Lífið

Conan O'Brien verður kynnir á Óskarnum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Það eru fáir eins hressir og Conan O'Brien.
Það eru fáir eins hressir og Conan O'Brien. EPA/JON OLAV

Bandaríski grínistinn, handritshöfundurinn, framleiðandinn og fyrrverandi spjallþáttastjórnandinn Conan O'Brien mun verða kynnir á Óskarsverðlaununum 2025. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akademíunni.

Þetta er í fyrsta skiptið sem grínistinn tekur að sér að verða kynnir. Síðustu tvö ár hefur spjallþáttastjórnandinn Jimmy Kimmel verið kynnir á hátíðinni.

O'Brien tilkynnti sjálfur ráðninguna á sinn einstaka hátt á samfélagsmiðlum og grínaðist með að Ameríka hefði krafist þess og það hefði loksins gerst að nú væri komin ný ostasósa á Taco Bell. Í öðrum óspurðum fréttum yrði hann kynnir á Óskarsverðlaunahátíðinni.

Fram kemur í tilkynningu frá framleiðendum verðlaunahátíðarinnar að þeir séu himinlifandi með valið. O'Brien sé fullkominn í hlutverkið, hann elski kvikmyndir, sé reynslubolti í sjónvarpi og nái einstökum tengslum við áhorfendur.

Conan O'Brien er líklega þekktastur fyrir að hafa í rúm tuttugu ár stýrt spjallþáttum þar sem hann fékk til sín öll helstu frægðarmenni Hollywood. Þar áður var hann handritshöfundur ýmissa grínþátta um margra ára skeið líkt og Saturday Night Live og The Simpsons. O'Brien hefur verið tilnefndur til 31 Emmy verðlauna og þar af hlotið fimm.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.