Sjö marka fyrri hálf­leikur skaut Skyttunum í annað sætið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arsenal vann öruggan sigur í bráðfjörugum leik.
Arsenal vann öruggan sigur í bráðfjörugum leik. Justin Setterfield/Getty Images

Arsenal vann afar öruggan 5-2 sigur er liðið heimsótti West Ham í Lundúnaslag í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Óhætt er að segja að fyrri hálfleikurinn hafi verið hin mesta skemmtun og fyrsta markið lét sjá sig strax á tíundu mínútu þegar Gabriel skallaði hornspyrnu Bukayo Saka í netið.

Leandro Trossard batt svo endahnútinn á snyrtilega spilamennsku gestanna þegar hann renndi boltanum í opið markið á 27. mínútu og á þeirri 34. bætti Martin Ødegaard þriðja markinu við af vítapunktinum.

Tveimur mínútum síðar skoraði Kai Havertz svo fjórða mark Arsenal og útlitið heldur betur orðið svart fyrir Hamrana. Aaron Wan-Bissaka minnkaði hins vegar muninn fyrir heimamenn á 38. mínútu og tveimur mínútum síðar skoraði Ítalinn Emerson glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu og munurinn kominn niður í tvö mörk á einu bretti.

Sjöunda mark fyrri hálfleiksins lét sig þó ekki vanta. Bukayo Saka lagði sín lóð á vogarskálarnar þegar hann skoraði af vítapunktinum á fimmtu mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks og staðan í hálfleik því 5-2, Arsenal í vil.

Eftir markasúpu í fyrri hálfleik létu mörkin á sér standa í þeim síðari og niðurstaðan varð 5-2 sigur Arsenal. Með sigrinum lyfti liðið sér upp í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 25 stig, sex stigum minna en topplið Liverpool. 

West Ham situr hins vegar í 14. sæti með 15 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira