Lífið

Katrín og Markus orðin tveggja barna for­eldrar

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Katrín Edda og Markus eignuðust dreng í gær.
Katrín Edda og Markus eignuðust dreng í gær. Instagram

Katrín Edda Þorsteinsdóttir, áhrifavaldur og verkfræðingur, og eiginmaður hennar Markus Wasserbaech eignuðust sitt annað barn í gær. Fyrir eiga þau eina dóttur, Elísu Eyþóru sem verður tveggja ára í desember.

Katrín Edda leyfði áhugasömum fylgjendum sínum á Instagram að fylgjast með aðdraganda fæðingarinnar og frumsýndi soninn þegar hann var aðeins nokkurra klukkustunda gamall.

„Þessi herramaður kom með miklum hvelli kl. 14:52 í dag og stækkaði hjörtu okkar margfalt,“ skrifar Katrín Edda og deilir myndum af syninum.

Uppgefin eftir daginn

Katrín birti fæðingarsöguna skömmu eftir að drengurinn kom í heiminn. Hún segir að henni hafi hvorki liðið vel líkamlega né andlega eftir átökin.

„Þegar ég hélt ég væri með 1 í útvíkkun fékk ég skyndilega þörf til að ýta, missti vatnið, út kom haus og í kjölfarið búkur á litlum kalli í superman stöðu með hönd undir kjálka. Allt á ca 10 mínútum.

Ég viðurkenni að mér leið alls ekki vel eftir fæðinguna, hvorki líkamlega né andlega. Ég var hálfpartinn í móki eftir sjokkið og vissi varla á hvað ég væri að horfa þegar ég horfði á bláan líkamann á stráknum mínum á gólfinu sem gaf ekki frá sér nokkuð hljóð fyrr en ljósmæður höfðu nuddað hann, blásið í andlitið hans og hann rak loks upp gríðarmikið öskur,“ segir meðal annars í færslunni.

Katrín Edda hefur talað opinskátt á samfélagsmiðlum um glímuna við ófrjósemi og þann langþráða draum um að eignast barn. Sá draumur rættist þegar Elísa Eyþóra kom í heiminn þann 17. desember 2022. Katrín Edda leyfði fylgjendum sínum að fylgjast með allri meðgöngunni.

Katrín og Markus gengu í hnapphelduna við fallega athöfn í Garðakirkju síðastliðið sumar en það var í annað sinn sem hjónin létu pússa sig saman. Fyrri athöfnin fór fram í Stuttgart í Þýskalandi í miðjum heimsfaraldri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.