lausum lífs­stíl í sumar. Hann segist ný­byrjaður að skoða hjól og kveðst spenntur fyrir því sem hann kallar á­huga­verða sam­fé­lags­til­raun.

Simmi kynnti á­form sín fyrir fylgj­endum sínum á sam­fé­lags­miðlinum Twitter nú síð­degis. „Maður þarf vist að kynna ser málin áður en maður rífur kjaft. Ég tek á­skorun um að vera bíl­laus í sumar (90%),“ skrifar at­hafna­maðurinn á miðlinum.

„Ég hef legið undir á­mæli fyrir það að vera svo mikill tals­maður bílsins og hef iðul­lega að­eins fett fingur út í þröng­sýnt fólk sem heldur því fram að það sé bara hægt að komast af á hjóli,“ segir Simmi í sam­tali við Vísi.

Snýst um að skipu­leggja daginn

„Verandi ein­stæður faðir að þá hugsaði ég með mér að þetta gæti verið skemmti­leg prufa. Svo sjáum við til hversu lengi hún endist.“

Hann segist enn vera að leita sér að hjóli í verk­efnið. Simmi býr dýpst í Mos­fells­bænum, í Leir­vogstungu og vinnur í Skútu­voginum þar sem Míni­garðurinn hefur að­setur.

„Yngsti drengurinn er kominn með bíl­próf þannig að það verður ekki vesenið, heldur er þetta meira spurning um að breyta inn­kaupunum, panta á netinu, skipu­leggja daginn betur í bak­pokann og hvernig maður verður klæddur í vinnuna þann daginn.“

Ætlar að taka út reið­hjóla­stígana

Simmi segist vera spenntur fyrir á­skoruninni og segist ætla að leyfa fylgj­endum sínum á Insta­gram að fylgjast vel með. Hann er ein­mitt þekktur fyrir líf­legar færslur á þeim miðli.

„Ég mun taka út reið­hjóla­stígana og sjá hvort það sé rétt­lætan­leg notkun á þessum stígum miðað við fram­kvæmda­kostnaðinn á þeim. Það er mikil sam­fé­lags­rýni í þessu fólgin, fyrir utan það að mér veitir ekkert af þessari hreyfingu heldur.“

Tók húsið af sölu

„Stóra fréttin er að ég tók húsið mitt meira að segja af sölu. Ég hætti við að selja. Fyrir utan það að það selst ekkert þá var ég með auga­stað á annarri eign í bænum. Þannig að ég verð bara þarna í sveitinni.“

Hug­myndin hafi verið að kaupa annað hús og gera það upp. „En svo fór það og þá er þetta bara svona. Þannig jú, þetta er löng vega­lengd. Ég er sveita­maður, úr sveit og bý í sveit,“ segir Simmi léttur í bragði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.