Spurning um miðjuna Þorsteinn Pálsson skrifar 14. nóvember 2007 00:01 Valdaskiptin í Reykjavíkurborg hafa leitt til nokkurra heilabrota um hvort vænta megi sams konar atburða við ríkisstjórnarborðið. Forystumenn stjórnarflokkanna eru þráspurðir um þetta ýmist af sjónarhóli vonar eða ótta. Atburður af því tagi sem varð í Reykjavík er til marks um að sviptivindar eru einfaldlega fyrirbrigði sem heyra til veðurfars í stjórnmálum. Þeir eru eitthvað sem menn þurfa að vera viðbúnir hvenær sem er bæði í samstarfi innan flokka og milli flokka. Þá er ekki unnt að útiloka. Núverandi stjórnarsamstarf er ekki á nokkurn hátt óháð þessu lögmáli. Þeir sem sjá þrýstilínur mögulegra pólitískra veðrabrigða benda aðallega á tvennt: Annars vegar rökréttan metnað þeirra sem standa næst forystu Samfylkingarinnar til að hún hefjist til þess vegs að sitja við enda ríkisstjórnarborðsins. Hins vegar ólíkar skoðanir stjórnarflokkanna í nokkrum veigamiklum málum. Hvort tveggja má styðja rökum. Kjarni málsins er þar á móti sá að það eru fleiri kerfi sem hafa áhrif á veðurkorti stjórnmálanna. Stjórnmálabaráttan hefur um langan tíma þróast inn að miðjunni. Gömlu átökin um hvort ríkið eða einstaklingarnir ráðstafi þjóðartekjunum eru orðin að eins konar sátt á miðjunni. Það er ekki deilt um hversu stór sneið atvinnulífsins á að vera, heldur hitt hversu frjálst það á að vera til athafna innan settra marka. Með öðrum orðum er það vöxturinn sem skiptir máli en ekki hlutfallsleg stærð sneiðarinnar. Stjórnmálaflokkar sem ætla að hafa langtímaáhrif verða að njóta trúnaðar á miðjunni. Tvö grundvallarmál ráða úrslitum þar um. Á annan vænginn er það staðfesta um að hækka ekki skatta og á hinn vænginn varðstaða um velferðarkerfið. Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur haldið sig lengst til vinstri og ekki reynt að færa sig nær miðjunni. Þannig hefur flokkurinn haldið mjög skýrri sérstöðu. Vanda Samfylkingarinnar í stjórnarandstöðu mátti að hluta til rekja til sameiginlegs uppruna þessara tveggja flokka. Meðan ímynd Samfylkingarinnar byggðist alfarið á skírskotun til hugsanlegs samstarfs við VG átti hún eðlilega í erfiðleikum með að ná trúnaði eða fótfestu á miðjunni. Það leiddi af sjálfu sér. Samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn getur hins vegar breytt þessari ímynd smám saman. Sjálfstæðisflokkurinn er í annarri stöðu. Hann á litla möguleika á að rjúfa stjórnarsamstarfið með samvinnu lengra til vinstri í huga. Það er möguleiki sem Samfylkingin á. Kjósi hún hins vegar að nýta hann er hætt við að hún glati á ný þeim ávinningi sem hún hefur af samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn sem felst í því að byggja upp traust á miðjunni. Að öllu virtu sýnast langtímahagsmunir Samfylkingarinnar því ekki vera fólgnir í því að búa til aðstæður við ríkisstjórnarborðið líkar þeim sem áttu sér stað í Reykjavík. VG hagnýtti þær aðstæður vel til þess að ná þar undirtökum. Í þessu ljósi sýnast yfirlýsingar formanna stjórnarflokkanna um góðan anda í stjórnarsamstarfinu vera trúverðugar. Að baki þeim eru augljósir langtímahagsmunir sem báðir flokkarnir þurfa að gæta að. Hvorugur má við því að tapa trúnaði á miðjunni. Næsta kjörtímabil er svo opin bók. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Borgum rétta vexti - Landsbankinn verði banki allra landsmanna Baldur Borgþórsson Skoðun Braggablús Ölmu Eyþór Kristleifsson Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Afreksverk Lilju Daggar Alfreðsdóttur Atli Valur Jóhannsson Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Fyrirtæki sem stundar stórfelld mannréttindabrot í Palestínu haslar sér völl á Íslandi Hjálmtýr Heiðdal Skoðun Helvítis Píratarnir Unnar Þór Sæmundsson Skoðun Fullorðins greining á loftslags stefnumálum Páll Gunnarsson,Matthías Ólafsson Skoðun Stórsigur fyrir lífeyrisþega Guðmundur Ingi Kristinsson Skoðun
Valdaskiptin í Reykjavíkurborg hafa leitt til nokkurra heilabrota um hvort vænta megi sams konar atburða við ríkisstjórnarborðið. Forystumenn stjórnarflokkanna eru þráspurðir um þetta ýmist af sjónarhóli vonar eða ótta. Atburður af því tagi sem varð í Reykjavík er til marks um að sviptivindar eru einfaldlega fyrirbrigði sem heyra til veðurfars í stjórnmálum. Þeir eru eitthvað sem menn þurfa að vera viðbúnir hvenær sem er bæði í samstarfi innan flokka og milli flokka. Þá er ekki unnt að útiloka. Núverandi stjórnarsamstarf er ekki á nokkurn hátt óháð þessu lögmáli. Þeir sem sjá þrýstilínur mögulegra pólitískra veðrabrigða benda aðallega á tvennt: Annars vegar rökréttan metnað þeirra sem standa næst forystu Samfylkingarinnar til að hún hefjist til þess vegs að sitja við enda ríkisstjórnarborðsins. Hins vegar ólíkar skoðanir stjórnarflokkanna í nokkrum veigamiklum málum. Hvort tveggja má styðja rökum. Kjarni málsins er þar á móti sá að það eru fleiri kerfi sem hafa áhrif á veðurkorti stjórnmálanna. Stjórnmálabaráttan hefur um langan tíma þróast inn að miðjunni. Gömlu átökin um hvort ríkið eða einstaklingarnir ráðstafi þjóðartekjunum eru orðin að eins konar sátt á miðjunni. Það er ekki deilt um hversu stór sneið atvinnulífsins á að vera, heldur hitt hversu frjálst það á að vera til athafna innan settra marka. Með öðrum orðum er það vöxturinn sem skiptir máli en ekki hlutfallsleg stærð sneiðarinnar. Stjórnmálaflokkar sem ætla að hafa langtímaáhrif verða að njóta trúnaðar á miðjunni. Tvö grundvallarmál ráða úrslitum þar um. Á annan vænginn er það staðfesta um að hækka ekki skatta og á hinn vænginn varðstaða um velferðarkerfið. Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur haldið sig lengst til vinstri og ekki reynt að færa sig nær miðjunni. Þannig hefur flokkurinn haldið mjög skýrri sérstöðu. Vanda Samfylkingarinnar í stjórnarandstöðu mátti að hluta til rekja til sameiginlegs uppruna þessara tveggja flokka. Meðan ímynd Samfylkingarinnar byggðist alfarið á skírskotun til hugsanlegs samstarfs við VG átti hún eðlilega í erfiðleikum með að ná trúnaði eða fótfestu á miðjunni. Það leiddi af sjálfu sér. Samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn getur hins vegar breytt þessari ímynd smám saman. Sjálfstæðisflokkurinn er í annarri stöðu. Hann á litla möguleika á að rjúfa stjórnarsamstarfið með samvinnu lengra til vinstri í huga. Það er möguleiki sem Samfylkingin á. Kjósi hún hins vegar að nýta hann er hætt við að hún glati á ný þeim ávinningi sem hún hefur af samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn sem felst í því að byggja upp traust á miðjunni. Að öllu virtu sýnast langtímahagsmunir Samfylkingarinnar því ekki vera fólgnir í því að búa til aðstæður við ríkisstjórnarborðið líkar þeim sem áttu sér stað í Reykjavík. VG hagnýtti þær aðstæður vel til þess að ná þar undirtökum. Í þessu ljósi sýnast yfirlýsingar formanna stjórnarflokkanna um góðan anda í stjórnarsamstarfinu vera trúverðugar. Að baki þeim eru augljósir langtímahagsmunir sem báðir flokkarnir þurfa að gæta að. Hvorugur má við því að tapa trúnaði á miðjunni. Næsta kjörtímabil er svo opin bók.
Fyrirtæki sem stundar stórfelld mannréttindabrot í Palestínu haslar sér völl á Íslandi Hjálmtýr Heiðdal Skoðun
Fyrirtæki sem stundar stórfelld mannréttindabrot í Palestínu haslar sér völl á Íslandi Hjálmtýr Heiðdal Skoðun