Skoðun

Ofbeldi án refsingar

Vændi

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur kynnt í ríkisstjórn frumvarp um breytingar á kynferðisbrotakafla hegningarlaga. Meðal breytinga er að refsiákvæði um að stunda vændi er afnumið og lagt er bann við að auglýsa vændi. Báðar breytingarnar eru spor í rétta átt en það vantar mikilvægasta skrefið, sem er að gera kaup á vændi refsivert. Skoðanir fólks eru skiptar um hvaða leið er best að fara, hvort sem fólk er hlynnt vændi eða ekki. Því miður líta sumir enn svo á að vændi eigi að flokkast með frjálsum viðskiptum manna á milli en slík afstaða viðheldur völdum karlmanna yfir konum. Þau sem eru andsnúin vændi greinir líka á um leiðir en kvennahreyfingin hér á landi hefur sameinast um afdráttar­lausa afstöðu, að fara sænsku leiðina.

Meirihluti þeirra sem eru seld í vændi og mansal eru konur en flestir kaupenda eru karlar. Kynjavinkillinn er skýr þar sem karlmönnum er í raun tryggður aðgangur að líkömum kvenna og þeirra karla sem lenda neðst í valdapíramídanum. Afleiðingar vændis eru svipaðar afleiðingum kynferðisofbeldis og skömmin og niðurlægingin er hvergi meiri en hjá þeim sem eru í vændi. Þessar manneskjur þarfnast félagslegra úrræða til að komast út úr erfiðum aðstæðum. Rétt eins og við refsum fólki ekki fyrir sjálfsmorðstilraunir eða aðrar sjálfsmeiðingar heldur réttum þeim hjálparhönd þurfum við að koma eins fram við þau sem eru í vændi.

Hvað varðar kaupendur er staðan allt önnur. Hver einasti kaupandi á að vita að hann er að skaða aðra manneskju og beita hana ofbeldi. Kaupandinn á að vita um háa tíðni kynferðisofbeldis í fortíð vændiskvenna, tenginguna við fíkniefni, neyð og mansal. Hann á einnig að vita að ef svo ólíklega vill til að hann lendi á hinni hamingjusömu hóru þá tryggir hann með kaupunum að hamingjan endist ekki lengi þar sem afleiðingarnar verða á endanum eins og í öðru kynferðisofbeldi. Það er því með ólíkindum að samfélag sem kallar sinn samtíma upplýsingaöld nýtir ekki þá þekkingu sem til er með því að gera kaup á vændi refsivert.

Höfundur er talskona Femínistafélags Íslands.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×