Viðskipti innlent

Allsherjarinnköllun á krabba­meins­valdandi leik­föngum

Árni Sæberg skrifar
Mest hefur selst af boltum og litlum dótafarartækjum.
Mest hefur selst af boltum og litlum dótafarartækjum. HMS

Allsherjarinnköllun stendur nú yfir á Rubbabu leikföngum, sem eru úr mjúku gúmmíi með flauelsmjúku yfirborði, en mest hefur selst af boltum og litlum farartækjum á hjólum. Leikföngin innihalda of mikið af efni sem getur verið krabbameinsvaldandi.

Í fréttatilkynningu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun segir að innflutningsaðili sé Nordic Games og flest leikföngin hafi verið seld í gegnum verslun Margt og Mikið, en nokkur eintök hafi farið í verslanir Aftur-Nýtt ehf., Bókaverzlun Breiðafjarðar og Kaupfélags Vestur Húnvetninga.

Krabbameinsvaldandi við inntöku og snertingu

Þá segir að við prófanir eftirlitsaðila hafi komið í ljós að leikföngin innihalda of mikið magn af nítrósamín (NDMA, NDBA,NDEA) sem geti verið krabbameinsvaldandi við inntöku eða snertingu við húð.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun beini því til allra eigenda þessara vara að hætta notkun þeirra þegar í stað. Viðskiptavinir geti haft samband við söluaðila í gegnum tölvupóst á [email protected] eða í síma 565-4444.

Nokkuð mikil dreifing

Í tölvubréfi HMS til fjölmiðla er lögð áhersla á mikilvægi þess að koma tilkynningunni á framfæri við almenning. Í þessu tilviki sé um að ræða leikföng sem ætluð eru ungum börnum.

„Fyrir liggur að dreifing varanna er nokkuð mikil hérlendis m.t.t. mannfjölda og því brýnt að innköllunin nái eyrum sem flestra og þess vegna leitum við til ykkar. Rétt er að taka fram að HMS vinnur með innflytjanda varanna að innköllun þeirra á markaði hérlendis.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×