Áskorun

Full­orðin og feimin: Átta góð ráð

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Feimni er svo algeng og það að þjálfa sig í að draga úr henni, snýst ekki um neinar karakterbreytingar heldur frekar að taka nokkur hænuskref þannig að okkur líði oftar betur innan um aðra.
Feimni er svo algeng og það að þjálfa sig í að draga úr henni, snýst ekki um neinar karakterbreytingar heldur frekar að taka nokkur hænuskref þannig að okkur líði oftar betur innan um aðra. Vísir/Getty

Það er svo ömurlegt að upplifa sig einu manneskjuna í hópi sem þorir varla að segja eitt orð upphátt af feimni. Sérstaklega þegar svo virðist sem allir aðrir eigi svo auðvelt með þetta: Hlæja, tala saman. Spjalla í rólegheitunum.

Feimni er samt svo algeng. Líka hjá fullorðnum. Og þegar þú upplifir að þú sér eina manneskjan á svæðinu sem ert að upplifa feimni með tilheyrandi kvíðahnút í maganum, er ágætt að muna að það eru pottþétt einhverjir fleiri feimnir í hópnum.

Meira að segja Laddi, einn ástsælasti gamanleikari þjóðarinnar, er sagður feiminn!

En hvernig fer þá annað fólk að þessu?

Jú. Að þjálfa sig í því að vera minna feimin er mögulegt. Það er samt best að taka þjálfunina í litlum skrefum. Og í því viðhorfi eingöngu að ætla að bæta úr því hvernig okkur líður sjálfum innan um fólk. Því já, þetta snýst fyrst og fremst um að vera við sjálf en ná að slappa aðeins meira af innan um aðra. Engar karkakterbreytingar nauðsynlegar.

Hér eru nokkur góð ráð sem gætu hjálpað.

1. Hænuskrefin þín

Við erum öll ólík. Þannig að það fyrsta sem við gerum er að ákveða hvaða hænuskref eru bestu hænuskrefin fyrir okkur. Ef það er til dæmis stórt skref að tala tvisvar sinnum oftar en ella í fjölskylduveislu, þá er það frábært. Þótt það innifeli bara setningu eins og „já ég er alveg sammála.“ Það er bara fínt.

Hjá sumum gæti það verið að prófa sömu aðferð á kaffistofunni í vinnunni. Sjáðu fyrir þér aðstæður þar sem þú nærð að skjóta inn einni setningu og ef þér finnst það erfið tilhugsun, láttu það þá bara nægja að kinka kolli (eða hrista höfuðið) sem þátttöku í samtali.

Haltu þessari æfingu áfram og finndu út hvaða hænuskref hafa þýðingu fyrir þig.

2. Styrkleikarnir þínir

Það sem feimnin fær okkur stundum til að gera er að hugsa meira um hvar við upplifum okkur ekki sterk á velli, frekar en að velta fyrir sér öllu því sem við þó erum sérstaklega góð í.

Staðreyndin er hins vegar sú að við eigum ÖLL okkar styrkleika. Spurningin er bara hvernig við getum nýtt þá oftar og meira, þannig að við séum að njóta okkar.

Gott skref í þjálfuninni okkar er að velja okkur einhver atriði sem okkur finnst við vera góð í og reyna að stinga þeim oftar inn í. Þessi æfing felur í sér uppbyggingu á sjálfinu okkar. Þú þarft því ekki að finna eitthvað sem kallar á samskipti við annað fólk.

Dæmi: Í vinnunni vitum við að það er eitthvað sem okkur tekst alveg sérstaklega vel úr hendi að gera. Fókusum á það, þótt það kalli ekki á einhver aukaleg samskipti. Gerum meira af því sem við erum góð í og æfum okkur í að vera stolt og finna hversu megnug við erum.

3. Á hvern ert þú að horfa?

Oft líður okkur eins og allra augu beinist að okkur. Að þegar við erum feimin, þá hljóti það að vera augljóst öllum öðrum.

Það er samt ekki reyndin.

Hið mannlega er að við erum öll svo ofboðslega upptekin af okkur sjálfum. Skiptir þá engu hvort við erum feimin eða ófeimin. Allir eru alltaf fyrst og fremst að hugsa um sjálfan sig.

Pældu til dæmis í því hvort þú sért alveg rosalega mikið að fylgjast með einhverjum öðrum þegar þú ert innan um fólk. Eflaust gerir þú minna af því en þú heldur en ef þú gerir það, fylgstu þá sérstaklega með þeim einstaklingi sem þér finnst hafa margt jákvætt til brunns að bera. Hvað er svona jákvætt hjá viðkomandi? Brosið? Jákvæðnin? Hógværðin?

Ósjálfrátt getum við æft okkur í að eflast í einhverju jákvæðu ef við leyfum okkur að dást að því sem okkur finnst jákvætt. Það á líka við um fólk. 

4. Uppbyggileg ritstjórn

Við erum alveg ótrúlega hörð við okkur sjálf. Niðurrifið í hausnum á okkur getur verið svo svakalega dómhart að aldrei nokkurn tíma myndum við sýna öðru fólki sömu dómhörku.

Í ofanálag eigum við það til að endurhugsa atvik og aðstæður, setningar og samtöl, þar sem við jafnvel rífum okkur niður í hugsunum eins og „ég hefði ekki átt að segja þetta,“ eða „ég hefði átt að gera hitt.“

Í stað þess að vera þessi harði leiðinlegi niðurrifs ritstjóri, er um að gera að snúa hlutverkinu við og fara yfir það daglega hvað okkur fannst ganga rosalega vel hjá okkur. Þetta þarf ekkert að vera neitt sem snertir annað fólk. Veljum bara að hugsa um nokkur atriði sem við erum sjálf ánægð með eftir daginn.

5. Að „falla“

Eins og alkóhólistinn þá er fall alveg mögulegt, sama hversu vel gengur hjá okkur. Hver kannast til dæmis ekki við að vera í megrun eða hreyfingarátaki en eiga síðan aðra daga?

Já, það að falla smá eða eiga ekki auðveldan dag er í góðu lagi líka og bara mannlegt. Aðalmálið er að staldra ekkert við það eða halda að eitthvað sé ekki að ganga hjá okkur. Við höfum nægan tíma í þetta verkefni enda engum sem kemur það við nema okkur sjálfum.

Höldum áfram að hafa trú á því að okkur takist að bæta úr okkar eigin líðan.

6. Skilningur og samkennd

Eitt atriði má síðan ekki gleymast og það er að sýna okkur sjálfum samkennd og skilning. Eins og við gerum almennt við annað fólk.

Mjög líklega eru til dæmis góðar skýringar á því hvers vegna við erum feimin. Stundum er þetta genatískt, uppeldislegt, eitthvað sem gerðist í æsku og svo framvegis.

Aðalmálið er að rífa okkur ekki niður fyrir feimnina. Hún er partur af okkur og hefur eflaust komið að gagni einhvern tíma. Hefur mótað margt sem gott er, ekki bara eitthvað slæmt. Þannig að sýnum okkur samkennd og leyfum okkur að finnast vænt um okkur sjálf. Þótt við séum feimin að upplagi.

7. Hvaða félagsskapur nærir þig?

Loks er það fólkið í kringum okkur. Almennt eigum við öll að temja okkur að sækjast í jákvæðan og uppbyggilegan félagsskap. Að sækjast í fólk sem okkur líður vel með, en erum ekki óörugg með. Stundum er þetta erfitt. Við veljum okkur hvorki vandamenn né vinnufélaga.

En við veljum okkur vini.

Sumir vinir eru gamlir vinir en þó einstaklingar sem okkur finnst ekkert endilega alltaf gaman að vera með. Ef svo er, þá er allt í lagi að draga úr þeim samverustundum. Allir mega taka sitt pláss og eitt af því sem við höfum fullt leyfi til að gera er að ráðstafa því sjálf með hverjum við verjum okkar tíma með.

8. Að ræða við fagaðila

Loks eru það aragrúi fagaðila sem við getum leitað til. Sálfræðingar, þerapistar, markþjálfar. Með einföldu gúggli gætum við fundið námskeið, sérfræðing eða einhvern annan aðila sem við teljum henta okkur ef við viljum taka sjálfsvinnuna okkar skrefinu lengra og leita utanaðkomandi hjálpar. Það er bara frábært þegar það er hægt!


Tengdar fréttir

„Þetta er enginn helvítis félagskvíði, það bara þolir mig enginn“

„Þetta er enginn helvítis félagskvíði, það bara þolir mig enginn. Ég er bara svona. Ég er svona vegna þess að það er meitlað í genin mín“ segir Ásmundur Gunnarsson, sérfræðingur í klínískri sálfræði hjá Kvíðamistöðinni vera dæmi um setningar sem félagskvíðinn segir við okkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.