Skoðun

Reiður framkvæmdastjóri

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), Sigurður Jónsson, virðist hafa verið æva­reiður þegar hann skrifaði grein í Fréttablaðið 9. nóvember. Reiðin beindist að ríkisskattstjóra, Indriða H. Þorlákssyni, fyrir ummæli hans um blekkingu verslunarinnar í auglýsingum um niðurfellingu virðisaukaskatts.

Í framhaldinu hellir Sigurður úr skálum reiði sinnar yfir skattstjórann vegna komuverslunar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE). Enn eina ferðina, heldur Sigurður því fram að fyrirkomulag á komuverslun í FLE sé siðlaus og ólögleg um leið og hann gengur erinda stórkaupmanna sem nú þegar eiga stóran hluta markaðarins hérlendis og vilja að sjálfsögðu LÍKA komast í kynni við þær tæpu tvær milljónir farþega sem leið munu eiga um FLE árlega.

Í komuverslun Fríhafnarinnar í FLE er allur rekstur samkvæmt lögum og reglum þar að lútandi og mér finnst ósmekklegt að draga starfsmenn Fríhafnarinnar inn í umræðuna með þeim hætti sem gert er. Þeir vinna sitt verk samviskusamlega og hafa náð góðum árangri sem líklega fer fyrir brjóstið á þeim sem þarna vilja komast að.

Þá er þessi skoðun Sigurðar, um samkeppni við verslun á höfuðborgarsvæðinu, æði langsótt, ef skoðuð er kauphegðun ferðalanga. Halda menn í alvöru, að þessi verslun og þar af leiðandi tekjurnar sem henni fylgja, flytjist ekki á aðra flugvelli ef komuverslun verður lögð niður, eins og Sigurður leggur til? Og ef komuverslun verður aflögð, verðum við af tekjum, sem flytjast til útlanda, ekki í vasa stórkaupmanna í landinu og allir tapa. Hvert ætlum við þá að sækja fjármagn til þess að halda áfram nauðsynlegri uppbyggingu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar? Jú, með aukinni skattheimtu á ferðalanga sem leið eiga um Flugstöðina, sem varla getur talist hvati í ferðaþjónustu.

Það er því í þágu almannahagsmuna að reka komuverslun í FLE með því sniði sem nú er og því miður fyrir Sigurð og hans umbjóðendur hafa fleiri aðkomu að málinu en ríkið eitt og sér, því aflagning komuverslunar hefur neikvæð áhrif á fjölmarga aðila, ferðaþjónustuna innanlands, flugfélögin og ferðamennina sjálfa. Víða í kringum okkur, hafa verið opnaðar komuverslanir á flugvöllum, að okkar fyrirmynd, svo hér er ekki um einsdæmi að ræða.

Þá bendi ég einnig á að í FLE er boðið upp á fyrsta flokks aðstöðu til endurgreiðslu virðisaukaskatts fyrir þá erlendu ferðamenn sem verslað hafa hjá umbjóðendum Sigurðar innanlands. Nú þegar er hafin framkvæmd við stækkun FLE og á komandi misserum verða opnaðar nýjar verslanir og boðið upp á fjölbreytta þjónustu sem í öllum tilfellum er rekin af einkaaðilum. Það hlýtur því að vera umhugsunarefni fyrir aðila SVÞ hvort framkvæmdastjórinn þeirra vinnur þeim gagn, með gífuryrðum, dónaskap og klárum rangfærslum. Óska ég samtökunum velfarnaðar og vona að Sigurði renni reiðin fyrir jól.

Höfundur er stjórnarmaður í Fríhöfninni ehf.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×