Tvítyngdur hversdagsleiki Jón Kaldal skrifar 25. september 2007 00:01 Undanfarna daga hafa ýmsir orðið til þess að velta fyrir sér hvort kominn sé tími til að auka vægi enskunnar í íslensku samfélagi. Innan fjármálageirans hafa heyrst hugmyndir um að taka ensku upp sem vinnumál og á laugardag skrifaði Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, hugleiðingu í Morgunblaðið þar sem kom fram að rétt væri að „huga að tvítyngdri stjórnsýslu, íslenskri og enskri". Yfir þessu mætti eflaust súpa hveljur ef þetta væri ekki nú þegar nákvæmlega sá veruleiki sem starir í augun á okkur í gráum hversdagsleikanum. Eða réttara sagt glymur í eyrunum á okkur á hverjum degi; þegar við förum út í búð að versla, á kaffihús að panta okkur drykk, í leik- og grunnskólana að sækja börnin okkar eða á sjúkrahúsin og elliheimilin að heimsækja þá sem eru veikir eða gamlir. Alls staðar mætir okkur fólk sem hefur aðra tungu en þá íslensku að móðurmáli og enskan er gjarnan það samskiptatæki sem gripið er til. Ekki er langt síðan sigldir Íslendingar gátu sagt sögur af því að hafa fengið far með túrbanklæddum leigubílstjórum í New York sem voru illa mæltir á tungu heimamanna, og þótti merki um fjölbreytileika heimsborgarinnar. Hverjum hefði dottið í hug að svipuð staða gæti komið upp hér? Umheimurinn hélt sem sagt í innrás til Íslands á sama tíma og athafnamennirnir fóru í sína útrás. Og vissulega hefur þetta valdið ákveðnum vanda. Það skilja ekki allir, í orðsins fyllstu merkingu, breytingarnar. Sá sem hér skrifar var staddur í bakaríi fyrir skömmu þegar inn kom maður og vildi kaupa kjallarabollu. Afgreiðslustúlkan skildi ekki óskina og enskan lék ekki á tungu mannsins, sem var kominn yfir miðjan aldur. Viðskiptin leystust sem betur fer friðsamlega en þeim var ákveðin vorkunn hvort sínum megin við afgreiðsluborðið. Hvað er eiginlega kjallarabolla á ensku? „A cellar bun"? Í raun og veru er málið ekki lengur spurningin um hvort taka skuli upp ensku í auknum mæli - stundin fyrir þá ákvörðun fór fram hjá okkur fyrir allnokkru án þess að við hefðum nokkuð um hana að segja - heldur hvernig við bregðumst við komu hennar. Ein leið er með geðvonsku og leiðindum eins og útlendingar í þjónustustörfum mega þola á hverjum degi og sagt er frá í Fréttablaðinu í dag. Hin er með jákvæðni og vissum skammti af þakklæti. Staðreyndin er sú, og nauðsynlegt er að allir hafi hana á hreinu, að ef ekki væru hér þúsundir útlendinga að störfum þá væri Ísland óstarfhæft. Í því samhengi er líka rétt að ítreka að útlendingar leika meðal annars lykilhlutverk í umönnun aldraðra og barna, og þau störf eru svo sannarlega límið í samfélagi okkar. En auðvitað tala ekki allir ensku og samskiptin geta orðið snúin. Þá er gott að hafa á bak við eyrað að útlendingarnir eru heldur ekki allir sterkir á svellinu í enskunni. Svo er líka hægt að áorka mörgu með bendingum og vænum skammti af brosi. Eða eins og Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahússins orðar það: „Hver og einn getur hjálpað til með því að sýna vinsamlegt viðmót og aðstoða frekar viðkomandi við að læra eitt eða tvö orð." Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Kaldal Mest lesið Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Borgum rétta vexti - Landsbankinn verði banki allra landsmanna Baldur Borgþórsson Skoðun Braggablús Ölmu Eyþór Kristleifsson Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Afreksverk Lilju Daggar Alfreðsdóttur Atli Valur Jóhannsson Skoðun Fyrirtæki sem stundar stórfelld mannréttindabrot í Palestínu haslar sér völl á Íslandi Hjálmtýr Heiðdal Skoðun Helvítis Píratarnir Unnar Þór Sæmundsson Skoðun Fullorðins greining á loftslags stefnumálum Páll Gunnarsson,Matthías Ólafsson Skoðun Stórsigur fyrir lífeyrisþega Guðmundur Ingi Kristinsson Skoðun
Undanfarna daga hafa ýmsir orðið til þess að velta fyrir sér hvort kominn sé tími til að auka vægi enskunnar í íslensku samfélagi. Innan fjármálageirans hafa heyrst hugmyndir um að taka ensku upp sem vinnumál og á laugardag skrifaði Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, hugleiðingu í Morgunblaðið þar sem kom fram að rétt væri að „huga að tvítyngdri stjórnsýslu, íslenskri og enskri". Yfir þessu mætti eflaust súpa hveljur ef þetta væri ekki nú þegar nákvæmlega sá veruleiki sem starir í augun á okkur í gráum hversdagsleikanum. Eða réttara sagt glymur í eyrunum á okkur á hverjum degi; þegar við förum út í búð að versla, á kaffihús að panta okkur drykk, í leik- og grunnskólana að sækja börnin okkar eða á sjúkrahúsin og elliheimilin að heimsækja þá sem eru veikir eða gamlir. Alls staðar mætir okkur fólk sem hefur aðra tungu en þá íslensku að móðurmáli og enskan er gjarnan það samskiptatæki sem gripið er til. Ekki er langt síðan sigldir Íslendingar gátu sagt sögur af því að hafa fengið far með túrbanklæddum leigubílstjórum í New York sem voru illa mæltir á tungu heimamanna, og þótti merki um fjölbreytileika heimsborgarinnar. Hverjum hefði dottið í hug að svipuð staða gæti komið upp hér? Umheimurinn hélt sem sagt í innrás til Íslands á sama tíma og athafnamennirnir fóru í sína útrás. Og vissulega hefur þetta valdið ákveðnum vanda. Það skilja ekki allir, í orðsins fyllstu merkingu, breytingarnar. Sá sem hér skrifar var staddur í bakaríi fyrir skömmu þegar inn kom maður og vildi kaupa kjallarabollu. Afgreiðslustúlkan skildi ekki óskina og enskan lék ekki á tungu mannsins, sem var kominn yfir miðjan aldur. Viðskiptin leystust sem betur fer friðsamlega en þeim var ákveðin vorkunn hvort sínum megin við afgreiðsluborðið. Hvað er eiginlega kjallarabolla á ensku? „A cellar bun"? Í raun og veru er málið ekki lengur spurningin um hvort taka skuli upp ensku í auknum mæli - stundin fyrir þá ákvörðun fór fram hjá okkur fyrir allnokkru án þess að við hefðum nokkuð um hana að segja - heldur hvernig við bregðumst við komu hennar. Ein leið er með geðvonsku og leiðindum eins og útlendingar í þjónustustörfum mega þola á hverjum degi og sagt er frá í Fréttablaðinu í dag. Hin er með jákvæðni og vissum skammti af þakklæti. Staðreyndin er sú, og nauðsynlegt er að allir hafi hana á hreinu, að ef ekki væru hér þúsundir útlendinga að störfum þá væri Ísland óstarfhæft. Í því samhengi er líka rétt að ítreka að útlendingar leika meðal annars lykilhlutverk í umönnun aldraðra og barna, og þau störf eru svo sannarlega límið í samfélagi okkar. En auðvitað tala ekki allir ensku og samskiptin geta orðið snúin. Þá er gott að hafa á bak við eyrað að útlendingarnir eru heldur ekki allir sterkir á svellinu í enskunni. Svo er líka hægt að áorka mörgu með bendingum og vænum skammti af brosi. Eða eins og Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahússins orðar það: „Hver og einn getur hjálpað til með því að sýna vinsamlegt viðmót og aðstoða frekar viðkomandi við að læra eitt eða tvö orð."
Fyrirtæki sem stundar stórfelld mannréttindabrot í Palestínu haslar sér völl á Íslandi Hjálmtýr Heiðdal Skoðun
Fyrirtæki sem stundar stórfelld mannréttindabrot í Palestínu haslar sér völl á Íslandi Hjálmtýr Heiðdal Skoðun