Lífið

Snerti taug leik­stjóra Forrest Gump á Kjarvalstofu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Robert Zemeckis og Tom Hanks á frumsýningu Here í Kaliforníu í október síðastliðnum.
Robert Zemeckis og Tom Hanks á frumsýningu Here í Kaliforníu í október síðastliðnum. Getty/Monica Schipper

Robert Zemeckis, leikstjóri Forrest Gump og Back to the Future þríleiksins, segist opinn fyrir því að skjóta bíómyndir á Íslandi. Hann hefur áhyggjur af þeirri þróun sem orðið hefur á síðustu árum þar sem áherslan hefur færst yfir á framleiðslu sjónvarpsefnis á kostnað bíómynda.

Iceland Noir, bókmenntahátíð myrkurs og morða hófst með opnunarhátíð í gærkvöldi. Ragnar Jónasson og Yrsa Sigurðardóttir, tveir af helstu glæpasagnahöfundum þjóðarinnar, hafa haft veg og vanda af hátíðinni undanfarin ár, og lofa enn meiri fjölbreytni en áður. Heimir Már Pétursson ræddi við skipuleggjendur og gesti í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.

„Hátíðin hefur þróast og stækkað. Við byrjuðum á því að fjalla um glæpasögur og nú erum við komin með kvikmyndir, ljóð og hvers kyns bókmenntir. Í ár erum við með Zemeckis hjónin, David Walliams grínista og barnabókahöfund, Charles Spencer bróður Díönu prinsessu sem hefur skrifað bækur líka, við erum með Anthony Horowitz, Ann Cleeves sem hefur skrifað bækurnar um Veru og leikkonan sem leikur Veru líka, Brenda Blethyn, þannig að það er alls konar áhugavert,“ segir Ragnar.

Ragnar og Yrsa ásamt Zemeckis hjónunum.Vísir/Sigurjón

„Fyrir utan stóru nöfnin er þetta ágætis tækifæri til að kynnast höfundum sem maður hefur ekki heyrt um áður, til dæmis Leslie Zemeckis konuna hans Roberts. Þá kannski finnur maður sinn nýja uppáhaldshöfund sem maður hefur aldrei heyrt um. Þetta er í bland stór nöfn og nöfn sem fáir þekkja,“ segir Yrsa.

Zemeckis hjónin hafa komið einu sinni áður til Íslands. Það upplýstu þau í spurt og svarað með Ragnari á Kjarvalsstofu í gær. Þau hefðu endurtekið flogið yfir Ísland á ferðum sínum milli Bandaríkjanna og Evrópu og fyrir rúmum áratug ákveðið að tími væri kominn til að heimsækja land og þjóð.

Zemeckis hjónin spjalla við Ragnar og svarar spurningum í sal á Kjarvalsstofu í Austurstræti.Vísir/Sigurjón

„Við tókum börnin með,“ sagði Leslie og var á þeim að heyra að þau hefðu notið dagana á landinu. Þau virtust ekki muna nöfnin á þeim stöðum sem þau hefðu heimsótt á sínum tíma að frátöldu Bláa lóninu.

Einstakt samband við Tom Hanks

Leslie Zemeckis er metsöluhöfundur, leikkona auk þess að hafa sérhæft sig í heimildamyndagerð. Hún hefur lagt áherslu á rödd kvenna í kvikmyndagerð og má sjá Ted-fyrirlestur hennar hér að neðan.

Aðspurð hvaða mynd eiginmanns hennar stæði upp úr grínaðist hún að það væru auðvitað myndirnar sem hún hefði leikið í. Á heiðarlegri nótum nefndi hún Forrest Gump, óskarsverðlaunamynd Roberts Zemeckis frá árinu 1994.

Robert Zemeckis var spurður út í hvaða leikarar sem hann hefði unnið með hefðu staðið upp úr. Þar sagðist hann þakklátur fyrir að hafa unnið með frábærum leikurum og leikkonum en nefndi þó sérstaklega Tom Hanks. Stórleikarinn skildi ólíkt mörgum öðrum leikurum hvað fælist í því að gera bíómynd. Hann skyldi ferlið og allt það sem leikstjóri þyrfti að hafa í huga. Þeir skyldu hlutverk hvers annars og Hanks hefði orð á því að hann vissi alltaf hvenær þyrfti að endurtaka tökuna. Hann hreinlega heyrði það á blæbrigðunum í rödd Zemeckis þegar hann segði „cut“ að lokinni töku.

Zemeckis var spurður að því hvaða leikara hann væri spenntur til að vinna með í framtíðinni. Eftir að hafa hugsað sig um í nokkra stund nefndi Zemeckis írsk-bandarísku leikkonuna Saoirse Ronan.

Ari Eldjárn grínisti var meðal gesta í salnum og spurði Zemeckis út í bíómyndina Who Framed Roger Rabbit frá árinu 1988. Myndin er blönduð kvikmynd að því leyti að hún er bæði leikin og teiknuð. Myndin hlaut mikið lof og varð að metsölumynd. Athygli vakti að breski leikarinn Bob Hoskins var valinn til að leika aðalhlutverkið sem var nokkuð óvænt val. Ari hafði heyrt að Eddie Murphy hefði verið meðal þeirra sem hefðu komið til greina.

Zemeckis sagði að við vinnu á Who Framed Roger Rabbit hefðu framleiðendurnir áttað sig á því að þeir þyrftu ekki risanafn í aðalhlutverkið heldur frábæran leikara. Huskins hefði komið í prufu og einfaldlega neglt hlutverkið. Honum hefði tekist frábærlega upp að leika senur á móti teiknimyndapersónu þar sem áskorunin er að eiga samtöl og sýna viðbrögð við einhverju sem er ekki til staðar.

Sem betur fer engin alvitur í Hollywood

Afrekaskrá Roberts Zemeckis er löng og glæsileg. Back to the Future þríleikurinn kom honum á kortið í lok níunda áratugarins og við tóku stórmyndir á borð við Death Becomes Her, Forrest Gump, Contact, Cast Away og The Polar Express svo helstu smellir séu týndir til. Tom Hanks og Robin Wright, stjörnurnar úr Forrest Gump, sameina þessa dagana krafta sína á ný í kvikmyndinni Here í leikstjórn Zemeckis en myndin er komin í sýningar í kvikmyndahúsum um allan heim. Þar vinnur Zemeckis með handritshöfundinum Eric Roth en þeirra samstarf hefur reynst gæfuríkt í gegnum árin.

Zemeckis segir hafa reynst áskorun að koma Back to the Future að hjá bandarísku kvikmyndaframleiðundunum á sínum tíma. Hann hafi gengið á milli stúdíóa og rætt við mörg hver oftar en einu sinni. Að lokum hafi einhver bitið á agnið og sannarlega ekki séð eftir því.

„Sem betur fer höfum við þann kost í Hollywood að þar er enginn alvitur,“ sagði Zemeckis á léttum og nótum og virtist vísa til þess að ómögulegt væri að vita fyrir víst hvaða kvikmyndir muni falla í kramið og hverjar ekki. Við val sitt á verkefnum velti hann sjálfur fyrir sér hvort hann sjálfur hefði áhuga á að sjá slíka mynd og hvort almenningur hefði áhuga á myndinni.

Óttast um bíómyndirnar á breyttum tímum

Zemeckis hefur gert bíómyndir sem hundruð milljóna hafa séð á stórum skjám í kvikmyndasölum um heim allan. Kvikmyndir með frábæra kvikmyndatónlist, oft unna af Alan Silvestri eins og í tilfelli Forrest Gump. Blaðaamður spurði Zemeckis hvort það væri hætta á að almenningur væri að missa af frábærum bíómyndum á tímum þar sem svo mikil orka fer í að gera sjónvarpsþætti og sjónvarpsmyndir.

„Þarna snertir þú taug,“ sagði Zemeckis og greinilegt að hann hefur sterkar skoðanir, jafnvel áhyggjur af stöðu mála. Hann sagði margt hafa breyst í Hollywood og framleiðslunni frá fyrri tímum. Þá hefði kórónuveirufaraldurinn haft áhrif á áhuga fólks á að fara í bíó. Samkomutakmarkanir hefðu leitt til þess að fólk færi síður á mannamót. Það væri líka orðið of þægilegt að liggja uppi í sófa með fjarstýringuna í hönd.

„Þú horfir á mynd í fimm mínútur og svo skiptirðu. Gefur annarri séns í fimm mínútur en hættir svo. Og ákveður að horfa bara á Back to the Future í enn eitt skiptið,“ sagði Zemeckis. 

Fólk væri að fara á mis við töfra kvikmyndahúsanna; í myrkvuðum sal með stóran skjá og gott hljóðkerfi, umkringt ókunnugu fólki sem upplifi bíómyndina saman. 

Manstu hvar þú sást Forrest Gump?

Mátti greina að gestir á Kjarvalsstofu, sem voru nokkrir tugir, kinkuðu kolli og jafnvel veltu fyrir sér breytingunni sem orðið hefði undanfarin ár og áratugi. Mörgum eflaust minnistætt þegar þau sáu Forrest Gump í íslenskum bíósal fyrir þrjátíu árum. Og löbbuðu út úr salnum eftir stórkostlega upplifun sem varði í 142 mínútur með einu hléi fyrir popp og piss, og spjall um bíómyndina. Ekkert áreiti frá símanum í vasanum þínum, ljósinu á síma næsta manns eða óvæntri hringingu einhvers staðar úr salnum til að spilla fyrir upplifuninni.

Þá má nefna að Zemeckis sagðist í fréttum Stöðvar 2 í gær opinn fyrir því að skjóta kvikmynd á Íslandi, í hinu drungalega íslenska landslagi. Þannig að hver veit, kannski verður næsta stórmynd kappans tekin á íslenskri grundu.

Áhugasamir geta hlýtt á frekara samtal Ragnars Jónassonar við Zemeckis hjónin í Fríkirkjunni í dag klukkan 17. Miðaverð er 13.900 krónur á alla viðburðina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.